Niels Finsen rannsakaði áhrif ljóss á vísindalegan hátt.
Niels Finsen rannsakaði áhrif ljóss á vísindalegan hátt.
Hinn 10. desember 1903 tilkynnti Nóbelsnefndin í Stokkhólmi að hinn íslenskættaði Niels Ryberg Finsen fengi Nóbelsverðlaunin í læknisfræði. Verðlaunin voru veitt fyrir "framlag hans til lækninga, sérstaklega lupus vulgaris, með áherslu á geislun þar sem hann hefur opnað nýjar víddir í læknisfræðinni", eins og segir í rökstuðningi nefndarinnar. Hver var þessi maður og hvað gerði hann svona merkilegt að það verðskuldaði Nóbelsverðlaun?

Í RÆÐU sem formaður læknisfræðinefndar Nóbelsstofnunarinnar, Mörner greifi, hélt við afhendingu verðlaunanna, þar sem Niels Finsen gat ekki verið viðstaddur, sagði hann meðal annars: "Prófessor Niels Finsen getur ekki verið viðstaddur vegna alvarlegra veikinda. Hann er velgerðarmaður hinna þjáðu en þó fórnarlamb, brautryðjandi í læknavísindum en þó sönnun vanmáttar þeirra í mörgum tilfellum. Sjúkdómur hans hefur þó aldrei náð svo miklu valdi á honum að hann hafi kúgað vísindalöngun hans. Það mætti fremur segja að hún hefði vaknað og styrkst við sjúkdóm sjálfs hans. Hinar fyrstu óákveðnu hugsanir hans um áhrif ljóssins á líffærin voru knúðar áfram af þjáningum hans og til þess að ráða bót á þeim. ... Ég ætla að minnast á eitt atriði sem er sérkennilegt fyrir starfsemi Finsens. Það er hin óbilandi elja hans sem aldrei bregst. Prófessor Finsen er kominn af gamalli íslenskri ætt. Þaðan stafar þetta lundareinkenni vissulega. En það er ekki eingöngu íslenskt skaplyndi. Það er ættareinkenni hins norræna kynstofns sem hér kemur fram hjá Finsen. Við dáumst að hugkvæmninni í vísindastarfsemi hans en jafnframt hrífumst við af því að í honum sjáum við Norðurlönd."

Íslenskur?

Niels Ryberg Finsen fæddist í Færeyjum 15. desember árið 1864. Foreldrar hans voru Hannes Finsen landfógeti í Færeyjum og kona hans Johanne. Johanne Sophie Caroline Christine var dóttir Niels Ryberg Formann bústjóra á Falstri en Hannes Kristján Steingrímur Finsen var sonur Ólafs Finsen yfirdómara og stiftamtmanns í Reykjavík og konu hans Maríu Nikolínu Óladóttur Möller. Ólafur Finsen var sonur Hannesar Finnssonar síðasta biskups í Skálholti en frá honum er ættarnafnið Finsen komið. Ættbogi Finsena var fjölmennur á Íslandi og ekki síður í Danmörku og flestir karlar þessarar ættar komust til einhverra metorða innan stjórnkerfisins. Hannes Finsen lauk lögfræðiprófi árið 1856 og einungis tveimur árum síðar var hann orðinn landfógeti í Færeyjum. Hann var gerður að amtmanni árið 1871 en árið 1884 varð hann stiftamtmaður í Ribe sem þá var við landamæri Þýskalands. Hannes og Johanne eignuðust þrjú börn auk Nielsar, elstur var Ólafur apótekari, þá Niels, Elísabet og loks Vilhelm póstmeistari og öll bjuggu þau í Danmörku. Johanne lést árið 1864 aðeins 31 ára gömul en rúmu ári síðar kvæntist Hannes síðari konu sinni Birgittu Formann og eignuðust þau fimm börn.

