Hljómsveitin Elín Helena er skipuð þeim Daða, Eyva, Sibba, Skúla, Svenna og Vigni. Lög eru eftir meðlimi. Upptaka og hljóðblöndun var í höndum Skúla Arasonar.

ELÍN Helena kemur frá Selfossi sem er pínu undarlegt, sé litið til tónlistarstílsins. Elín (sem er hljómsveit, höfum það á hreinu) spilar nefnilega hressilegt pönkrokk en Selfoss hefur aðallega, alltént síðastliðin ár, verið þekkt sem gróðurhús poppsveita á borð við Skítamóral, Land og syni og Á móti sól. Ætli þetta sé ekki svipað og að hafa reynt að reka tæknósveit í Seattle er gruggið stóð sem hæst? Og þó, Forgarður helvítis kemur reyndar af þessu svæði svo að fordæmin eru svosem til.

Hér er um að ræða stuttskífu, fjögurra laga, og er hún barasta bráð vel heppnuð. Lögin eru fjörug, skemmtileg og stuðmikil og innihalda hinar ýmsustu tilvísanir í pönksöguna. Þannig minnir fyrsta lagið á hina merku sveit Vonbrigði - ef þeir hefðu haldið áfram aðeins lengur - en einnig á Purrk Pillnik, Gang of Four og slíkar (þessi yndislegi, hái og víraði gítar). Nú svo er auðvitað línan: "Ég hata félagsráðgjafa" á sínum stað. Það er bara eins og það sé komið 1982 aftur!

Í næsta lagi, "Ekki séns" er gefið enn meira í; Ramones með skemmtilegum "Oi!" bakröddum. Lengdin í sönnum pönkanda - 1 mínúta og sex sekúndur. Þriðja lagið er nýbylgjuskotið með hörkukrók og nettum reggíáhrifum einnig. Fjórða lagið, sem er það sísta, er meira út í þungarokk og hæfir frekar miðlungs góðu Músíktilraunabandi en Elínu. En allt í allt - að þessu síðasta slepptu - er þetta bráðskemmtilegt popppönk, líkt og Blink 182 með grófri bílskúrsáferð. Söngurinn er grallaralegur og vel hæfandi og textarnir skemmtilega bjánalegir.

Diskurinn er heimabruggaður, eins og stundum er sagt, og er til fyrirmyndar í þeim fræðunum. Með auknu framboði á brennanlegum diskum og betri tækni er hægt að ganga snyrtilega frá svona útgáfum, jafnvel svo að þær fara fram úr stöðluðum, oft hugmyndasnauðum opinberum útgáfum. Hér má sjá að ýmislegt er hægt að gera með þykkum pappír, tússi og hugmyndaauðgi. Hljómsveitamyndin sem diskinn prýðir er flott í einfaldleik sínum og sjálfur hljómdiskurinn er skemmtilega merktur.

Arnar Eggert Thoroddsen