Í fjörunni í Skápadal við Patreksfjörð hefur Garðari, elsta stálbáti Íslendinga, verið siglt á land.
Í fjörunni í Skápadal við Patreksfjörð hefur Garðari, elsta stálbáti Íslendinga, verið siglt á land.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fjörunni í Skápadal við Patreksfjörð hefur Garðari, elsta stálbáti Íslendinga, verið siglt á land. Þar er hægt að klifra um borð og skoða sig um. Það er ómaksins vert. Þetta er merkilegur bátur því hann er sá eini eftir á landinu með þessu byggingarlagi. Hér verður rakin saga þessa merka fleys og birt viðtal við núverandi eiganda þess.

SÖGUHETJAN okkar er 179 lesta stálbátur sem smíðaður var hjá Askers Mek skipasmíðastöðinni í Noregi árið 1912 til hvalveiða og var þá með gufuvél. Þarafleiðandi var óvenju rúmgott og hátt til lofts í vélarrúminu er dieselvél var síðar sett í bátinn. Er bátnum var hleypt af stokkunum í Noregi var hann rúmlega 30 metra langur, yfir 6 metra breiður og risti tæplega 3,5 metra. Hann var tvímastraður og seglbúinn, en með gufuvél til að nota í lognviðri. Þá fékk hann nafnið Globe IV. Globe IV var gerður út á hvalveiðar í Suður-Íshafi en hann var sérstaklega styrktur til Íshafssiglinga. Til að mynda er járnið mun þykkara að framan eða 7 til 9 mm og með mun þéttriðnari böndum en tíðkaðist þá.

Hann var svo seldur til Hvalveiðifélagsins Áir í Þórshöfn í Færeyjum 1936 og hlaut þar nafnið Falkur. Þar var hann notaður aðallega til að draga hval, fremur en að veiða hann. Stutta tíð var hann einnig í eigu Guðmundar Ísfeldts sem gerði hann út á hval og til vöruflutninga.

Til Íslands

Báturinn kom svo hingað til lands 20. janúar 1945. Hingað kominn hlaut hann nafnið Siglunes SI 89. Kaupandinn var Hlutafélagið Siglunes (Eigendur voru Áki og Jakob Jakobssynir) á Siglufirði sem strax lét gera á bátnum stórviðgerð. Var það gert sama ár af Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði og vélsmiðjunni Kletti. Allt var tekið úr honum; gufuvélin, brúin, keisinn, kolaboxið, tankarnir, lúkarinn, skrúfan, öxullinn. Þá var sett í bátinn 378 ha Ruston Hornsby dieselvél, var hún snarvend, 7 strokka, 4 takta og loftræst. Sett voru um 6 tonn af steypu í kjölinn vegna þyngdarmunar gufuvélarinnar og dieselvélarinnar. Lunningar voru hækkaðar, nýr keis, ný brú og bátapallur settur á hann. Bjargbátur og vikabátur voru settir sinn hvorum megin á pallinn. Fjölmargt annað var gert; m.a. var skrokkurinn endurnýjaður þar sem þurfti; nýtt öxuldrifið spil var sett í hann; tveir segulkompásar voru settir í, ásamt regnmæli, sökkum, bergmálsdýptarmæli og talstöð; vistarverur voru endurnýjaðar, m.a. 19 kojur og bekkir. Siglunesið var svo gert út á síldveiðar en einnig á línu.

Á flakki

Það var selt 21. október 1952 til Skeggja hf (Eig: Jón Sigurðsson) í Reykjavík sem skírði skipið Sigurður Pétur RE 186. Þá var sett í hann nýtt stýri en það gamla var keðjudrifið og erfitt í meðförum. Í eigu Skeggja var hann gerður út á síld-, línu- og netaveiðar. Meðal þekktra skipstjóra á honum þessi ár voru Jón úr Görðum og Bjarni Sigurðsson. Sigurður Pétur skemmdist mikið í aftakaveðri 1958 en honum hafði verið lagt milli tveggja stærri báta. Klemmdist hann illa og þurfti að skipta um 28 plötur í byrðingnum. Stutta stund var hann svo í eigu Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum. Þá hafði verið bætt í hann Simrad asdiktæki og 27 hestafla Lister ljósavél.

14. júlí 1962 var hann seldur til Skeggja hf á Siglufirði sem skírði hann Hringsjá SI 94. Skipstjóri á honum þar var Páll Pálsson sem hafði mikið álit á honum, sem og allir aðrir sem tengdust honum í gegnum tíðina.

Seldur var hann svo aftur suður 1963 og var kaupandinn Skeggi hf (Eig: Þórarinn Sigurðsson) í Garðahreppi. Hann var endurskírður og nefndist þá Garðar GK 175. Árið 1964 var í Reykjavík sett í bátinn 495 hestafla og 750 snúninga Lister dieselvél í stað gömlu vélarinnar. Þá var og settur í hann nýr radar, kraftblökk og spil. Einnig voru davíðurnar teknar af honum, afturmastrið einnig og nótinni komið fyrir á bátadekkinu. Nú var Garðar orðinn aflaskip hið mesta og kallaður "Strætisvagninn" á Hornafirði, svo reglulega landaði hann þar síldinni. En þá brustu veiðarnar og tekið var til bragðs að gera Garðar út á þorsk. En það gekk ekki og lenti reksturinn í miklum erfiðleikum.

Enn var hann seldur, að þessu sinni til Reykjavíkur árið 1967 og var kaupandinn Halldór Snorrason sem keypti bátinn af Útvegsbankanum, en bankinn eignaðist hann er Skeggi fór á hausinn. Þá hét hann Garðar RE 9. Báturinn var þá endurmældur og var 158 brúttólestir. Hann var þá gerður út á línu og net að mestu yfir vetrarmánuðina og línu á sumrin. Línuútgerðin reyndist ekki vel og var hann þá á humartrolli á sumrin.

Til Patreksfjarðar

Loks var báturinn seldur 1974 Patreki hf (Eigandi var og er enn Jón Magnússon) á Patreksfirði og hélt enn nafninu, en var nú BA 64. Í hans umsjá fiskaði Garðar vel og var oft með aflahæstu bátum vertíðanna. Bæði var hann gerður út á línu og net. Jón setti á bátinn nýja og stærri brú og í hana Simrad fisksjá með stokkara, Simrad asdiktæki, Funirod radar og Koden litasjá.

Loks var Garðar BA 64 dæmdur ónýtur, tekinn af skrá 1. desember 1981 og svo siglt á land og í sátur í Skápadal. Farvegur var grafinn inn í sandfjöruna á lágfjöru, síðan var honum siglt inn á háflóði og loks var fyllt að. Þar stendur hann enn gestum og gangandi til sýnis, lengi vel í góðu ástandi en undanfarið hefur hann látið verulega á sjá, að nokkru vegna skemmdarverka. Árið 2001 var hann málaður, lagfærður lítillega og lítur nú mun betur út.

Ef þú kemur að sunnan og vilt skoða gamla góða Garðar er beygt af þjóðvegi 62 til vinstri inn á veg 612 og eru rúmlega 3 km til Skápadals. Skápadalur er lítill dalur, girtur hömrum og var þar býli með sama nafni, en er nú í eyði en þar stendur nú sumarhús.

Heimildir:

Íslensk skip. Jón Björnsson. Iðunn. 1990.

Kompás. 2. tbl. 1979-80. 68 ára aflaskip. Sigurður Ólafsson.

Munnleg heimild: Jón Magnússon, Patreksfirði, nóvember 2002.

Höfundur er ljósmyndari.