Í síðasta þætti var fjallað um notkun orðasambandsins vera+að+nh . Orðasambandið á sér gamlar rætur í íslensku og er notkun þess allflókin en hefur þó fram til þessa verið reglubundin. Það er m.a.

Í síðasta þætti var fjallað um notkun orðasambandsins vera+að+nh. Orðasambandið á sér gamlar rætur í íslensku og er notkun þess allflókin en hefur þó fram til þessa verið reglubundin. Það er m.a. notað til að vísa til verknaðar sem stendur yfir og því kallaði ég það til einföldunar dvalarhorf. Sem dæmi má nefna: menn jarls voru þá enn að binda sár sín og höfðu verið að alla nóttina. Hér er allt slétt og fellt. Sagnasambandið binda sár felur í sér verknað sem er afmarkaður í tíma og í íslensku getum við kveðið nánar á um verknaðarháttinn, allt eftir því hvort honum er lokið (vera búinn að binda sárin), hvort hann stendur yfir (vera að binda sárin) eða hvort hann verður senn hafinn (fara að binda sárin). Þetta kerfi kann að virðast flókið við fyrstu sýn, enda getur það valdið útlendingum sem leggja stund á íslensku erfiðleikum, en Íslendingar drekka það í sig með móðurmjólkinni. Vert er að benda á að í dæminu sem tilgreint var hér að ofan er orðasambandið vera+að+nh. notað tvívegis, fyrst fullum fetum (voru þá enn að binda sár sín) og síðan liðfellt (höfðu verið að (því að binda sár sín) alla nóttina) og hefur þessi notkun haldist óbreytt fram til nútímamáls.

Hér skal lögð á það áhersla að sambandið vera+að+nh. er notað með sögnum sem vísa til verknaðar (afmarkaðs í tíma) til að sýna að verknaðurinn stendur yfir en með ýmsum öðrum sögnum er ekki venja að nota dvalartáknun, t.d. hvorki með sögnum sem vísa til skynjunar (sjá, heyra, skilja ...) né ástands (vaka, sofa, leika vel, standa sig vel ...). Í þessu felst að notkun orðasambandsins vera+að+nh. er takmörkunum eða hömlum háð. Eins og áður gat hafa Íslendingar verið býsna sammála um þær reglur sem gilda um notkun orðasambandsins en á síðustu 10-15 hefur orðið veruleg breyting á í þá veru að slaknað hefur á hömlunum þannig að orðasambandið er notað í tíma og ótíma, einnig með sagnorðum sem fram til þessa hafa ekki leyft notkun þess. Hér skulu tekin nokkur dæmi sem öll eru raunveruleg í þeim skilningi að ég hef safnað þeim úr blöðum og mæltu máli. Ég sé enga ástæðu til að feðra þau en leyfi mér að merkja þau með spurningarmerki:

?það er verið að standa í gríðarlegum framkvæmdum; ?tekjur bankanna eru meiri en við vorum að gera ráð fyrir; ?ég er ekki að fatta þetta; ?er ég að skilja þig rétt; ?við erum að horfast í augu við nýtt vandamál; ?leikurinn er að fara rólega af stað; ?Íslendingar eru að greiða 0,1% í þróunarhjálp

Ýmsar aðrar takmarkanir eru á notkun orðasambandsins vera+að+nh. Hér er ekki svigrúm til að fjalla um einstök atriði, nokkur dæmi verða að duga með vísan til málkenndar hvers og eins. Fjölmargar sagnir eru í þeim skilningi augnablikssagnir að það sem þær lýsa getur ekki staðið lengi yfir, t.d. fá áminningu, setja lög og fá vinnu. Af þessari ástæðu finnst mér eftirfarandi dæmi óvenjuleg:

?leikmaðurinn er að fá gula spjaldið (‘fær áminningu'); ?Aþingi er að setja lög (‘setur lög'); ?Hvað eru margir að fá hjá ykkur vinnu? (‘hve margir fá vinnu'); ?Rútan er ekki að komast að hótelinu (‘rútan kemst ekki að hótelinu')

Loks má benda á það að orðasambandið vera+að+nh. getur ekki vísað til óorðins tíma, t.d.:

?Úrslitin eru að ráðast á næstu mínútum (‘munu ráðast')

Vandinn, ef vanda skyldi kalla, við notkun orðasambandsins vera+að+nh. er kannski sá að notkun þess fer mjög eftir samhengi og oft getur verið mjótt á mununum. Ef rætt er almennt um tónlistarmann er eðlilegt að segja að hann/hún leiki á píanó en ekki ?er að leika á píanó. Ef við komum hins vegar þar að sem tónlistarmaður er að leika á píanó er vitaskuld eðlilegt að segja hann/hún er að leika á píanó (núna). Dæmi af þessum toga eru auðfundin en í raun sýna þau miklu fremur sveigjanleika og fegurð málsins en þau valdi erfiðleikum og þau breyta engu um það að meginreglurnar hafa verið skýrar og góð sátt um notkun orðasambandsins vera+að+nh.

Úr handraðanum

Hér að ofan hefur verið vikið að því að sagnir velja sér þau orð sem þau standa með og fer það m.a. eftir merkingu. Þannig má búast við því að með sögninni stritast standi jafnan sagnorð sem vísar til verknaðar (stritast við að reikna dæmið; stritast við að velta steininum) en miklu síður sagnorð sem vísar til ástands. Slíkar reglur eru þó alloft brotnar, stundum fagurlega. Þannig segir frá því í Njáls sögu (40.k.) að farandi konur komu til Hlíðarenda frá Bergþórshvoli. Þær voru málgar og heldur illorðar. Hallgerður spurði þær að tíðindum, m.a. hvað Njáll á Bergþórshvoli hefði hafst að. ‘Stritaðist hann við að sitja,' sögðu þær. Væntanlega velkist enginn í vafa um að hér er fagurlega að orði komist enda er það svo að orðasambandið stritast við að sitja hefur öðlast sjálfstætt líf ef svo má að orði komast og er alloft notað, t.d. um þaulsætið stjórnvald sem flestir eru orðnir leiðir á. Dæmi frá 19. öld: þótti höfðingjunum, þar sem þeir strituðust við að sitja ... lítið að manninum kveða.

jonf@hi.is