Þorgeir Þorgeirson fæddist í Hafnarfirði 30. apríl 1933. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 30. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðrún Kristjánsdóttir verkakona, f. 13.10. 1910 á Siglufirði, d. 30.9. 1973, og Þorgeir Elís Þorgeirsson sjómaður, f. 26.9. 1909 í Miðhúsum í Garði, d. 18.8. 1937. Systkin Þorgeirs eru: Elísabet, f. 12.12. 1931 og Kristján, f. 29.8. 1935, d. 1964. Hálfsystkin Þorgeirs sammæðra eru: Kristín Rósa Skarphéðinsdóttir, f. 11.2. 1942, Sigríður Þórólfsdóttir, f. 9.9. 1944, og Kolbrún Skarphéðinsdóttir, f. 20.9. 1947.

Eftirlifandi eiginkona Þorgeirs er Vilborg Dagbjartsdóttir, kennari og skáld, f. 18.7. 1930. Foreldrar Vilborgar voru Erlendína Jónsdóttir húsmóðir, f. 3.5. 1894, d. 17.7. 1974, og Dagbjartur Guðmundsson, verkamaður og útvegsbóndi, f. 19.10. 1886, d. 6.4. 1972. Sonur Þorgeirs er Þorgeir Elís Þorgeirsson, erfðafræðingur, f. 1.5. 1962 maki hans er Guðrún Jóhannsdóttir. Þeirra börn eru Bergur, f. 1981 og Edda, f. 1987. Stjúpsonur Þorgeirs er Egill Arnaldur Ásgeirsson, kennari og sjómaður, f. 18.6.1957, maki hans er Laufey Hálfdanardóttir. Þeirra börn eru Vilborg, f. 1989 og Þórunn, f. 1996.

Þorgeir lauk stúdentsprófi frá MR 1953 og nam að því loknu þýsku, bókmenntir og listasögu við Vínarháskóla. Hann nam kvikmyndaleikstjórn við Listaakademíuna í Prag 1959-1962 og sótti starfsnámskeið hjá franska sjónvarpinu 1955-1957. Hann starfaði við kvikmyndagerð 1962-1972 og við ritstörf, þýðingar og leikstjórn í útvarpi frá 1962. Hann stofnaði Kvikmyndasafnið, sem rak Litlabíó við Hverfisgötu, 1968. Hann var kennari við Leiklistarskóla SÁL 1973-1976. Eftir Þorgeir liggja tugir ritverka og hann hefur þýtt fjölmörg bókmenntaverk á íslensku. Þorgeir hlaut ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir kvikmyndina Maður og verksmiðja og ritstörf sín. Hann var kjörinn heiðursfélagi Félags íslenskra kvikmyndagerðarmanna og veitt Eddu-verðlaunin fyrir framlag til kvikmyndagerðar árið 2000. Síðustu áratugi vann Þorgeir að mannréttindamálum og vann árið 1992 mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu eftir að hafa verið dæmdur í Hæstarétti fyrir greinarskrif í Morgunblaðið 1983. Hafði dómurinn söguleg áhrif á íslenskt réttarfar.

Útför Þorgeirs verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Þorgeir Þorgeirson, tengdafaðir minn, var einhver fallegasta manneskja sem ég hef kynnst. Mennsku hans er vel lýst með orðum Tolstoy, sem sagði að fegurðin fælist í samspili ljóss og skugga. Þannig var Þorgeir í kvikunni, ljóslifandi, skarpur, og skuggalega fyndinn. Lán mitt var það að vera í hópi þess fólks sem hann beindi aldrei að öðru en ljósi. Kankvísu bliki augnanna sem leituðu eftir svörun við orðum sem beint var í mark. Orð hans geiguðu aldrei og við hlógum saman, oft, allt fram á seinasta dag.

