Hermía rekur raunir sínar fyrir Hyppolítu. Hrefna Friðriksdóttir og Aldís G. Davíðsdóttir.
Hermía rekur raunir sínar fyrir Hyppolítu. Hrefna Friðriksdóttir og Aldís G. Davíðsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýstárleg sýning á hinum sígilda gamanleik Shakespeares, Draumi á Jónsmessunótt, verður frumsýnd í dag í Elliðaárdalnum af leikhópnum Sýnir. Hávar Sigurjónsson náði í skottið á leikstjóranum, Þorgeiri Tryggvasyni, þar sem hann eltist við leikendur um skóglendi dalsins.

FYRIR nokkrum árum þegar ég kom í fyrsta sinn hingað að gömlu Rafstöðinni í Elliðaárdal datt mér strax í hug að hér væri kjörið að leika Drauminn. Þarna stóð leikmyndin tilbúin, höll og skógur," segir Þorgeir um ástæður þess að leikið er undir berum himni í Elliðaárdalnum. "Við höfum notið góðrar fyrirgreiðslu Orkuveitunnar og leikum að hluta inn í anddyri rafstöðvarinnar og í dyraportinu fyrir utan húsið.

Síðan berst atburðarásin fljótlega úr höllinni út í skóginn og þá erum við á grænni grein."

Leikfélagið Sýnir var stofnað árið 1997 af áhugaleikurum alls staðar að af landinu.

Árið 2000 setti það í samstarfi við Kristnitökunefnd Eyjafjarðarprófastsdæmis upp leikritið Nýir tímar eftir Böðvar Guðmundsson sem það sýndi síðan á 9 stöðum víðsvegar um landið. Það hefur einnig sett upp nokkrar smærri sýningar og hafa verkin flest verið sett upp sem útisýningar en leikfélagið starfar aðallega á sumrin þar sem félagar þess eru allir mjög virkir í starfsemi leikfélaganna hver á sínum stað.

Þáttakendur í Draumi á Jónsmessunótt eru vel á fjórða tuginn og þar af eru leikendur um 25 talsins. Höfundur tónlistar er Björn Thorarensen, Búninga gera Þórunn Eva Hallsdóttir og Þórey Björk Halldórsdóttir, förðun annast Vilborg Valgarðsdóttir og Hörður Sigurðarson er brellumeistari og aðstoðarmaður leikstjóra.

Ástin blómstrar í skóginum

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp atburðarás þessa sívinsæla leiks en þar eru ungu pörin tvö, Hermía, Lísander, Demitríus og Helena í forgrunni þar sem Hermía er gert skylt að giftast Demitríusi eða vera tekin af lífi ella, en hún elskar Lísander og síðan er Helena friðlaus af ást til Demitríusar sem auðvitað vill ekki sjá hana. Hermía hleypur til skógar ásamt Lísander og Helena kjaftar í Demitríus í þeirri von að vinna hylli hans og hann eltir þau skötuhjú og Helena fylgir í kjölfarið. Í skóginum eru álfar og alls kyns verur á stjái og yfir þeim ríkja Óberón álfakóngur og Titanía drottning. Þau eru ósátt þessa stundina vegna indversks drengs sem Títanía vill hafa hjá sér en Óberón vill hafa hjá sér. "Þetta er auðvitað leikrit um forræðisdeilu," skýtur Þorgeir inní upprifjunina.

Í skóginum þetta kvöld eru einnig nokkrir handverksmenn undir forystu Spóla og Kvists að æfa leikþátt sem á að frumsýna í brúðkaupi Hermíu og Demetríusar.

Óberón fær þokkapiltinn Bokka til að strá ástarsafa úr blómi í augu elskendanna fjögurra og verkan þess er sú að sá er safann fær í augun sofandi verður ástfanginn af fyrstu verunni sem ber fyrir augun þegar þau opnast. Allt fer þetta á annan veg en til er ætlast því Demitríus og Lísender verða báðir ástfangnir af Helenu sem ekki veit hvaðan á sig stendur veðrið, enda ekki notið slíkrar hylli áður. Óberón vill einnig refsa Titaníu fyrir ósveigjanleikann með því að láta Bokka breyta Spóla í asna og gera hana síðan ástfangna af honum með safanum góða.

Þannig líður nóttin í skóginum þar sem allir eltast við alla í friðlausum ástarbríma og yfir öllu vomir Bokki, glaðhlakkalegur og illkvittinn, en dálítið seinheppinn líka og hann verður að vera sífellt á stjái við að reyna að leiðrétta mistökin og endist varla nóttin til þess. Þegar dagur loks rennur á ný hafa Helena og Demetríus náð saman og Hermía og Lísander, Óberón og Títanía hafa sæst og fjórmenningarnir halda heim í höllina og tilkynna Þeseifi og Hyppólítu að svona vilji þau hafa þetta og ekki öðruvísi. Þar með er slegið upp tvöföldu brúðkaupi þar sem handverksmennirnir fá loksins að láta ljós sitt skína við flutning eins frumlegasta leikþátts sem heimsbókmenntirnar geyma.