Niels ólst upp í Færeyjum til 14 ára aldurs en þá var hann sendur í einn fínasta skóla Danmerkur í Herlufsholm á Suður-Sjálandi. Skólavistin varð honum ekki til framdráttar og eftir tveggja ára nám fékk hann þann vitnisburð að hann væri "drengur góður en skorti bæði hæfileika og dugnað". Þar sem ekki virtust möguleikar á áframhaldandi námi í Danmörku var gripið til þess ráðs að senda Niels til ömmu sinnar og frænda í Reykjavík. Niels kunni vel við sig í Reykjavík og eignaðist þar góða vini, meðal annarra Jón Helgason síðar biskup, en hann varð aldrei afburða námsmaður á bókina. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1882 með lélegri einkun þótt árangur hans í strærðfræði og náttúrufræði væri ágætur þá var ákaflega takmarkaður áhugi hjá honum varðandi fornfræðina og slíkir menn voru ekki hátt skrifaðir í skólanum. Um sumarið siglir Niels utan og kom aldrei aftur til Íslands en um haustið hóf hann nám í læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann bjó á Garði en þar áttu íslenskir stúdentar rétt á ókeypis vist í fjögur ár en danskir stúdentar komust þar ekki að fyrr en eftir nokkurra ára nám. Niels lauk læknisnáminu á þrítugasta aldursári með slakri einkunn en ljósi punkturinn var að hann hafði skömmu áður trúlofast biskupsdótturinni í Ribe, Ingeborg Balselv. Niels og Ingeborg voru gefin saman í dómkirkjunni í Ribe undir lok árs 1892 en nokkru áður hafði útför Hannesar Finsen, föður Nielsar, verið gerð frá sömu kirkju. Niels og Ingeborg eignuðust fjögur börn en það elsta lést í fæðingu en hin voru Halldór, Gudrun og Valgerda.

Því verður ekki á móti mælt að Niels var af íslenskum ættum eins og skilmerkilega er greint frá í íslenskum bókum þar sem sagt er af afrekum hans. Hann var auðvitað einnig af dönskum ættum því ekki var hann móðurlaus frekar en aðrir. Hann elst upp í Færeyjum til 14 ára aldurs, býr tæp tvö ár í Danmörku, er síðan sex vetur og eitt sumar á Íslandi en býr eftir það í Danmörku til æviloka rúmum 20 árum síðar. Danska var hans móðurmál og hann talaði dönsku í Færeyjum en hann mun hafa náð þokkalegum tökum á íslensku á meðan hann dvaldi á Íslandi. Það hefur eitthvað þvælst fyrir mönnum sem skrifað hafa um Niels Finsen að staðsetja hann meðal þessara þriggja þjóða og Anker Aggebo læknir, sem skrifaði lotningarfulla ævisögu hans, lýsti honum þannig: "Róttækur, einmana, dulrænn og þjáður maður. Skapgerð hans var djörf, margradda, þó að hún hefði aðeins einn streng. Færeyskt granít, harður og karlmannlegur, einmana íslenskur jökull, dreymandi unaður Suður-Sjálands og hlýja Holtsetalandsvatna var sameinað og samstillt í þrekmiklum vilja hans. Hvað sem þessu líður var Niels Finsen danskur þegn og verðugur fulltrúi þess jarðvegs sem hann var sprottinn úr."

Rannsóknir og lækningar

Að loknu námi í læknisfræðinni fékk Niels starf við háskólann sem kennari í líffærafræði en hluti af því starfi fólst í krufningum. Hann var farsæll í starfi og leysti það vel af hendi en það var annað sem vakti áhuga hans og hann sagði starfi sínu lausu árið 1893. Í Hospitaltidende í júlí 1893 birtist fyrsta vísindagrein Nielsar "Om Lysets Indvirkning paa Huden" en hann skrifaði rúmlega 30 vísindagreinar á næstu tíu árum. Rannsóknir hans snerust fyrst og fremst um áhrif sólarljóssins og annarrar geislunar á húðina. Aðrir læknar höfðu gert athuganir á þessu sviði áður og þeirra á meðal var franski læknirinn Charcot, faðir Charcot sem fórst með skipinu Pourquoi pas? út af Mýrum árið 1936, og sænski læknirinn Widmark.

