ÞRÓUN lyfjaverðs og greiðsluhlutföll sjúklinga á lyfjum er flókið mál. Allir geta náð botni í málinu, ef þeir gefa sér tíma til þess að kynna sér efnið. Ég verð að viðurkenna að of sjaldan les ég skilvirkar greinar eftir stjórnmálamenn um efnið.

ÞRÓUN lyfjaverðs og greiðsluhlutföll sjúklinga á lyfjum er flókið mál. Allir geta náð botni í málinu, ef þeir gefa sér tíma til þess að kynna sér efnið. Ég verð að viðurkenna að of sjaldan les ég skilvirkar greinar eftir stjórnmálamenn um efnið. Óþægilega kom þetta í ljós fyrir nokkrum árum er ný lyfjalög voru samþykkt á Alþingi. Mér eru í minni tvær ræður um málið fluttar af stjórnarsinnum sem augljóslega voru samdar af apótekurum, enda í anda þeirra. Mér varð að orði: "Eru apótekarar komnir á þing?" Stjórnmálamaður hefur nýlega skrifað um þróun lyfjaverðlags á svipuðum nótum á "miðopnum". FEB fellst alls ekki á útreikninga hans, sbr. fyrri greinar okkar í Mbl. Okkar niðurstöður eru:

1. Hið opinbera hækkaði hlutdeild utan spítala sjúklinga úr rúmlega 40% í tæplega 70% á árunum 1992-2002.

2. Frá miðjum mars 1996 til 1. janúar 2003 hefur hlutdeild sjúklinga í B-merktum lyfjum (lyf gegn langvinnum sjúkdómum) fyrir almenna neytendur hækkað úr 16% í 65% en úr 8% í 50% fyrir lífeyrisþega. E- merkt lyf fyrir almenna neytendur hafa hækkað úr 30% í 80% en úr 12% í 50% fyrir lífeyrisþega. Þetta eru hlutföll er sjúklingar greiða umfram "gólf og þak". Við höfum tekið tillit til meðalverðlags ársins 2001 og vísitölutengingar. Þessar niðurstöður koma heim og saman við niðurstöður dósents Önnu A. Almarsdóttur í Mbl. 9.7. 2003. Lágmarks og hámarks greiðslur hafa aukist verulega og eru fjöllum hærri en í nágrannalöndum (Norræna tölfræðihandbókin 1999). Menn verða einnig að hafa í huga að hlutur hins opinbera er ekki háður afslætti lyfjabúða og nú stórdregur úr afslætti lyfjabúða enda er langstærsti hluti þeirra í eigu tveggja lyfjarisa. Tvíkeppni, einkeppni? Áætlanir heilbrigðisráðuneytisins um afslátt lyfjabúða virðast ekki hafa gengið eftir og vitaskuld rýrir það hlut sjúklinga. Að lokum má spyrja: Hvers vegna eru lyf dýrari hér á landi en í Færeyjum og Grænlandi? Markaðurinn er stærri hér en þar.

Eftir Ólaf Ólafsson

Höfundur er formaður Félags eldri borgara og fv. landlæknir.