Martin Dygd sýnir hér áhugamönnum hvernig á að bera sig að.
Martin Dygd sýnir hér áhugamönnum hvernig á að bera sig að.
ÞAÐ er óhætt að segja að mikið hafi gengið á á svæði mótorkrossmanna í Ólafsfirði síðustu daga. Kannski ætti frekar að segja fyrrverandi svæði mótorkrossmanna, því lögreglan hefur nú að tilskipan sýslumanns lokað svæðinu.

ÞAÐ er óhætt að segja að mikið hafi gengið á á svæði mótorkrossmanna í Ólafsfirði síðustu daga. Kannski ætti frekar að segja fyrrverandi svæði mótorkrossmanna, því lögreglan hefur nú að tilskipan sýslumanns lokað svæðinu.

Forsaga málsins er sú að sænskur mótorkrossþjálfari, Martin Dygd, var fenginn til Ólafsfjarðar til að kenna. Æfingar hófust á laugardagsmorgun og stóðu eitthvað fram á dag, en þá mætti lögreglan á svæðið og krafðist þess að æfingin yrði stöðvuð.

Að sögn Helga Reynis Árnasonar, mótorkrosskappa í Ólafsfirði var það gert á þeim forsendum að það væru ekki öll hjólin skráð, og ekki allir ökumenn með skírteini, en slíkt segir Helgi að ekki þurfi í lokuðum brautum. Mótorkrossmenn mótmæltu því að æfingin yrði stöðvuð, og var m.a. Helgi Reynir handtekinn. Hann neitaði að svara spurningum lögreglu nema hafa lögfræðing sinn hjá sér, en var þá sleppt. Æfingunni var síðan haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist til kvölds. Um kl. 23:00 á laugardagskvöld mætti lögreglan á svæðið og lokaði því með borðum, og eftir því sem næst verður komist verður það ekki opnað aftur.

"Við fluttum síðan æfinguna á sunnudaginn til Akureyrar, og þar var engin lögregla að amast við okkur, enda virðast gilda aðrar reglur í Ólafsfirði en annars staðar á landinu," segir Helgi Reynir. "Það hefur allt verið reynt af hálfu yfirvalda hér til að stoppa okkur af, og nú virðist það hafa tekist."

Höfðu ekki tilskilin leyfi

Ástríður Grímsdóttir, sýslumaður segir að leyfi fyrir brautinni í Ólafsfirði sé skilyrðum háð, þ.e. að eingöngu sé ekið á tímabilinu frá 13:00-19:00, að menn séu með ökuréttindi og á skráðum hjólum. Brautin sé ótryggð, og því var þetta samkomulag gert á sínum tíma til þess að eldri ökumenn gætu notað hana.

Á laugardaginn voru þarna yngri krakkar að aka, og fór lögreglan á staðinn til að kanna hvort farið væri eftir settum reglum. Svo reyndist ekki vera og því var leyfið fyrir brautinni afturkallað, eftir að ábyrgðarmaður neitaði að fara eftir ábendingum lögreglu. Þeir hefðu hins vegar getað sótt um leyfi fyrir því að láta yngri krakka aka í brautinni, en þá þurfa tryggingar að vera fyrir hendi.

Stjórn MSÍ (Mótorsamband Íslands) hefur ákveðið að funda um málefni Ólafsfirðinga.