Niels Finsen rannsakaði áhrif ljóss á vísindalegan hátt, hvaða geislar hefðu áhrif, hvernig þeir hefðu áhrif og hvers vegna það gerðist. Það var ekki nóg að segja "blessuð sólin elskar allt..." það varð að færa vísindalega sönnun fyrir því. Niels lýsti því sjálfur hvernig áhugi hans á lækningamætti sólarljóssins vaknaði:

"Ein af mínum fyrstu athugunum og auk þess sönnun fyrir gagnsemi sólarljóssins var það sem hér fer á eftir: Fyrir neðan gluggann minn í húsagarðinum var flatt þak. Sólin skein á helming þaksins, þar lá köttur og sleikti sólskinið, sneri sér og teygði og virtist kunna lífinu hið besta. Þegar skugginn féll á köttinn færði hann sig þangað sem sólin skein. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Þessi hversdagslegi atburður varð tvígildur fyrir mig. Í fyrsta lagi áleit ég að sólarljósið væri nytsamt fyrir köttinn úr því að hann leitaði þess ósjálfrátt. Ég man líka að ég öfundaði köttinn sem gat legið svona í sólskininu. Þarna fékk ég fyrstu hugmyndina um sólböð eða ljósaböð. Síðar komst ég að því að sólböð voru notuð í fornöld en þá hafði ég aldrei heyrt þeirra getið.

Önnur smáathugun sama eðlis: Ég stóð á brúnni yfir á Slotsholmen (Hojbro) og horfði niður í vatnið (vegna lasleika varð ég að stansa hvað eftir annað á leiðinni). Það var glaða sólskin og brúin varpaði skugga á sundið. Undir brúnni var mikill straumur. Ég kom auga á eitt skorkvikindanna sem voru á yfirborði vatnsins. Það barst með straumnum til brúarinnar. En er það kom inn í skuggann þaut það á móti straumnum. Þetta endurtók sig hvað eftir annað meðan ég stóð þarna á brúnni, - einhverju sinni sagði ég kunningja mínum frá þessu með köttinn og skorpödduna. Hann sagði mér þá frá stofuhundi sem ætíð leitaði uppi sólskinsblettina í stofunni og legðist þar. Þessar þrjár í sjálfu sér ómerkilegu athuganir festu huga minn við þýðingu ljóssins og mér datt jafnvel í hug að hagnýta hana, þ.e.a.s. ljósaböð."

Í bréfi til Ólafs bróður síns vorið 1894 segir Niels, "Eins og sakir standa fæst ég við rannsóknir á gagnsemi sólarljóssins (dýratilraunir). Ég vonast til að ná einhverjum árangri. En ég hef mikið að gera og þoli ekki að leggja hart að mér vegna heilsunnar, annars líður mér nú ákjósanlega."

Finsen er með alls konar athuganir og tilraunir og mörg rannsóknartækin smíðar hann sjálfur. Hann athugar ekki bara sólarljósið heldur einnig kolbogaljós og röntgengeisla og hvernig samspil þeirra gæti verið. Rit hans Ljósið sem fjörgjafi endar þannig: "Við þekkjum öll hin einkennilegu áhrif sem sólarljósið hefur á allar lifandi verur. Við finnum þau þó að við sjáum þau ekki að jafnaði. Við tökum eftir þeim við snögg umskipti. Hafi himinninn t.d. verið skýjaður á sumardegi og sólin brýst allt í einu fram breytist öll náttúran. Allt lifnar við, skorkvikindin skríða glaðlega um eða fljúga suðandi í loftinu. Eðlur og uglur koma fram á sjónarsviðið og leika sér í sólskininu, fuglarnir syngja. Við mennirnir finnum einnig þessi góðu áhrif. Þessi greinilega verkun ljóssins, en dálítið óákveðna, mætti kalla lífsvekjandi í þeim skilningi að hún vekur til lífsins, eykur hreyfingu. Hingað til hefur þetta, er mér óhætt að segja, verið eignað hlýju sólargeislanna og "andlegum áhrifum" ljóssins. Mér virðist af rannsóknum mínum og athugunum að þessi áhrif séu útfjólubláum geislum að þakka, að minnsta kosti hvað lægri dýr snertir."

