Erla Bergþórsdóttir fæddist í Ólafsvík 16. júní 1941. Hún andaðist á sjúkrahúsi Blönduóss 27. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bergþór Steinþórsson, f. í Ólafsvík 26. nóv. 1921, d. 22. sept. 2001, og Helga Ólafsdóttir, f. á Brimisvöllum á Snæfellsnesi 25. júní 1913, d. 13. mars 1998. Systkini Erlu eru Guðrún Geirmundsdóttir, f. 13. sept. 1935, d. 6. febr. 1985, Guðmundur Bergþórsson, f. 9. febr. 1950, Þorsteinn Bergþórsson, f. 30. júní 1951, Ásdís Unnur Bergþórsdóttir, f. 17. júlí 1952, Hrönn Bergþórsdóttir, f. 30. okt. 1953, Freyja Elín Bergþórsdóttir, f. 29. sept. 1956, Björk Bergþórsdóttir, f. 5. sept. 1958, Aron Karl Bergþórsson, f. 10. des. 1959, og Jóhanna Bergþórsdóttir, f. 22. okt. 1964.

Erla eignaðist sitt fyrsta barn, Helgu Hauksdóttur, 8. maí 1963 með sambýlismanni sínum, Hauki Heiðdal, f. 12. júlí 1941 á Patreksfirði, sonur Önnu Sigríðar Jóhannesdóttur, f. 7. nóv. 1903, d. 17. febr. 1993. Helga er gift Hirti Sævari Hjartarsyni, f. 26. nóv. 1961. Börn þeirra eru Rannveig Aðalbjörg, f. 9. febr. 1984, unnusti hennar er Haukur Berg Guðmundsson, f. 7. okt. 1984, Erla Guðrún, f. 26. des. 1985, Ólína Björk, f. 13. sept. 1988, Helga Rut, f. 29. apríl 1991, Hjörtur Sævar, f. 21. des. 1995, Sigurður Ingi, f. 8. ágúst 1999, og Vilberg Haukur, f. 31. ágúst 2002.

Erla giftist 20. apríl 1967 Sigurði Inga Þorbjörnssyni, f. 30. nóv. 1945, frá Kornsá II í Vatnsdal, syni Þorbjörns Kristjáns Jónssonar, f. 12. okt. 1905, d. 30. júní 1976, og Elínar Sigurtryggvadóttur, f. 26. sept. 1920. Þau eignuðust þrjá syni. Þeir eru: 1) Þorbjörn Ragnar Sigurðsson, f. 27. sept. 1966, kvæntur Sigríði Brynju Hilmarsdóttur, f. 6. sept. 1966, eiga þau Hilmar Örn, f. 28. júní 1990, og Eyrúnu Ingu, f. 8. sept. 2000. 2) Haraldur Sigurðsson, f. 7. mars 1971, kvæntur Pálu Pálsdóttur, eiga þau Pál, f. 1. nóv. 2001, og Örnu, f. 1. nóv. 2001. 3) Bergþór Sigurðsson, f. 9. janúar 1977, dætur hans eru Ingunn Mist, f. 4. okt. 1998, og Ýrena Sól, f. 26. apríl 2000.

Erla ólst upp hjá móður sinni á Snæfellsnesi. Fluttust þær til Reykjavíkur 1955.

Erla flytur í Austur-Húnavatnssýslu 1964 og fer að búa með Sigurði Inga á Nautabúi í Vatnsdal. Bjuggu þau síðan í Grundarfirði frá 1974 til 1977. Þá flytjast þau að Kornsá II í Vatnsdal og hefja aftur búskap. Vann hún einnig utan heimilis, í mötuneyti Húnavallaskóla, við umönnun á Sjúkrahúsi Blönduóss og í mötuneyti Landsvirkjunar við Blönduvirkjun.

Útför Erlu verður gerð frá Blönduóskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11. Jarðsett verður í Sauðárkrókskirkjugarði.

