Stóri leirvasinn eftir Ragnar sem Magnea Hallmundardóttir bjargaði úr ruslinu.
Stóri leirvasinn eftir Ragnar sem Magnea Hallmundardóttir bjargaði úr ruslinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnar Kjartansson myndhöggvari og leirkerasmiður hefði orðið áttræður þann 17. ágúst nk., en hann lést árið 1988. Í tilefni afmælisins verður opnuð í dag minningarsýning í Ásmundarsal. SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR fékk Ingu dóttur Ragnars til þess að segja frá sýningunni.

Í tilefni af því að Ragnar Kjartansson myndhöggvari og leirkerasmiður hefði orðið áttræður þann 17. ágúst nk. verður í dag opnuð minningarsýning á verkum Ragnars í Ásmundarsal við Freyjugötu. Á sýningunni verður Ragnars aðallega minnst fyrir frumkvöðlastarf sitt sem leirlistarmaður, en hann var einn af stofnendum leirbrennslunnar Funa árið 1947 og Glits tíu árum síðar. Á árunum sem hann starfrækti fyrst Funa og svo Glit unnu margir þekktustu myndlistarmenn landsins með honum og kemur sú samvinna skýrt fram á minningarsýningunni. Meðal samstarfsmanna Ragnars má nefna Jón Gunnar Árnason, Kjartan Guðjónsson, Hring Jóhannesson, Magnús Pálsson, Ragnheiði Jónsdóttur, Dieter Roth, Sigurjón Jóhannsson, Steinunni Marteinsdóttur og marga fleiri. Eitt aðalsmerki framleiðslunnar á þessum tíma var frjó hugmyndavinna og metnaður í hönnun og haldnar voru sýningar m.a. í Munchen, London, Washington og New York við góðan orðstír.

Hönnun á háu stigi

Ragnar Kjartansson fæddist að Staðastað á Snæfellsnesi 17. ágúst 1923 og ólst þar upp. Haustið 1939 hóf hann nám hjá listamanninum Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og var lærlingur hjá honum fimm vetur. Haustið 1946 hélt hann til Svíþjóðar til náms í leirkerasmíð og höggmyndagerð í Gautaborg. Þegar heim kom stofnaði hann leirbrennsluna Funa hf. ásamt öðrum og næstu tvo áratugina var leirmunagerð helsti starfsvettvangur Ragnars, fyrst í Funa hf. og síðar í Glit hf. Samhliða starfi sínu hjá Funa sótti hann tíma í höggmyndagerð í skóla frístundamálara þar sem Ásmundur Sveinsson kenndi. Á síðari hluta starfsferils síns sneri Ragnar sér nær eingöngu að höggmyndalist og eftir hann standa fjöldi útilistaverka um allt land, má þar nefna Stóðið við Hringbraut á móts við Umferðarmiðstöðina, Bárð Snæfellsás á Arnarstapa, Sjómennina fyrir framan safnahúsið á Ísafirði og Björgunarbátinn á Siglufirði.

"Í dag er Ragnar kannski þekktastur fyrir höggmyndir sínar, en hann vann sem leirkerasmiður í tuttugu ár og var mjög þekktur á sínum tíma fyrir leirlistarverkin. Hann vann mikið með öðru myndlistarfólki hjá Glit og var hönnunin þar ætíð mjög metnaðarfull. Sumir hafa viljað lýsa verkstæðinu hjá Glit sem nokkurs konar listaakademíu. Minningarsýningin sem opnar í Ásmundarsal í dag spannar tuttugu ára skeið, frá 1947 þegar hann stofnaði Funa og til 1967 þegar hann hætti hjá Glit og hún varð að stórri verksmiðju. Á þessum árum var hugmynd Ragnars að tengja saman myndlistina og hönnunin og hjá Glit ríkti mikill metnaður fyrir því að vera með hönnun á mjög háu stigi, algjörlega sambærilegt við það sem væri að gerast á öðrum stöðum í Evrópu. Segja má að þeim hafi vissulega tekist það, enda var þeim boðið á sýningar erlendis og fengu góða umfjöllun," segir Inga, dóttir Ragnars, sem sjálf starfar sem myndlistarkona.

Tilraunir með form og efni

Ragnar var alla tíð mikilvirkur í samtökum listamanna. "Hann var einn af aðalhvatamönnum að stofnun Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, meðal frumkvöðla að útisýningunum á Skólavörðuholti sem hófust 1967 og ollu "sprengingu" í íslenskri höggmyndalist og þar með í hinum íslenska listaheimi, barðist fyrir verndun Korpúlfsstaða og að myndlistarmenn fengju afnot af húsinu og var einn af stofnfélögum Nýlistasafnsins. Einnig var Ragnar kennari og skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík til fjölda ára. Allt starf Ragnars er því óneitanlega samofið sögu íslenskrar myndlistar á sjötta og sjöunda áratugnum," segir Inga. Listkennsla var Ragnari ætíð hjartfólgin og stóð hann fyrir miklu starfi á því sviði. Óhætt er að fullyrða að allflestir þeir myndhöggvarar sem komu fram hér á landi á sjöunda og áttunda áratugnum voru einhvern tímann annað hvort nemendur hjá Ragnari eða aðstoðarmenn hans.

