21. október 2003 | Aðsent efni | 972 orð | 1 mynd

Á ég að biðjast afsökunar?

ÞESS hefur verið krafist á síðum þessa blaðs, að ég biðjist afsökunar á þeim ummælum sem höfð voru eftir mér í Fréttablaðinu í síðustu viku, að svokölluð HB-fjölskylda á Akranesi hefði brugðist trausti Skagamanna með sölu á bréfum sínum í fyrirtækinu til...
ÞESS hefur verið krafist á síðum þessa blaðs, að ég biðjist afsökunar á þeim ummælum sem höfð voru eftir mér í Fréttablaðinu í síðustu viku, að svokölluð HB-fjölskylda á Akranesi hefði brugðist trausti Skagamanna með sölu á bréfum sínum í fyrirtækinu til flutningafyrirtækisins Eimskips fyrir rétt rúmu ári.

Það er rétt að ég lýsti þessari skoðun minni en ég sagði líka ýmislegt fleira um þessa fjölskyldu við blaðamann Fréttablaðsins sem hann ætti að geta staðfest þó svo að hann hafi ekki notað þau ummæli í grein sinni í blaðinu. Ég fékk tækifæri til að endurtaka þau ummæli mín í viðtalsþætti á Dægurmálaútvarpi Rásar 2, sem sendur var út sama dag og ummælin birtust í Fréttablaðinu. Þar sagði ég meðal annars: "Þessi tiltekna fjölskylda hún hefur staðið sig geysilega vel og ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir þessari fjölskyldu. Hún hefur sýnt mikinn dugnað í gegnum árin við að byggja þetta fyrirtæki upp með öllum Akurnesingum, þetta fyrirtæki á 100 ára sögu." Fleiri orð af þessu tagi féllu af minni hálfu í þættinum.

Fyrri spurning

Hvers vegna ætti ég að biðjast afsökunar? Ég segi að ákveðið fólk hafi brugðist trausti og ég tel mig hafa heimild úr virtum fjölmiðli til að draga þá ályktun. Það er nefnilega svo að þó að fólk eigi mikla virðingu skilið og hafi staðið sig vel, þá getur því orðið á og það er ekki hafið yfir gagnrýni.

Í Morgunblaðinu hinn 13. október í fyrra má lesa að stjórnendur Haraldar Böðvarssonar hf. hafi sjálfir haft frumkvæðið að því að hópur hluthafa seldi Eimskip 34,2% hlut sinn í fyrirtækinu til Eimskipafélags Íslands í byrjun október í fyrra. Fyrir átti Eimskip 28,1% í HB. Með þessum viðskiptum náði Eimskip 62,3% eignarhlut í HB sem þýddi að yfirtökuskylda skapaðist til kaupa á bréfum. Þetta kemur fram í langri viðtalsgrein við Harald Sturlaugsson, forstjóra HB. Ég veit ekki betur en að fjölskylda Haraldar hafi einmitt átt það stóran hlut í fyrirtækinu að sá hlutabréfapakki hafi ráðið þungt um það að Eimskip gat yfirtekið HB að öllu samkvæmt lögum.

Ég sem borinn og barnfæddur Skagamaður, sem bý í þessum indæla bæ Akranesi, var mjög ósáttur við þá ráðstöfun að Eimskip væri með þessu komið í þá stöðu að flutningafyrirtækið næði algerum yfirráðum yfir fjöreggi bæjarins sem var HB. Ástæðan er einföld. Með því fylgdi nánast allur nýtingarréttur bæjarins á fremstu auðlind þjóðarinnar sem fólst í þeim kvóta sem fyrirtækið réð yfir. Þessi kvóti og nýtingin á honum er ein helsta forsendan í efnahag bæjarins. Ég lét óánægju mína og áhyggjur skýrt í ljósi í heilsíðuviðtali við DV fyrir réttu ári. Þar benti ég á hættuna sem fylgdi því að bæjarbúar hefðu gersamlega glatað ákvörðunarrétti sínum til að nýta sína mikilvægustu náttúruauðlind sem er fiskurinn í sjónum. Ég endurtók þessa afstöðu mína mjög skýrt í ræðu sem ég flutti á síðasta sjómannadag í Sandgerði. Hana er að finna á vefsíðu Frjálslynda flokksins (www.xf.is <http://www.xf.is/> ).

