KREPPAN í færeysku fiskeldi, annarri stærstu útflutningsgreininni, er nú farin að segja til sín í öllu samfélaginu með vaxandi atvinnuleysi og taprekstri í bönkunum. Bendir flest til, að góðærið, sem nú hefur staðið í um áratug, sé á enda.

KREPPAN í færeysku fiskeldi, annarri stærstu útflutningsgreininni, er nú farin að segja til sín í öllu samfélaginu með vaxandi atvinnuleysi og taprekstri í bönkunum. Bendir flest til, að góðærið, sem nú hefur staðið í um áratug, sé á enda.

Føroya Banki, sem kom mjög við sögu í erfiðleikunum fyrir rúmum áratug, var rekinn með 274 millj. ísl. kr. halla eftir skatt á fyrra misseri þessa árs en allt frá árinu 1993 hefur hann skilað góðum hagnaði. Er ástandið enn verra hjá hinni stóru fjármálastofnuninni, Føroya Sparikassa, en þar var tapið á fyrra helmingi ársins um 643 millj. kr. Ástæðan er ástandið í laxeldinu, mjög lágt verð og ILA-veikin, alvarlegur veirusjúkdómur.

Til að búa sig undir vaxandi áföll í fiskeldinu hefur Føroya Banki lagt til hliðar rúmlega 7,2 milljarða kr. og Føroya Sparikassi 1,64 milljarða kr. Í skýrslu síðarnefnda bankans er því spáð, að tekjur landstjórnarinnar muni minnka á næstunni og atvinnuleysi aukast. Með öðrum orðum, að góðærinu sé líklega lokið í bili. Hefur nú verið hnykkt á því með tilkynningu frá landstjórninni um að atvinnurekendur og launþegar skuli greiða 0,75% af launum í atvinnuleysissjóðinn en skömmu fyrir síðustu áramót var þessi prósenta lækkuð úr 1,25% í 0,5%.

Þórshöfn. Morgunblaðið.