Afabörnum sínum var Þorgeir alltaf sá einlægi aðdáandi sem hverju barni er nauðsyn að þekkja. Aðdáunin var gagnkvæm. Hann var afi ormanefur, sem lét fjölda neftóbaksorma hverfa með galdri upp í andlitið og mat þau svo mikils að hvatvísleg krot þeirra strikuð á innveggi húss hans voru ekki máð burt heldur látin standa árum saman, eins og ómetanleg listaverk. Nú er kveðjustundin komin, allt of fljótt. Sól hans er sest og "grátt suðvesturloftið roðnar smátt og smátt".

Guðrún Jóhannsdóttir.

Ég man vel eftir því þegar Bogga frænka kom í fyrsta skipti í heimsókn með nýja manninn sinn. Þetta var að sumarlagi og við Fíi bróðir - bæði innan við tíu ára aldur - stóðum úti á hlaði og vorum að fylgjast með Skorrastaðabeljunum sem komu vaðandi inn veg og gerðu sig líklegar til að spilla Seldalskúnum. Þegar virðulegar mjólkurkýr á góðbúum leggjast í bæjaflakk kemur fiðringur í kusur um alla sveit. Maður veit aldrei hvernig svoleiðis endar. Um þetta málefni spunnust nokkrar umræður milli okkar krakkanna og nýja mannsins hennar Boggu frænku, hans Þorgeirs. Hann minntist þessara fyrstu kynna oft síðar og kallaði okkur Fía stundum "Skorrastaðabeljurnar" vegna þeirra. Já, Þorgeir var notalegur við okkur krakkana þessa sumardaga. Vilborg og mamma fylgdust að um húsið og hlátrasköllin glumdu. Þorgeir var lágværari en glaður og brosmildur og nýgiftu hjónin leiddust út um allan dal.

Skyldfólk Vilborgar átti ævinlega hlýju og greiðvikni að mæta hjá Þorgeiri. Líklega fannst honum flest sem tengdist konu hans yfir gagnrýni hafið, var hann þó manna gagnrýnastur. Hann gat lagt sig af áhuga eftir veiðiskap, trúlofunum og skepnuhöldum, samanber Skorrastaðabeljurnar, eftir því hver átti í hlut. Heimili þeirra hjóna var alltaf opið upp á gátt þegar einhver úr þessum stóra skyldmennahópi að austan þurfti að bregða sér í höfuðborgina. Við "Skorrastaðabeljurnar" nutum þess sérstaklega á menntaskólaárunum þar sem við vorum meira og minna í fæði og stundum húsnæði líka hjá Boggu og Þorgeiri. Í Vonarstræti 12 var mér haldin vegleg stúdentsveisla og - eftirminnileg samverustund var á Bókhlöðustígnum á brúðkaupsdaginn minn þar sem veitt var rammíslenskt sælgæti svo sem hákarl, harðfiskur og brennivín. Ég minnist þess að vinir mínir sóttust eftir að fá að koma með á þetta heimili þar sem ævinlega voru spennandi umræður um pólitík og menningarmál, óvænt tilsvör, sögur og skemmtilegar uppákomur. Þarna var kynslóðabil ekki til. Þorgeir gat verið með ólíkindum skemmtilegur þegar sögugállinn var á honum. Maður hreinlega gleymdi stund og stað, þvílíka kynngi gat þessi hæglætislegi maður magnað. Þessi gáfa var þeim hjónum reyndar báðum gefin og sá eiginleiki að draga umsvifalaust að sér athygli heilu samkvæmanna með því einu að opna munninn. Það var reyndar aðdáunarvert hvað þeim tveimur tókst að láta hvort annað njóta sín við slík tækifæri. Oft gekk maður forlyftur frá samverustundum af þessu tagi.

Þrátt fyrir mikil og erfið veikindi síðustu árin hefur Þorgeir alltaf öðru hverju náð sér á strik í sagnalistinni og er skemmst að minnast afmælis Vilborgar í júlí síðastliðnum þar sem Þorgeir fór á kostum. Þar fékk margur dóninn á baukinn.

