Haukur Ingi Guðnason sækir hér að Sören Byskov, markverði KA, en hafði ekki erindi sem erfiði.
Haukur Ingi Guðnason sækir hér að Sören Byskov, markverði KA, en hafði ekki erindi sem erfiði.
FYLKIR hélt uppteknum hætti á heimavelli sínum í Árbænum, en þar hefur liðið ekki enn tapað stigi í Landsbankadeildinni. Að þessu sinni voru það KA-menn sem urðu að lúta í lægra haldi fyrir Árbæingum, en norðanmenn slógu Fylki út úr bikarkeppninni á dögunum á Akyreyri. Nú var allt annað uppi á teningnum þar sem Fylkismenn unnu sanngjarnan sigur, 1:0.
Leikurinn byrjaði mjög fjörlega, hver sóknin rak aðra hjá félögunum og heimamenn voru stálheppnir á fjórðu mínútu þegar Kristján Valdimarsson bjargaði á marklínu.

Sóknir Fylkis voru mun betur útfærðar en sóknir KA, en það er auðvitað ekki það sem skiptir máli, heldur að skora og helst fleiri mörk en mótherjinn. Eftir glæsisókn snemma leiks skaut Björn Viðar Ástbjörnsson framhjá úr fínu færi og fimm mínútum síðar átti hann fast skot frá vítateig en rétt framhjá. Andartaki síðar kom enn ein glæsileg sókn heimamanna sem lauk með skoti Helga Vals Daníelssonar af markteig, en himinhátt yfir.

KA-menn fengu eitt færi en Steinar Tenden skallaði framhjá af markteigslínu. Skömmu síðar, eða á 33. mínútu, kom eina mark leiksins og þar var Björn Viðar á ferðinni.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks munaði minnstu að syði uppúr. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á áður því eftir til þess að gera sakleysilega baráttu út við hliðarlínu gaf Dean Martin KA-maður Theódór Óskarssyni olnbogaskot, hitti raunar ekki í höfuðið á honum. Síðan hljóp hann á eftir boltanum og braut gróflega á næsta Fylkismanni. Við þetta hitnaði heldur betur í kolunum og minnstu munaði að upp úr syði. Dómarinn fór í vasann og dró upp spjald til að sýna Dean Martin og áttu menn alveg eins von á að það yrði rauður litur sem úr vasanum kæmi. Það reynist ekki vera, heldur var það gula spjaldið og má segja að Dean Martin hafi þar sloppið vel.

Eftir líflegan og skemmtilegan fyrri hálfleik mátti búast við áframhaldandi fjöri. Bæði lið gerðu eina beytingu í leikhléi, Haukur Ingi Guðnason kom inn á hjá Fylki og Óli Þór Birgisson hjá KA. Báðar skiptingarnar reyndust vel og var gaman að sjá baráttuna í þessum tveimur og gríðarlegan hraða Hauks Inga.

Hann byrjaði með látum, átti fínt skot frá vítateigshorninu vinstra megin, í varnarmann og neðst í vinstra hornið. Svo virtist sem menn hafi róað sig verulega í leikhléinu eftir allan æsinginn á lokamínútum fyrri hálfleiks. Altént varð síðari hálfleikur ekki eins skemmtilegur og sá fyrri. Heimamenn fengu þó nokkur færi en Sören Byskov, markvörður KA, varði nokkrum sinnum meistaralega og kom í veg fyrir að sigur Fylkis yrði stærri.

Undir lok leiksins munaði minnstu að Hreinn Hringsson næði að jafna en lúmskt skot hans fór rétt framhjá samskeytunum.

Hjá Fylki vantaði nokkra leikmenn, en það virtist ekki koma mikið að sök því allir stóðu sig ágætlega í gær, baráttan var til staðar en liðið þarf að nýta færin betur þó svo það hafi dugað í gær að gera eitt mark. Það er ekki víst að það dugi alltaf.

KA-menn náðu sér ekki á strik í fyrri hálfleik en bættu úr því í þeim síðari. Sóknir þeirra voru hættulegar og einhvern veginn hafði maður á tilfinningunni að norðanmenn gætu skorað þá og þegar. Til þess kom þó ekki.

Skúli Unnar Sveinsson skrifar