Niels veit að geislun og sólarljósið hafa áhrif en það nægir honum ekki, hann verður að hafa vísindalega sönnun. Við ófullkomnar athuganir setti hann fram þá tilgátu að húðberklar, lúpus, stöfuðu af sýklum í húðinni, en þó ekki í ysta lagi hennar vegna þess að sólarljósið dræpi þá þar. Þess vegna þyrfti að koma geislum inn í húðina til að drepa sýklana.

Tilraunir Dowes og Blunt 1878 bentu til þess að sólarljós gæti drepið eða hamið vöxt sýkla sem valda sjúkdómum hjá mönnum. Niels gerir ýmsar athuganir og prófar sig áfram með rafljósi þar sem sólskinsstundirnar voru stundum af skornum skammti. Hann fær inni hjá Rafmagnsveitu Kaupmannahafnar í Gothersgötu árið 1895 og þar læknar hann sannanlega fyrsta sjúklinginn af lúpus. Rafveitustjórinn Winfeld-Hansen segir svo frá:

"Mig minnir að það hafi verið um miðjan nóvember sem dr. Finsen leitaði til okkar. Hann bað leyfis að mega gera nokkrar tilraunir um áhrif ljóssins á húðberkla. Ég man greinilega hve skýr og einföld rök Finsens voru er hann færði fyrir sannfæringu sinni um að ljósið gæti læknað lúpus. Hann skýrði mér frá því að húðberklasýklarnir væru ½-1 mm undir húðinni. Hann áleit að þetta væri af því að sýklarnir þyldu ekki ljósið eða að minnsta kosti einhverja ljósgeisla. Eftir nokkrar byrjunartilraunir sem hann hafði gert hafði hann ástæðu til þess að halda að það væru fjólubláu geislarnir sem væru sýklunum banvænir. Hann kvaðst álíta að geislarnir gætu farið 1 cm inn í líkamann. Hann trúði því fastlega að tilraunin mundi takast.

Mér var ánægja að því að leyfa tilraunirnar á rannsóknarstofu rafmagnsstöðvarinnar. En um leið bað ég Finsen að láta N. Mogensen verkfræðing verða fyrsta sjúklinginn sen reynt yrði að lækna með þessum geislum. Hann hafði gengið með lúpus í hálfu andlitinu í mörg ár. Margar aðgerðir höfðu verið framkvæmdar án þess að að gagni kæmi. Finsen hafði ekkert á móti því og ég símaði strax til Mogensens og spurði hvort hann vildi vera "tilraunadýr". Hann varð strax hrifinn og sannfærður um að þetta yrði góð lækning og um kvöldið hitti hann Finsen.

Nú var settur upp 20 ampera bogalampi í rannsóknarstofunni. Nokkur safngler voru sett á hann, sívöl pípa var fyllt með vatni, og með þessu fábreytta verkfæri sem við Finsen stýrðum til skiptis með hendinni ásamt öðrum starfsmönnum stöðvarinnar var Mogensen læknaður. Eftir nokkra daga sást árangur af áhrifum ljóssins. Mig rekur sérstaklega minni til eins kvöldsins. Ég hafði setið í tvo klukkutíma og með stuttum hvíldum beint ljósgeislunum á skemmdan stað á kinninni. Þar var stór rauður hnútur. Eftir tveggja stunda tilraun var hnúturinn horfinn, í stað hans var þar sólbrúnn blettur.

Mogensen var næstum albata í lok janúarmánaðar 1896 og í febrúar hættu tilraunir í stöðinni. Þá var dr. Finsen leigt herbergi við Gothersgade 28 til frekari meðferðar á lúpussjúklingum. Herbergið tilheyrði rafstöðinni. Hér voru margir sjúklingar sem þurfti að lækna..."

Ísinn var brotinn. Niels Finsen hafði sýnt og sannað að hægt var að nota ljós til að lækna lúpus. Nýir tímar voru framundan.

