8. nóvember 2003 | Daglegt líf (blaðauki) | 812 orð | 7 myndir

Mávastellið lifir

Mokka-kaffibolli og undirskál.
Mokka-kaffibolli og undirskál.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MÁVURINN þykir ekki fegurstur fugla og raunar má segja að í íslensku fiskimannasamfélagi hafi hann frekar verið talinn til óþurftar en yndisauka.
MÁVURINN þykir ekki fegurstur fugla og raunar má segja að í íslensku fiskimannasamfélagi hafi hann frekar verið talinn til óþurftar en yndisauka. Engum manni dettur í hug að leggja sér mávinn til munns, en engu að síður hefur hann ratað á krásum hlaðin matarborð víða um heim, í listrænni hönnun mávastellsins svokallaða.

Danska listhönnunarfyrirtækið Bing & Gröndahl hóf framleiðslu á mávastelli skömmu fyrir aldamótin 1900, og sú saga hefur komist á kreik að mávurinn hafi verið settur inn í mynstrið sérstaklega fyrir íslenskan markað. Það hefur ekki fengist staðfest, enda margt sem bendir til að mávurinn hafi farið víðar en til Íslands. Hitt er víst, að mávastell hafa alla tíð notið mikillar virðingar og vinsælda hér á landi.

Páfinn drakk úr mávastellsbolla

Guðrún Þórðardóttir leikkona kann góða sögu sem staðfestir þann virðingarsess sem mávastell skipar hér á landi þegar borðbúnaður er annars vegar. "Amma mín, Guðrún Guðmundsdóttir, sem fædd var árið 1901 og lést 98 ára gömul, átti forláta mávastell, sem hún eignaðist þegar hún var um fertugt. Stellið var bara notað þegar mikið var haft við, á stórafmælum og öðrum merkisdögum og það merkilega var, að það brotnaði aldrei nokkur hlutur úr því.

Þegar Jóhannes Páll II páfi kom hingað til lands kom mávastellið hennar ömmu óvænt við sögu. Páfanum hafði verið boðið upp á kaffisopa á Landakotsspítala og skömmu áður en hann birtist uppgötvaði tengdamóðir mín, Björg Randversdóttir, sem var starfsmaður á spítalanum, að engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til að útvega almennilegan bolla fyrir páfann til að drekka úr og henni fannst ótækt að hann drykki kaffið sitt úr venjulegum spítalabolla. Amma bjó rétt hjá spítalanum og tengdamamma mundi þá eftir mávastellinu hennar og hljóp þangað til að fá lánaðan bolla úr stellinu. Páfinn fékk því sitt kaffi úr mávastellsbolla og ég man eftir því að amma þvoði ekki bollann, sem hans heilagleiki hafði drukkið úr, í nokkra daga á eftir," sagði Guðrún Þórðardóttir. Mávastell Guðrúnar Guðmundsdóttur er nú í Edinborg á Skotlandi, hjá Guðrúnu Þorvarðardóttur, sem erfði það eftir móður sína.

Aðeins til hátíðabrigða

Eiríka Guðrún Ásgrímsdóttir erfði mávastell eftir ömmu sína og nöfnu, Eiríku Guðrúnu Árnadóttur, sem lést árið 1994, en hún hefði orðið 100 ára 28. október síðastliðinn. Hún hóf að safna stellinu laust eftir miðja síðustu öld, um 1960, og má finna í því nánast alla þá hluti sem tilheyra slíku stelli. Fyrir utan þetta hefðbundna 12 manna matar- og kaffistell, með tilheyrandi sósuskálum, súpuskálum, sultuskálum og matarfötum af öllum stærðum og gerðum, kaffikönnu, sykurkari og rjómakönnu fylgja því hinir ólíklegustu hlutir aðrir, sem ekki kannski tilheyra matarstellum nú til dags. Þarna má til dæmis sjá kertastjaka, blómavasa, konfektskálar og jafnvel öskubakka og vindlingabox með mávastellsmynstrinu. "Ég nota sígarettuboxið núna undir tannsöngla, enda er þetta reyklaust heimili, en hér áður fyrr þótti bara kurteisi að bjóða gestum upp á sígarettur í matarboðum," sagði Eiríka og bætti því við að mávastellið notaði hún aðeins til hátíðabrigða. "Það er gaman að leggja það á borð á tyllidögum, en það sem gefur því þó mest gildi í mínum huga er auðvitað það að amma mín og nafna átti það. Ég er ekki viss um að ég myndi kaupa mér svona matarstell í dag."

Þykir enn fínt

Sá misskilningur hefur stundum gert vart við sig að mávastell séu ekki lengur í framleiðslu og því orðin eins konar antík. Á vefsíðum Bing & Gröndahl og Royal Copenhagen í Kaupmannahöfn eru mávastell enn á verðlistum undir nafninu Seagull.

Verslunin Kúnígúnd hefur í yfir tuttugu ár verslað með gjafavörur af ýmsu tagi, þar á meðal vörur frá Bing og Gröndahl og Royal Copenhagen. Þar eru meðal annars á boðstólnum mávastell og að sögn Sigurveigar Lúðvíksdóttur, eiganda verslunarinnar, er talsvert um að fólk leiti þangað til að fylla upp í skörð þegar eitthvað úr stellinu brotnar, rétt eins og þegar menn leita í varahlutaverslanir þegar eitthvað gefur sig í bílnum. "Mávastell eru enn í framleiðslu, þótt einstökum hlutum úr því hafi fækkað eitthvað. En fólk getur fengið hér diska, bolla og undirskálar í þessu mynstri," sagði Sigurveig.

"Elstu stellin frá Royal Copenhagen eru frá árinu 1775, gamla mussel malet stellið sem er enn í framleiðslu, bæði í upprunalega forminu og einnig í nýrri útgáfu, sem við höfum á boðstólum hér," sagði Sigurveig ennfremur. "Annað gamalt stell sem þeir framleiða ennþá er bláa blómið og það er víða til hér á heimilum. Bing og Gröndahl var stofnað 1853, eftir að einhver ágreiningur hafði komið upp innan Royal Copenhagen, og hóf framleiðslu á hliðstæðri vöru. Í þeirri flóru voru meðal annars þekkt mynstur eins og fallandi lauf, kornblómið og mávastellið. Bing og Gröndahl og Royal Copenhagen sameinuðust svo aftur 1986 og inn í þá sameiningu komu einnig Holmegård og Georg Jensen, sem einnig eru þekkt fyrirtæki á þessu sviði. Framleiðsla á mávastellinu hófst árið 1895 og það er því rúmlega aldargamalt. Það er ennþá við lýði og þykir fínt enn þann dag í dag að leggja mávastell á borð," sagði Sigurveig Lúðvíksdóttir.

svg@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.