Síðari spurning

En hvers vegna tel ég að með algeru afsali HB hafi verið brugðist trausti bæjarbúa á Akranesi? Ég tel næsta auðvelt að svara þessu með því að benda á að HB hefur að baki nær 100 ára sögu á Akranesi. Bæjarbúum er alls ekki sama um þetta fyrirtæki og þeir hafa alltaf borið mikið traust til þess og stjórnenda. Það sýndu þeir meðal annars í verki þegar nokkur útgerðarfyrirtæki í bænum voru sameinuð HB í byrjun síðasta áratugar. Nær öll eggin voru lögð í eina körfu og síðan var fyrirtækið sett á hlutabréfamarkað. Aðeins örfáum árum síðar er það gersamlega komið úr höndum bæjarbúa. Eimskip ræður nú framtíð sjávarútvegs Skagamanna. Það er blóðug staðreynd að þrátt fyrir að alþýðan á Akranesi hafi í hundrað ár unnið að því að skapa stóran hluta þess nýtingarréttar á sjávarauðlindinni sem tilheyrir HB í dag hafa bæjarbúar á Akranesi engin réttindi eða völd til að ákveða hvað verður nú. Þessi saga hefur endurtekið sig margoft undir núverandi kvótakerfi með frjálsu framsali aflaheimilda.

Eimskip hefur skipt um eigendur. Er ekki lengur almenningshlutafélag, heldur í eigu og undir stjórn fárra. Skagamenn eiga enga fulltrúa í stjórn Eimskips. Fyrirtækið hefur lýst því yfir að til standi að gera breytingar á rekstrarformi þess, og er sjávarútvegsdeildin Brim nefnd í því sambandi.

Frelsi til sölu

Í fjölmiðlum má lesa að einhverjar þreifingar standi yfir um það að Akurnesingar geti kannski fengið að kaupa HB aftur af Eimskip. Bæjarbúar standa kannski frammi fyrir því að þurfa að reiða marga milljarða króna af hendi til að öðlast aftur þann nýtingarrétt á fiskimiðunum kringum landið sem þeir og þeirra forfeður hafa aflað með striti sínu. Þetta minnir helst á þræla sem eru að kaupa sér frelsi, og er því miður ekkert einsdæmi á Íslandi í dag. Vopnfirðingar eru að gera þetta. Seyðfirðingum stendur þetta til boða. Frjálshyggjukerfið með framseljanlegum aflaheimildum er að komast í algert þrot. Sagan er farin að endurtaka sig þar sem við sjáum gömlu bæjarútgerðirnar koma fram á nýjan leik.

Hvernig gat það gerst að Skagamenn hafa á örfáum árum algerlega misst tökin á því sjávarútvegsfyrirtæki sem þeir áttu í upphafi síðasta áratugar? Er ekki eðlilegt að staldra við og spyrja þeirrar spurningar nú? Eiga menn að þurfa að biðjast afsökunar á því þegar þeir voga sér upphátt og í heyranda hljóði að draga ályktanir af þessu klúðri?

Ég nenni ekki að skattyrðast við Gísla Gíslason, bæjarstjóra á Akranesi, eða Elínbjörgu Magnúsdóttur, sem á sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, sem bæði hafa krafist þess að ég biðjist afsökunar á ummælum mínum. Þeirra heilögu vandlætingarskrif eru af pólitískum toga, og ætluð til að koma höggi á Frjálslynda flokkinn. Sá ásetningur kemur reyndar sérlega glöggt fram í grein Gísla. Það eru nokkur tíðindi í huga þess sem hér skrifar, því bæjarstjóri Akraness hefur hingað til reynt að skapa sér ímynd sem ópólitískur bæjarstjóri.

En afstaða mín er skýr. Öll mín ummæli skulu standa í því samhengi sem þau voru sögð.

Eftir Magnús Þór Hafsteinsson

Höfundur er alþingismaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.