Ljósastofa Finsens

Það voru margir vantrúaðir á tilraunir Nielsar Finsens en hann átti líka góða samstarfsmenn. Ingeborg kona hans stóð með honum og hvatti hann áfram og það er að hennar frumkvæði að sett er upp "sólbaðsstofa". Í fyrstu var þetta lítið afdrep þar sem Niels gat stundað rannsóknir og annast einn og einn sjúkling en þegar menn sáu árangur af lækningunum í rafstöðinni opnuðust ýmsar leiðir. Winfeld-Hansen rafveitustjóri kom Nielsi í samband við G.A. Hagemann verkfræðing sem sat í borgarráði Kaupmannahafnar og hafði margvísleg tengsl við stjórnmála- og fjármálamenn. Eftir nokkurra mánaða undirbúningstíma var Ljósastofa Finsens stofnuð 23. október 1896 en tilgangur hennar var að "rannsaka áhrif ljóssins á lifandi verur einkum í þeim tilgangi að nota ljósgeisla til lækninga".

Starfsemin var fyrst til húsa í skúrum við Gammeltoftsgötu en um sumarið 1901 flutti stofnunin í glæsilegt hús við Rósavang sem áður hýsti Hinné sirkusforstjóra og fjölskyldu hans. Rannsóknir Finsens og samstarfsmanna hans héldu áfram af fullum krafti og fjöldi sjúklinga fékk fullan bata við lúpus. Á alþjóðlegu þingi lækna í París árið 1900 má segja að aðferð Finsens hafi verið að fullu viðurkennd sem besta og áhrifaríkasta lækningin við lúpus. Hann komst ekki til Parísar sökum veikinda en helsti aðstoðarmaður hans Forchhammer hélt þar fyrirlestur sem byggðist á samantekt Finsens og kynnti starf hans. Í fyrirlestrinum kom fram sú meginregla varðandi ljósalækningar að ljósið hefur eiginleika til að drepa sýkla og hæfileika til að valda bólgu í vefjum. Þessir eiginleikar voru bundnir við kemíska geislun og þess vegna varð að sækjast eftir ljósi sem hafði þá eiginleika. Helstu kostir ljósalækninga voru þeir að meðferðin var sársaukalaus, vefir óskemmdir og oftast fékkst fullkominn og öruggur bati. Í bréfi til Nielsar eftir fyrirlesturinn segir Forchhammer m.a.: "Í dag hefur aðalstyrinn staðið og sigurinn var vafalaus. ... Ýmsum öðrum aðferðum var tekið heldur kuldalega eins og X-aðferðinni (Röntgen). Forvígismenn hennar taka líka of mikið upp í sig þegar þeir segja að þeir lækni lúpus, trichophyti, favus á nokkrum vikur. Þá hristir skynsamt fólk höfuðið. Umræðurnar bárust alltaf að aðferð þinni sem sveif þarna yfir vötnunum og það var auðfundið að sigur var fenginn."

Í kjölfarið komu þekktir læknar í heimsókn til Kaupmannahafnar til að kynna sér af eigin raun lækningar á Ljósastofu Finsens og fjöldi sjúklinga streymdi að úr nær öllum heimshornum.

Viðurkenning á starfi Nielsar Finsens kom fyrst og fremst að utan og frá almenningi sem naut lækninga hans. Fjölmörg bréf frá þakklátum sjúklingum og skrif í blöð vitna um hvað menn mátu lækningar hans mikils. Virtir vísindamenn í Evrópu höfðu samband við hann og fjársterkir og valdamiklir einstaklingar í Danmörku styrktu vísindastarf hans. Helstu andstæðingar hans komu úr röðum læknaprófessora við háskólann sem reyndu hvað þeir gátu að bregða fyrir hann fæti með ýmsum aðferðum. Nokkrir áhrifamenn innan háskólans studdu þó mjög vel við bakið á honum en ýmis smámenni sem ekki þoldu velgengni hans voru sífellt á iði bak við tjöldin til að koma á hann höggi. Þetta varð til þess að samband hans við háskólann var ætíð mjög takmarkað en þegar áhrifa hans var farið að gæta í vísindaheiminum, vildu smámennin innan háskólans eigna sér eitthvað af heiðrinum. Niels Finsen lét sér áhuga- og afskiptaleysi háskólans ekki miklu skipta en honum sárnaði óheiðarleg andstaða og vildi sem minnst tengsl við slíkt fólk hafa.

