Glatt á hjalla hjá Verzlingum. Gísli Marteinn Baldursson er kynnir kvöldsins en Jón Ólafsson er tónlistarstjóri.
Glatt á hjalla hjá Verzlingum. Gísli Marteinn Baldursson er kynnir kvöldsins en Jón Ólafsson er tónlistarstjóri.
HVAÐ eiga Bragi Ólafsson, Gunnlaugur Briem, Helga Möller, Felix Bergsson, Pálmi Gunnarsson og Selma Björnsdóttir sameiginlegt, annað en að vera þekkt í listaheiminum? Svarið er að þau stunduðu öll nám við Verzlunarskóla Íslands.
HVAÐ eiga Bragi Ólafsson, Gunnlaugur Briem, Helga Möller, Felix Bergsson, Pálmi Gunnarsson og Selma Björnsdóttir sameiginlegt, annað en að vera þekkt í listaheiminum? Svarið er að þau stunduðu öll nám við Verzlunarskóla Íslands. Þetta fólk og fleiri til koma fram á Víva Verzló, stórtónleikum skólans í Háskólabíói klukkan 20 í kvöld.

Fleiri gamlir Verzlingar koma að skemmtuninni. Jón Ólafsson er tónlistarstjóri kvöldsins og Gísli Marteinn Baldursson verður kynnir en unga útgáfu- og kynningarfyritækið 1001 nótt tók þátt í undirbúningi enda í eigu Samúels Kristjánssonar, stúdents frá Verzló. Jón og Gísli Marteinn voru báðir forsetar nemendafélags skólans á sínum tíma og hlakka greinilega til kvöldsins.

"Við Jón tókum þetta að okkur til heiðurs okkar gamla skóla," segir Gísli Marteinn, sem útskýrir að hefð sé fyrir því útskrifaðir nemendur hittist á þessum degi, 30. apríl. Dagskráin er til þess ætluð að gamlir nemendur skólans hittist og rifji upp gömul kynni. "Þeir geta líka séð hvað hefur verið að gerast á Nemendamótunum í skólanum undanfarin ár," heldur Gísli Marteinn áfram en eins og kunnugt er hafa söngleikir sem skólinn hefur sett upp síðustu ár notið vinsælda.

Þeir segjast vita til þess að gamlir nemendur ætli að hittast í kringum skemmtunina, fara út að borða og fleira, en að þeirra sögn hefur miðasala gengið afar vel.

"Verzlingar eru þannig innstilltir að þeir eru stoltir af skólanum sínum og finnst gaman að geta séð hvað er að gerast þar núna og flaggað því að þeir séu Verzlingar," segir Gísli Marteinn.

Verzlunarskólinn er þrátt fyrir að hafa alið af sér fjölmargt listafólk ekki síst þekktur fyrir viðskiptatengda menntun sína. Það kemur einnig í ljós í dagskrá kvöldsins, sem verður brotin upp með spjalli Gísla Marteins og Jóns við þekkt fólk úr íslensku þjóðlífi og viðskiptaheiminum, sem stundaði nám við skólann.

"Ég held í sjálfu sér að ekki svo margir tónlistarmenn hafi komið úr Verzlunarskólanum miðað við til dæmis Menntaskólan við Hamrahlíð," segir Jón aðspurður en útskýrir að sama skapi að tónlistarfólki úr Verzló hafi almennt gengið nokkuð vel. "Eins og reyndar MH-ingum auðvitað ekki síður," bætir hann við á diplómatískan hátt.

Þeir eru báðir sammála að Nemendamótssýningarnar svokölluðu hafi dregið að sér söng- og tónlistarfólk í seinni tíð. "Fólk er farið að sigta meira inná að fara í Verzló vegna þess að það hefur áhuga á dansi eða tónlist," segir Jón en hann og Gísli Marteinn eru sammála um að svo hafi ekki verið þegar þeir voru í skólanum.

"Það sem verður skemmtilegt við kvöldið er að þarna koma saman þúsund manns í sama tilgangi. Þetta verður ekkert stíft heldur létt og skemmtilegt og gamli Verzlóandinn svífur yfir vötnum," segir Gísli Marteinn.

Stórtónleikarnir Víva Verzló í Háskólabíói kl. 20 í kvöld.