Og hvað er að hætta að draga andann

annað en að frelsa hann frá friðlausum

öldum lífsins,

svo að hann geti risið upp í mætti sínum

og ófjötraður leitað á fund guðs síns?

(Spámaðurinn.)

Meðal Íslands dýrstu drósa

Drottins lilja prúð þú varst;

meðal svásra systur-rósa

sæmdar-fald þú lengi barst.

Fríð í sjón og horsk í hjarta,

höfðings-lund af enni skein,

svipur, athöfn - allt nam skarta,

af því sálin var svo hrein.

(M. Joch.)

Þín

börn, tengdabörn og

barnabörn.

Elsku amma. Nú þegar þú ert farin er svo sárt að finna tómið sem þú skildir eftir. En við hughreystum okkur á því að nú eru þjáningar þínar loks á enda. Þú varst okkur stoð og stytta. Þú hugsaðir til okkar á hverjum degi og athugaðir hvort þú gætir leiðbeint okkur og aðstoðað á einhvern hátt og varst alltaf reiðubúin þegar í stað, þegar á þurfti að halda. Þú hélst okkur saman með kærleik þínum sem mun ávallt lifa í hjarta okkar. Við eigum alltaf minningarnar sem þú gafst okkur.

Hvíl í friði, elsku amma okkar.

Komið er að kveðjustund,

klökkvi hjartað sker,

gengin ertu Guðs á fund,

sem góður líknar þér.

Stöðvast lífsins stundaglas,

stendur tíminn kyr,

þú sem hafðir fágað fas,

færð því góðan byr.

(Kristján Run.)

Þín

Rannveig Aðalbjörg, Erla Guðrún, Ólína Björk, Helga Rut, Hjörtur Sævar, Sigurður Ingi og Vilberg Haukur Hjartarbörn, Ingunn Mist og Ýrena Sól Bergþórsdætur.

Nú hefur elsta systir okkar Erla kvatt þennan heim eftir margra ára baráttu við illvígan sjúkdóm.

En við sem þekktum hana vitum að hún trúði á annað líf og fleiri víddir og ef það er mögulegt þá á hún eftir að láta vita af sér.

Það var ekki oft sem þessi stóri systkinahópur kom allur saman en þó gerðist það síðasta sumar, eftir nokkurra mánaða undirbúning og í tilefni af færeysku dögunum sem eru árlega í Ólafsvík, að við slógum upp tjaldbúðum í Klettakoti og áttum frábæra helgi öll saman. Erla var mikið náttúrubarn og naut þess vera úti með allt þetta líf í kringum sig.

Hún sagði seinna að hún hefði séð Ólafsvík í öðru ljósi eftir þessa helgi og hún væri bara falleg.

Elsku Erla. Það er erfitt að kveðja því okkur fannst að við hefðum haft svo lítinn tíma með þér, svo margt var eftir að segja og gera. Þú elskaðir að sauma út og varst alltaf að skoða bæklinga yfir útsaum og þar var svo margt sem þig langaði til að gera enda listamanneskja í höndunum. Ekki var natnin minni við garðinn heima og svo Lundurinn í Vatnsdalnum sem þú hafðir svo mikinn metnað fyrir og reyndir að gróðursetja þar tré á hverju ári.

Þú tókst okkur alltaf opnum örmum þegar við komum í heimsókn og vildir allt fyrir alla gera.

Við viljum þakka þér þann tíma sem við áttum saman og fyrir að hafa fengið að kynnast þér því það gerir okkur að betri mönnum.

Við trúum því að það hafi verið vel tekið á móti þér, en eftir skilur þú stóran og vandaðan afkomendahóp og eiginmann sem umvafði þig með kærleik sínum og hlúði að þér eftir bestu getu í þessum veikindum, þeim viljum við votta okkar dýpstu samúð.

Við kveðjum þig, elsku systir, með þökk fyrir allt.

Þín systkini:

Guðmundur, Þorsteinn, Ásdís, Hrönn, Freyja, Björk, Aron og Jóhanna.