Í reglum sem hann skrifaði niður fyrir eftirmenn sína á Ljósastofunni koma viðhorf hans vel fram jafnframt því sem hann bendir þeim á að forðast lestina sem einkenna of oft háskólakennara.

"Forðist allt vísindalegt stærilæti og tildur eins og pestina. Dálítill metnaður og leit að viðurkenningu er hollur og góður, jafnvel oft nauðsynlegur. En munið að viðurkenning vinnst ekki með því að upphefja sjálfan sig eða rífa aðra niður og hefja sjálfan sig upp á þeirra kostnað. Viðurkenningin á aðeins að vinnast og vinnst aðeins fyrir starf og dugnað. Hún kemur af sjálfu sér og verður því meiri sem minna er gert til þess að afla sér hennar og því lítillátari sem maður er. Þótt merkilegt megi virðast eru margir, og það meira að segja vitrir menn, annarrar skoðunar og fylgja annarri meginreglu. Reynið að svo miklu leyti sem hægt er að starfa fyrir málefnið og takið sem minnst tillit til hins persónulega. Láti menn persónuleg viðfangsefni hafa of mikil áhrif á sig sjá aðrir það fljótt og árangurinn verður lakari. Þegar unnið er af óeigingirni fyrir málefni borgar málefnið það mörgum sinnum."

Hugvitssöm einfeldni

Það er athyglisvert að alla sína starfsævi þurfti Niels Finsen að kljást við illvígan sjúkdóm sem læknar kunnu ekki nægileg skil á. Sjúkdómurinn lýsti sér einkum í því að Niels var mjög þreklítill enda varð hann að lifa á fábreyttu fæði og maginn þandist út af vatni. Sama ár og Niels dó kom rétta sjúkdómsgreiningin fram opinberlega og er nefnd Pick-sjúkdómur sem er bólgur í líffærahimnum ásamt vatnssýki í kviði. Sjúkdómurinn lagði hann að lokum að velli en hann virðist ekki hafa haft mótandi áhrif á lífsviðhorf hans til manna eða málefna eins og svo algengt er. Niels Ryberg Finsen lést 24. september 1904.

Anker Aggebo læknir sem skrifaði ævisögu hans segir að Niels Finsen hafi ekki verið "sérlega margfróður maður. Hann starfaði að viðfangsefnum ljósfræðinnar en var ekki ýkja fróður í eðlisfræði, lífeðlisfræði eða líffræði. Rit hans tylla sér ekki á tá með miklum búnaði eða lærdómi. En hann gerir skarpviturlega uppgötvun í hversdagsleikanum umhverfis sig og hann gerir tilraunir með hugvitssamri einfeldni. Tilgátur hans eru frumlegar, þanþol orkunnar er mikið og bjartsýni hans er óviðjafnanleg".

Það eru verkin sem bera merkin og þótt sólarljósið sé ekki nýtt til lækninga á þann hátt sem Niels Finsen gerði fyrir einni öld, opnuðu rannsóknir hans nýjar víddir á sínum tíma. Fjöldi manns fékk lækningu fyrir hans tilstilli og menn gerðu sér betur grein fyrir mikilvægi heilbrigðrar útiveru og birtu í hýbýlum fólks. Um áratuga skeið fór fjöldi ungmenna víða í heiminum í ljósaböð til að efla heilsuna en nú sækist fólk einkum í sólbekki fyrir hégómann. Það er ankannalegt að helsta hættan við ljósaböð nútímans skuli vera húðsjúkdómur, húðkrabbamein, en Niels Ryberg Finsen fékk Nóbelsverðlaunin fyrir að lækna húðsjúkdóm, húðberkla, með ljósaböðum fyrir 100 árum.

EFTIR JÓN ÓLAF ÍSBERG

Höfundur er sagnfræðingur.