Sögur hans voru oft í "töfraraunsæisstíl" löngu áður en það orð var fundið upp. Frásagnir af atburðum sem engan veginn áttu að geta gerst hljómuðu svo eðlilega í munni hans að enginn gat efast. Þórbergur Þórðarson var heimilisvinur í Vonarstræti 12 og þeir Þorgeir voru ekki alltaf á eitt sáttir um eilífðarmálin. Þórbergur lofaði Þorgeiri að láta hann vita hvort eitthvað væri hinum megin þegar hann væri farinn. Nú gerist það nokkru eftir að Þórbergur dó að Þorgeir fór að lesa upp á bókmenntakvöldi í Ölfusborgum og var hálflasinn. Seinna um kvöldið barst Þórbergur í tal og við það bráði allur lasleiki af Þorgeiri, hann fór að segja sögur af vini sínum, ganga um gólf og herma eftir honum. Samkomuhaldarinn kallaði hann þá afsíðis og var greinilega brugðið. Kvaðst allt í einu hafa áttað sig á skilaboðum að handan sem höfðu borist á miðilsfundi sem þar hafði verið haldinn kvöldið áður. Þórbergur Þórðarson hafði nefnilega komið í gegn með þessi undarlegu skilaboð. "Segið honum Þorgeiri að það sé ekkert." Með þessari yndislega tvíræðu sögu um framhaldslífið sem ég heyrði Þorgeir oftar en einu sinni segja á góðri stund ætla ég að ljúka fátæklegum minningarorðum um litríkan samtímamann. Aðrir munu skrifa um hans margvíslegu afrek á menningar- og listasviðinu. Fyrir hönd Seldælinga eru hér færðar þakkir fyrir Þorgeir Þorgeirsson og samúðarkveðjur til Boggu, Egils, Goggs og fjölskyldna þeirra.

Hallgerður Gísladóttir.

Það var mín lukka að villast inn í þetta hús. Bauja systir var kærastan hans Egils, sonar Vilborgar og Þorgeirs og í kjölfar Bauju fylgdu ég, pabbi og Ásdís systir. Við urðum öll heimagangar í Vonarstræti 12 og vináttan hélst söm eftir að Bauja og Egill fóru í sitt hvora áttina.

Við eikarhringborðið í Vonarstræti og síðar á Bókhlöðustíg hef ég verið þaulsetin, numið og notið. Þar hefur farið fram alvöru krufning, agað hugsanafrelsi. Þetta nægtaborð hefur alltaf svignað undan veitingum í mörgum merkingum. Það voru fleiri leitandi sálir sem sóttu af eðlisávísun að þessu borði. Mér virtist þar vera fundafært flest kvöld allan ársins hring. Ástríðufull sannleiksþráin í brjósti Þorgeirs og viska Vilborgar litaði andrúmsloftið og hefur haft meiri áhrif á mig en ég geri mér grein fyrir.

Við andlát Þorgeirs er slokknað ákaflega kröftugt bál. Viðkvæmni hans hefur ugglust kallað fram kunn varnarviðbrögðin; brynvarða framhlið í árásarstöðu. Þorgeir þorði að lifa með sterkri meðvitund til hinstu stundar og hafði ærna þörf á sínum þykka skráp. Allt hans lífsverk vitnar um heilagt stríð gegn fyrirframgefnum hagsmunasniðnum raunveruleikum. Slíkir krossfarar eru lífsnauðsynlegir í samfélagi manna.

Eins og gjarnan hjá hugsuðum réð tilfinningin för. Því þótt leit Þorgeirs hafi alltaf lotið skýrri hugmyndafræðilegri undirstöðu lá dýpra sterk tilfinning mótuð í bernsku um rétt og rangt, fagurt og ljótt. Sú tilfinning bergmálar í kvikmyndum Þorgeirs og ritverkum og vísaði honum á Heinesen, Hrabal og Lorca, skáld sem hann færði okkur í glæsilegum þýðingum.