Það sem gerist - gerist

"Atburðarásin í leikritinu er engin draumur þó að titillinn bendi kannski til þess," segir Þorgeir. "Allt sem gerist í leikritinu gerist. Þetta er fyrst og fremst spennandi og skemmtilegt ævintýri. Shakespeare var alveg sérstök subba þegar kemur að titlum og einstaklega kærulaus í þeim efnum. Það þýðir ekkert að taka hann á orðinu með nöfn gamanleikjanna." Margir setja sig alltaf í hátíðlegar stellingar þegar rætt er um Shakespeare og verk hans. Finnst Þorgeiri ástæða til þess að leggjast í djúpar pælingar um Drauminn?

"Það er auðvitað alveg hægt. Verkið er margþráða og flókið þrátt fyrir einfaldleikann. Það er hægt að segja spekingslega að það fjalli um ástina, en það segir ekki neitt; eða öllu heldur er ekkert auðvelt að komast að því hvað það segir nákvæmlega um ástina."

Kallar ekki svona útileiksýning á litríka og fjölbreytta skrautsýningu?

"Jú, en þó ekki, því við erum þarna til að notfæra okkur náttúrlegt skraut umhverfisins. Umgjörðin er til staðar frá náttúrunnar hendi. Aðalatriðið í mínum huga er að hinir þrír flokkar persóna í verkinu séu skýrt afmarkaðir; það er aðalsfólkið, álfarnir og handverksmennirnir. Þarna er mikilvægt að fólkið sé fólk því ef það glatar sínu eðlilega yfirbragði þá missir árekstur þess við hinar yfirnáttúrulega verur skógarins að talsverðu leyti marks. Búningarnir taka mið af þessu þar sem handverksmennirnir eru afskaplega venjulegir útlits, aðalsfólkið heldur spariklæddara og álfarnir verulega skrautlegir."

Alþjóðlega samsettir álfar

Það liggur beinast við að spyrja hvort álfarnir dragi dám af íslenskum álfum og huldufólki sem vafalaust verður á sveimi innan um leikendur og áhorfendur í Elliðaárdalnum.

"Nei, þetta eru ekki sérstaklega íslenskir álfar. Þeir eru fremur alþjóðlegir. En álfar Shakespeares eru blanda alls kyns hugmynda um álfa, bæði úr enskri þjóðtrú og grískri goðafræði svo eitthvað sé nefnt, þannig að við erum á svipuðum nótum og hann að því leyti."

Fer leikstjórinn nýjar leiðir í túlkun sinni á Draumnum?

"Þetta er ekki "konseptsýning" ef þú ert að spyrja um það. Við leyfum bara ævintýrinu að ráða ferðinni. En verk Shakespeares eru alltaf stöðug uppspretta nýrra hugmynda og ég fæ aldrei nóg af því að lesa verkin hans og lesa um þau. Helst vildi ég geta haft þetta þannig að ég tæki vikufrí eftir frumsýningu og færi síðan að setja leikritið upp aftur annars staðar. Á allt annan hátt."

Þorgeir er ekki við eina fjölina felldur í leiklistinni. Hann hefur starfað með áhugaleikfélögum um árabil sem leikari, leikstjóri, tónlistarhöfundur og leikritahöfundur og er einn af höfuðpaurum Hugleiks, áhugaleikfélags í Reykjavík. Hann hefur einnig skrifað fyrir atvinnuleikhús. Undanfarin misseri hefur hann skrifað leiklistargagnrýni í Morgunblaðið og er því flestum hnútum kunnugur í í leiklistinni.

"Ég hef stundum velt því fyrir mér sjálfur hvort þetta fjöllyndi sé til marks um að ég geti ekki ákveðið hvaða hillu ég vilji vera á í leikhúsinu en í seinni tíð hef ég farið að líta á þetta sem kost. Ég fæ gríðarlega mikla fullnægju út úr því að taka þátt í leiksýningum með einhverjum hætti. Ég verð þó að segja að leikstjórnin á hug minn allan þessa dagana og fyrir mig sem höfund er það mjög gagnlegt að þurfa að ganga í gegnum svo nákvæma greiningu leiktexta sem leikstjórnin er og einnig að upplifa vinnu leikarans frá því sjónarhorni. Þetta nærir allt hvað annað."