28. ágúst 2003 | Viðskiptafréttir | 825 orð

Fjárfestirinn Warren Buffett

"Warren hefur oft sagt að fólk tæki færri slæmar ákvarðanir tengdar fjárfestingum ef fjöldi þeirra væri takmarkaður við tíu

Frægasti núlifandi fjárfestir heims er Warren Edward Buffett, rúmlega sjötugur Omaha-búi í Nebraska-fylki sem lifir einföldu lífi þrátt fyrir frægð og gífurlegan auð.
"Warren hefur oft sagt að fólk tæki færri slæmar ákvarðanir tengdar fjárfestingum ef fjöldi þeirra væri takmarkaður við tíu á lífsleiðinni. Aðeins tíu. [...] Warren telur að það sé alvarleikinn, sem fylgir spurningunni hverju eigi að fjárfesta í og á hvaða verði, sem minnki áhættuna. (M. Buffett og Clark, bls. 174.)

Frægasti núlifandi fjárfestir heims er Warren Edward Buffett, rúmlega sjötugur Omaha-búi í Nebraska-fylki sem lifir einföldu lífi þrátt fyrir frægð og gífurlegan auð. Eitt af því sem aðgreinir hann frá flestum þekktum fjárfestum er að hann hefur hingað til ekki skrifað bók um líf sitt og fjárfestingatækni. Helst hefur verið hægt að glöggva sig á sýn hans á fjárfestingum með því að lesa ársskýrslur fjárfestingarfyrirtækis hans, Berkshire Hathaway (www.berkshirehathaway.com) og bókina The Intelligent Investor sem var skrifuð af læriföður hans, Benjamin Graham, en Buffett aðstoðaði við síðari uppfærslur bókarinnar. Auk þess hefur lestur bókarinnar Common Stocks and Uncommon Profits eftir Philip Fisher þótt veita innsýn í eigindlega fjárfestingartækni Buffetts, en kenningar Fisher hafa verið mikill áhrifaþáttur í ákvarðanatöku Buffetts í gegnum tíðina. Vegna takmarkaðra skrifa Buffetts sjálfs hafa nokkrar bækur verið gefnar út um hann, bæði varðandi fjárfestingar hans og einnig nokkurskonar ævisögur. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Buffettology: The Previously Unexplained Techniques That Have Made Warren Buffett The World´s Most Famous Investor eftir Mary Buffett og David Clark. Á bakkápu hennar er tekið fram að ekki sé um að ræða einhverskonar æviágrip, heldur sé áhersla bókarinnar að kenna fólki aðferðir hans í bæði megindlegum og eigindlegum skilningi, eins og titill hennar gefur til kynna. Tvær grímur renna þó væntanlega á margan lesandann þegar í ljós kemur við inngang bókarinnar að annar höfunda er fyrrverandi tengdadóttir umrædds fjárfestis. Ekki minnkar tortryggnin þegar fram kemur að hún hafi afþakkað fjölmörg boð um að selja kjaftasögur varðandi Buffett fjölskylduna fyrir fúlgur fjár en hafi þess í stað ákveðið að nýta innsýn sína í heim Buffetts til að skrifa bók sem fjalli með einföldum hætti um fjárfestingaraðferðir hans með þeim hætti að sem flestir gætu skilið þær. Bókin er sett upp með þeim hætti að kaflar eru stuttir og einblínt er kerfisbundið á einu atriði í einu.

Við lestur bókarinnar kemur þó fljótlega í ljós að meira er spunnið í hana en það að nafnið Buffett sé áberandi á kápunni. Í fyrri hlutanum er sjónum aðallega beint að helstu atriðum sem skipta Buffett máli í tengslum við eigindlegar (qualitative) hliðar á fjárfestingatækni. Litið er á þá þætti sem nauðsynlegir eru til þess að fyrirtæki gæti talist vera vænlegir fjárfestingarkostur, bæði varðandi stöðu þess innan síns geira og einnig hvort fjárfesting í geiranum sjálfum gæti talist vera skynsamleg fjárfesting. Fram kemur að Buffett fylgir heimspeki (eða öllu heldur aga) Grahams að fjárfestingar eigi að ákvarðast út frá viðskiptalegu sjónarmiði sem ekki má stjórnast af tilfinningum heldur rökrænni hyggju. Þannig er ekki aðeins auðveldara að ákveða hvert beina eigi fjárfestingum heldur einnig hvaða fjárfestingar beri að varast. Vænlegir fjárfestingarmöguleikar hafa að öllu jöfnu ákveðna þætti sem eru svipaðir. Oft á tíðum eru slíkir vænlegir fjárfestingarkostir þó dýrt verðlagðir af markaðinum. Það þarf því stundum að sýna þolinmæði við að bíða eftir því að slík fjárfestingartækifæri annaðhvort falli það mikið í virði að tímabært sé að fjárfesta í þeim eða að fjárfesta í þeim þegar að markaðurinn hefur vanmetið vænkandi hag fyrirtækisins. Hægt er að segja í stuttu máli að slík fjárfestingarstefna snúist einungis um tvö atriði, hvað eigi að kaupa og á hvaða verði. Síðari hluti bókarinnar snýst meira í kringum tölfræðileg atriði varðandi fjárfestingartækni Buffetts. Skilmerkilega kemur fram hvaða rauði þráður hefur fylgt fjárfestingartækni Buffett í gegnum tíðina út frá tölfræðilegu sjónarmiði, meðal annars þær ávöxtunarkröfur sem hann gerir til fjárfestinga sinna og væntan vöxt fyrirtækis. Sýnt er með hvaða hætti er að nota tölfræðilega úrvinnslu með aðstoð reiknivélar sem er góðra gjalda vert, en hugsanlega hefði verið betra að sýna slíkt með aðstoð töflureiknis.

Það er áhugavert hvernig fjárfestingartækni Buffetts er aðgreind í bókinni frá aðferðum Graham, læriföður hans. Dregið er saman hvernig hugmyndir og fjárfestingaraðferðir Grahams og Fishers áttu stóran þátt í sköpun fjárfestisins Buffetts. Þetta er gert samhliða skýringum á vinnuferli Buffetts til að draga fram áherslur á það sem máli skiptir. Auk þess kemur fram hversu mikið tillit Buffett tekur til skattalegra atriða í sínum fjárfestingarákvörðunum, sem reyndar skiptir íslenska lesendur minna máli vegna tvísköttunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og lágs fjármagnstekjuskatts á Íslandi.

Buffettology er svo auðskiljanlega uppsett að það er nánast vandræðalegt að finnast eitthvað varið í hana. Þrátt fyrir einfaldleikann er hún að sama skapi lífleg lesning þó svo að orðalagið sé hugsanlega of amerískt fyrir smekk sumra. Í upphafi bókar er sagt að tilgangur hennar sé að kenna hvernig hægt sé að temja sér fjárfestingartækni í anda Warrens Buffetts og tekst það með ágætum. Skipulögð uppsetning hennar samhliða augljóslega víðtækri þekkingu meðhöfundar á sögu fjárfestinga og aðferða Buffetts gerir það að verkum að hægt er að mæla eindregið með henni fyrir alla þá sem vilja kynna sér fjárfestingartækni Buffetts.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.