Dr. Richard Kelson aðstoðarforstjóri Alcoa.
Dr. Richard Kelson aðstoðarforstjóri Alcoa.
RICHARD Kelson, aðstoðarforstjóri álfyrirtækisins Alcoa, leggur áherslu á að starfsemi álversins við Reyðarfjörð falli að íslensku samfélagi með því m.a. að Íslendingar verði ráðnir að álverinu og að álverið verið hluti af "Alcoa...

RICHARD Kelson, aðstoðarforstjóri álfyrirtækisins Alcoa, leggur áherslu á að starfsemi álversins við Reyðarfjörð falli að íslensku samfélagi með því m.a. að Íslendingar verði ráðnir að álverinu og að álverið verið hluti af "Alcoa fjölskyldunni". Kelson var í sinni fyrstu Íslandsheimsókn á fimmtudag og föstudag, þar sem hann hitti m.a. iðnaðarráðherra, bæjarstjórnarmenn á Reyðarfirði og ýmsa þá lykilmenn sem tengjast álverkefninu. Tilgangur heimsóknar hans var einkum sá að kynnast fólki og sjá með eigin augum álversstæðið við Reyðarfjörð og einnig heimsótti hann starfsmenn við Kárahnjúkavirkjun.

"Nú er lokið mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar og næst verður farið út í meiriháttar hönnunarvinnu við verksmiðjuna," segir Kelson. Næstu mánuðina verður því ekki mikið að sjá á landi Sómastaða við Reyðarfjörð, þar sem hið 320 þúsund tonna álver á að rísa, þar sem ekki verður byrjað verður á byggingunni en árið 2005. "Ég er mjög bjartsýnn á þá tíma sem framundan eru," segir hann. "Álverið við Reyðarfjörð skiptir afskaplega miklu máli fyrir Alcoa. Það er orðið langt síðan fyrirtækið reisti álver og mikilvægt að nýja álverið verði af bestu gerð og eins umhverfisvænt og mögulegt er. Það þarf líka að vera öruggur vinnustaður og við erum í heildina mjög spenntir að fá tækifæri til að reisa nýtísku álver hér á landi."

Bandaríska verkfræðistofan Bectel, sem mun vera sú stærsta í heimi, byggir álverið í samvinnu við þrjár íslenskar verkfræðistofur, Hönnun hf., Rafhönnun hf. og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Ganga íslensku fyrirtækin undir heitinu HRV og eiga þau, ásamt Bectel, að skila álverinu tilbúnu apríl 2007.

"Að svo komnu máli erum við mjög ánægðir með það sem Bectel og HRV hafa fram að færa," segir Kelson.

Góður staður fyrir álver

Bygging álvers við Reyðarfjörð og virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka í tengslum við það er eitt umdeildasta mál sem upp hefur komið hérlendis. Aðspurður er Kelson hins vegar nokkuð bjartsýnn á að talsmönnum Alcoa muni takast að sannfæra þá sem eru á móti álverinu, um að það eigi rétt á sér. "Mér heyrist þeir Íslendingar sem ég hef rætt við, vera býsna ánægðir með álverið. Eftir samtöl við umhverfisverndarsinna er ég enn á þeirri skoðun að þetta sé góður staður fyrir álver út frá umhverfisverndarsjónarmiðum og vonandi mun fólk komast að raun um að það verður byggt á ábyrgðarfullan hátt."

Eins og kunnugt er mun Landsvirkjun selja Alcoa raforku sem framleidd verður í Kárahnjúkavirkjun. Aðspurður hvort það hafi áhrif á fyrirtæki á borð við Alcoa og áform þess um byggingu álvers, að umhverfissamtök víða um heim hvetji banka til að lána ekki fé til byggingar Kárahnjúkavirkjunar, segir hann að Alcoa láti slíkt ekki sem um vind um eyru þjóta. Í mars sl. bárust fréttir um að 120 umhverfissamtök frá 47 löndum hefðu myndað með sér bandalag í þeim tilgangi að hafa áhrif á banka og lánastofnanir um að veita ekki fé til byggingar Kárahnjúkavirkjunar.

"Ég held að maður vilji alltaf skilja sjónarmið fólks og undan hvaða rifjum þau eru runnin. Við hlustum alltaf á ólíkar skoðanir og reynum að gera okkar besta í umhverfismálum og við teljum okkur vera í takt við ríkjandi stefnur hvað það snertir. En það munu alltaf verða til staðar þeir aðilar sem eru okkur ósammála í þeim efnum."

Atvinnuleysi á Íslandi er nú um 3%. Hvað hefur Kelson að segja við þá Íslendinga sem vilja fá vinnu við álverið?

"Þetta verður íslenskt álver með íslensku vinnuafli," segir hann. "Vinnuaflið verður íslenskt en starfsfólk fyrirtækja Alcoa víðsvegar að úr heiminum mun veita ýmsan tæknilegan stuðning. En þetta verður íslenskt álver og við munum reyna að leggja áherslu á að innri gerð álversins verði íslensk. Hér verður því um að ræða íslenskt álver sem verður hluti af Alcoa-fjölskyldunni. Við vonumst til að við verðum þáttur í íslensku samfélagi."

Varðandi aðstæður á álmarkaði segir Kelson að ekki sé hægt að tala um óskatíma, fyrirtæki hafi verið að ganga í gegnum þrengingar og séu ekki komin út úr þeim enn. "Ástandið gæti verið betra og ég held að þaðmuni batna. Það verður byrjað á álverinu árið 2005 og framleiðsla hafin 2007 og þetta mun verða eitt hagkvæmasta álver heims. Við þurfum að vera samkeppnisfær hvað snertir álverð, útgjöld vegna raforkukaupa og launakostnaðar og ég held að sú verði raunin."