Hún Erla er farin þangað sem við öll förum að lokum, við vitum að vel hefur verið tekið á móti henni af almættinu, móður hennar, systur og fleirum. Fyrst sáum við Erlu rúmlega 20 ára stúlku með Helgu dóttur sína unga og Helgu móður sína með sér. Hún kom fyrst í Húnavatnssýsluna sem ráðskona að Hnausum og síðan í Vatnsdalinn en þar kynntumst við Erlu betur um leið og hún tengdist Kornsárfjölskyldunni.

Það var gott að vera í návist Erlu, hún var fínleg kona og tilfinninganæm, hún var ekki allra en vinum sínum var hún trygg og einlæg. Erla var alltaf trú sinni sannfæringu og hreinskiptin, hvort sem samfélaginu líkaði betur eða verr.

Við áttum margar góðar stundir með Erlu á Kornsá og einnig í Grundarfirði en þar dvaldi fjölskyldan í nokkur ár. Erla hafði ákaflega gaman af að ferðast og þráði að geta skoðað landið sitt sem og erlenda grundu, hún fór nokkrar ferðir til útlanda að hitta börnin sín eða í fylgd með þeim og bónda sínum.

Erla hafði mikinn áhuga á skógrækt, hún hugsaði vel um plönturnar sínar, hún hafði gróðursett mikið og stækkað reitinn sem tengdaforeldrar hennar byrjuðu á, þar átti hún margar ánægjustundir allt fram á síðasta sumar en þá fylgdist hún með þegar gróðursett var og hlúði að því sem hún sjálf hafði áður gróðursett.

Erla lagði mikið á sig fyrir börnin sín og þeirra fjölskyldur. Þegar hún vissi að vera hennar hér færi að styttast áttu barnabörnin hug hennar flestum stundum, hún sinnti þeim sem frekast hún mátti og dótturdæturnar hjálpuðu henni eins og þær gátu. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með hversu vel Siggi hugsaði um Erlu sína, og gerði henni kleift að dvelja lengst af heima.

Við þökkum Erlu fast að 40 ára samfylgd og sendum innilegar samúðarkveðjur til Sigga, barna, tengdabarna, barnabarna og annarra aðstandenda.

Sæunn Freydís Grímsdóttir, Guðmundur Karl Þorbjörnsson.

Elsku vinkona mín.

Nú ertu farin, farin í annan heim. Þú varst svo sterk þessa síðustu mánuði. Jafnvel þessar síðustu heimsóknir mínar til þín. Heimsóknir sem ég er svo þakklát fyrir, að hafa getað verið hjá þér.

Þú áttir stóra fjölskyldu sem þú gerðir allt fyrir. Þau voru efst í þínum huga þessa síðustu mánuði. Það lýsir þér svo vel, alltaf að hugsa um þitt fólk. Þín verður sárt saknað.

Það verður skrítið að koma í sveitina í framtíðinni, vitandi það að þú munir ekki vera þar, sísla í kringum alla og passa að öllum líði vel og að ekkert vanti. Alltaf svo mikið um að vera í sveitinni.

Þetta hefur verið erfiður tími og langur. Að þurfa að sitja og horfa á og geta ekkert gert. Lífslöngun þín var svo sterk. Það sáu og fundu allir sem voru í kringum þig. Enda er það eðlilegt. Hver vill ekki sjá börn sín og barnabörn vaxa og sjá þau dafna í þessum heimi.

Svo rann dagurinn upp, guð kallaði þig til sín. Það var sorgardagur. Maður vissi að þessi dagur myndi koma en það var samt svo sárt að heyra þessar sorgarfréttir. Það er það alltaf. Þrátt fyrir að maður hugsi að þér líði betur á þeim stað sem þú ert á í dag. Þú ert farin og ekki er hægt að gera neitt sem breytir því, til að fá þig aftur. En ég veit að þú fylgist með okkur, elsku Erla. Ég þakka þér fyrir allt.

Elsku Siggi, börn og fjölskyldur þeirra. Guð blessi ykkur á þessari erfiði stund.

Þín vinkona

Emilía Sæmundsdóttir.