Að sögn Ingu var Ragnar alla tíð afar upptekinn af því að gera ýmsar tilraunir bæði með efni og form. "Í samvinnu við meðal annars jarðfræðinga var náð í leir úr Elliðaánum og af Reykjanesinu og reynt að vinna hann til notkunar. Hann reyndist hins vegar ekki nógu góður, aðallega ekki nógu sterkur, enda Ísland ungt landfræðilega séð. Munirnir sem unnir voru úr þessum íslenska leir voru mun brothættari svo á endanum gáfust þau upp og fóru að nota innfluttan leir frá Danmörku. En þau lögðu mikið á sig til þess að gera tilraunir með nýjungar bæði hvað leir og glerunga varðaði, enda lá heilmikil þróunarvinna að baki starfinu. Ein af tilraununum sem Ragnar gerði með leirinn var að setja hraungjall inn í leirverkin, renna því inn í hlutina sem gerði það að verkum að þeir þoldu miklu hærri hita við brennslu og urðu fyrir vikið mun sterkari."

Frjótt samstarf

Á minningarsýningunni verða samkvæmt Ingu um tvö hundruð leirmunir eftir Ragnar og leirverk sem hann vann í samvinnu við marga af þekktustu myndlistarmönnum landsins. "Þó sýningin fókuseri fyrst og fremst á verk Ragnars þá er sjónum um leið beint að öllu samstarfsfólki hans. Ragnar kenndi á þessum tíma í Myndlistarskólanum og fjöldi nemenda hans vann síðan með honum í Glit, en samvinnan á verkstæðinu var mjög sérstök. Þannig gerði Ragnar oft formin og renndi hlutina og síðan komu kannski Ragnheiður Jónsdóttir, Hringur Jóhannesson, Sigurjón Jóhannsson eða Magnús Pálsson, svo einhverjir séu nefndir, og skreyttu þá. Þetta var því afar frjótt samstarf. En það voru ekki bara innlendir listamenn sem störfuðu með Ragnari því um tíma unnu Ragnar og svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth náið saman við hönnunina. Það er alltaf gaman að skoða hlutina sem unnir voru hjá Glit og sjá hver skreytti hvað. Oft eru hlutirnir merktir fleirum en einum, stundum hefur gleymst að merkja formið og sumir munir eru alls ekkert merktir og þá þarf að skoða gamlar ljósmyndir til þess að reyna að átta sig á því hver kom þar að verki."

Aðspurð af hverju Ásmundarsalur varð fyrir valinu sem sýningarstaður svarar Inga því til að viðeigandi hafi þótt að sýna í þessum sal þar sem Ragnar starfaði mikið í húsinu á sínum tíma. "Lengi vel var Myndlistarskólinn í Reykjavík, þar sem hann kenndi, til húsa þarna, þar byrjuðu útisýningarnar á Skólavörðuholtinu sem hann var hvatamaður að og haldnar voru á vegum Myndlistarskólans og á tímabili var hann með vinnustofu í húsinu. Þannig að allt líf hans tengist í rauninni þessu húsi og því mjög viðeigandi og skemmtilegt að sýna þar. Sjálfur hélt hann að minnsta kosti tvær stórar sýningar í þessu húsi auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga," segir Inga.

Verkum bjargað úr ruslinu

Að sögn Ingu er ein aðalástæða þess að ákveðið var að minnast 80 ára afmælis Ragnars með sýningunni í Ásmundarsal sú að keramík þessa tíma hefur viljað falla í gleymsku. "Það var Ragnar Kjartansson, sonarsonur Ragnars, sem sjálfur er starfandi myndlistarmaður sem nefndi það fyrst að gaman gæti verið að safna munum hans saman á einn stað og leyfa ungu fólki í dag að kynnast verkum Ragnars og samstarfsmanna hans. Margir hafa vafalaust séð muni frá Glit og hrifist af og því ágæt hugmynd að safna öllu á einn stað svo hægt væri að sjá þá í stærra samhengi. Fyrst í stað fannst okkur þetta ógerlegt verkefni, enda margir munanna 30-40 ára gamlir og mikið af þessu löngu brotið eða því verið hent. En eftir að við hófum leitina höfum við fundið alveg ótrúlega mikið. Við auglýstum til dæmis eftir munum í Morgunblaðinu síðastliðið vor og fengum óskaplega góð viðbrögð."

Þótt ótrúlegt megi virðast hefur sumum mununum, sem eru til sýnis í Ásmundarsal, verið bjargað úr ruslinu. "Þannig er það t.d. með stærsta listaverkið á sýningunni, sem er ofsalega fallegur leirvasi. Honum hafði verið hent en sem betur fer bjargaði núverandi eigandi, Magnea Hallmundardóttir, vasanum. Þegar kemur að nytjahlutum þá virðast margir eiga létt með að henda þeim þegar þeir fara úr tísku og þykja kannski hallærislegir. Þessu er yfirleitt allt öðruvísi farið með myndlist því þá þykja verkin hafa gildi þó þau falli ef til vill úr tísku í einhvern tíma. Engum dytti þannig í hug að henda listaverkum þó þau þættu ekki smart þá stundina," segir Inga.

Sýningin stendur til 31. ágúst og er opin alla daga nema mánudaga milli kl. 13:30 og 17.

silja@mbl.is