26. október 2003 | Fastir þættir | 840 orð | 1 mynd

Páll frá Tarsus

Hann ofsótti kristna menn í byrjun og gekk fram í því af meiri hörku en aðrir. Svo gerðist eitthvað mikið á leiðinni frá Jerúsalem til Damaskus. Sigurður Ægisson fjallar í dag um manninn, sem fékk viðurnefnið "postuli heiðingjanna".
ÞEGAR kristnir menn voru að byrja að fóta sig í landinu helga og þar um kring, eftir fyrsta hvítasunnudag, bjó maður að nafni Sál í Jerúsalem. Hann var gyðingur af ættkvísl Benjamíns, en jafnframt rómverskur þegn, og bar því einnig nafnið Páll. Hann er jafnan kenndur við borgina Tarsus í Kilikíu í Litlu-Asíu, sem var aðsetur menningar- og listastrauma á þeim tíma, heimili stóuspekinga, og á miðri aðalverslunarleið Austursins og Vestursins, en ekki vita menn fæðingarár hans. Oftast er það talið hafa verið einhvers staðar á árabilinu 1-10 e. Kr.

Páll nam iðn föður síns, tjaldagerð, en lagði einnig stund á hin gyðinglegu fræði. Kennari hans í þeim efnum var lögvitringurinn Gamalíel I. Páll gekk í lið með faríseum er tímar liðu, en það var stærsti og mikilvægasti flokkur landsins um þær mundir, og stjórnað af prestum og fræðimönnum. Hann varð til á 3. öld f. Kr. Talið er að í Jerúsalem einni hafi farísear á dögum Jesú verið 4.000-5.000 talsins. Vildu þeir, að alvara þeirra og ströng hlýðni við lögmálið og kenningu öldunganna leiddi til þess, að nýtt andlegt Ísraelsríki risi, og fannst þeim boðskapur Krists ógn við þetta.

Páll gekk einna harðast fram í því að ofsækja kirkjuna á þessum árum, og elti liðsmenn hennar jafnvel uppi í erlendum borgum. T.a.m. var hann áhorfandi að lífláti fyrsta kristna píslarvottarins, Stefáns, og líkaði vel. Þetta gæti hafa verið árið 36.

Dag einn litlu síðar er fyrir Pál lagt að halda til Damaskus í Sýrlandi, þar sem hann átti að sækja kristna fanga. Í Postulasögunni, 22. kafla, greinir hann frá þessari reynslu með eftirfarandi orðum:

Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur. Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað. En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig. Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?" Ég svaraði: "Hver ert þú, herra?" Og hann sagði við mig: "Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir."

Við þetta blindaðist Páll, en fyrir bæn Ananíasar nokkurs fékk hann sjónina aftur er til Damaskus kom. Ofsækjandinn snerist nú til fylgis við hinn nýja sið og varð einn duglegasti kristniboði 1. aldar, fór á árunum 46-57 eða svo í þrjá trúboðsleiðangra til landanna austanvert við Miðjarðarhafið, jafnvel allt til Spánar og Bretlands, og stofnaði kirkjur víða.

Almennt hefur verið talið, að frumpostularnir hafi eingöngu stundað kristniboð meðal gyðinga, en Páll einbeitt sér hins vegar að kristnun annarra heiðinna manna, samkvæmt þessu boði Jesú á Damaskusveginum: "Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu." Þetta getur samt ekki verið alls kostar rétt, því Pétur áttar sig á því snemma, að fagnaðarerindið er ekki bara fyrir gyðinga, heldur alls mannkyn (sbr. einnig Postulasagan, 15. kafli). Og eins er líklega með hina postulana, ef eitthvað er að marka arfsagnir um þá. Einhver ágreiningur mun þó hafa verið meðal gyðing-kristinna og heiðin-kristinna, sem jafnaður var á fundi í Jerúsalem árið 49.

Páll kallaði sig iðulega postula, en var ekki einn af hinum tólf fyrstu. Þeir ruddu brautina. En vegna áhrifa hans síðar - í gegnum bréfin í Nýja testamentinu, sem þrettán eru við hann kennd, en sennilega einungis 7-9 þó með rentu, og vangaveltna um, að Pétur hafi verið of fljótur á sér að bæta í skarðið eftir hvarf Júdasar úr hópnum - áttu myndlistarmenn það til að hafa lærisveinana ellefu ásamt með Páli í verkum sínum, og ekki sjaldan Maríu Guðsmóður og Krist líka; Mattías þurfti að víkja.

Í gegnum skrif Ágústínusar (354-430), biskups í Hippo í Norður-Afríku, eins mesta brautryðjanda kristninnar á þeim tíma og síðar, náðu orð Páls einnig mikilli útbreiðslu í latnesku kirkjunni, og ekki síst í röðum mótmælenda á 16. öld, með "uppgötvun" á orðum hans um réttlætingu af trúnni einni saman. Sú kenning hefur einnig litað jafn ólíka einstaklinga og heimspekinginn Jean-Paul Sartre (1905-1980) og sálfræðingana Carl G. Jung (1865-1961) og Abraham H. Maslow (1908-1970). Og upp úr 1960, með tilkomu náðargjafarhreyfingarinnar, gekk Páll í endurnýjun lífdaga, en hann var fyrstur til að nota orðið karisma (náð) í guðfræðinni og skilgreina það.

En frumpostularnir tólf virðast hafa staðið austurkirkjunni nær, einhverra hluta vegna.

Sagt er, að Páll hafi liðið píslarvættisdauða nærri Rómaborg, verið hálshöggvinn á stað er nefndist Aquae Salviae (nú Tre Fontane). Þetta á að hafa gerst á síðustu valdaárum Nerós keisara, einhvern tíma á árabilinu 64-68, e.t.v. sama dag og ár og Pétur, eða þar um kring.

Meðal einkennistákna Páls eru sverð og bók; hún er gjarnan opin og þar ritað "Spiritus gladius" (Andans sverð). Banavopn hans er sagt varðveitt í klaustri einu í La Lisla á Spáni.

Myndin, sem þessum pistli fylgir, er eftir hollenska listmálarann Rembrandt Harmenszoon van Rijn (1606-1669).

Pálsmessa er 25. janúar, og að auki á hann dag með Pétri 29. júní.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.