Þorgeir tók mig alvarlega þegar ég var unglingur og gaf sér tíma til þess að hlusta og fræða. Hjá honum hef ég og fjölskylda mín mætt blíðu og uppörvun allar götur síðan. Við eigum eftir að sakna hans.

Halldóra Kristín Thoroddsen.

Þorgeir frændi minn er látinn.

Geiri var systursonur Steins föður míns. Geiri og Ella systir hans voru á mínum fyrstu æviárum órjúfanlegur hluti fjölskyldulífs okkar.

Það voru skemmtilegir tímar og átti Geiri frændi minn ekki síst þátt í því. Hann fór ótroðnar slóðir í hverju sem hann tók sér fyrir hendur og fannst mér smátelpunni alltaf leika um hann ákveðinn ævintýraljómi.

Úr einu af leyfum sínum á námsárunum í Prag færði Geiri okkur systkinunum lifandi skjaldböku. Annað eins hafði aldrei sést á Melunum og verður lengi í minnum haft. Hann var stórhuga á margan hátt hann frændi minn, fyrsta utanlandsferð foreldra minna var til að heimsækja hann til Parísar á námsárunum hans þar.

Ótalmargar skemmtilegar minningar á ég um allar þær litríku persónur sem Geiri kom með heim á Melhagann og kynnti fyrir foreldrum mínum. Þá var lífið og tilveran krufin af áhuga og eldmóði og allir höfðu skoðanir.

Þorgeir var skarpgreindur, hafði faðir minn mikla trú á hæfileikum systursonar síns og veit ég að móðir mín var sama sinnis.

Við lát hennar rofnuðu þau sterku tengsl er voru við Þorgeir.

Ég horfi nú á strengjabrúðuna mína, samskonar brúðu og Geiri færði mér fyrir nær fimmtíu árum frá Tékklandi.

Fyrir mér er hún tákn lifandi og frjórrar hugsunar, en jafnframt tákn þess sem leitar sannleikans..... án málamiðlunar.

Þannig vil ég muna hann frænda minn.

Innilegar samúðarkveðjur

Rósa Steinsdóttir.

Sem ég kveð Þorgeir Þorgeirson, rithöfund og kvikmyndagerðarmann, hinstu kveðju, kveð ég kæran vin og jafnframt áhrifamikinn andófsmann, einn af mörgum. Einhver kann að telja það lítið hlutskipti manns, sem sótt hefur framhaldsmenntun til helstu menningarríkja álfunnar og sérmenntun í kvikmyndagerð til Prag, að gerast síðan andófsmaður á Íslandi. Og það því fremur ef haft er í huga að Þorgeir náði mikilli viðurkenningu á stuttum ferli við kvikmyndagerð og aðeins fáir af samtíðarmönnum hans höfðu viðlíka tök á íslensku máli sem hann.

Er andóf óþarft hér eða meinlítill hégómi? Nei, andóf er álíka mikilsvert lýðræði og mannréttindum og lífsloftið lifandi manni. Bæta má við þeirri skýringu, að alvöru störf krefjast á stundum sannorðra og einarðra lýsinga á helstu þjóðmálum. Þær eru því aðeins metnar sem andóf að samfélagið treysti sér ekki til að fjalla um þær af manndómi. Ráðandi öfl samfélagsins ákveða því jafnan með viðbrögðum sínum hvað telst andóf og hverjir andófsmenn.

Við Þorgeir höfðum átt kunningjaskipti á annan áratug þegar hann leitaði til mín vegna viðbragða lögreglu og ákæruvalds við tveimur harðorðum blaðagreinum hans í Morgunblaðinu síðla árs 1983. Refsimálið gegn honum leiddi síðan til réttargæslu minnar og verjandastarfa og úr varð vinskapur okkar. Undarlegra kann að þykja að þetta sama refsimál varð einnig síðar grundvöllur vinskapar ríkissaksóknarans, Þórðar Björnssonar, og Þorgeirs og tókust þeir þó óvægilega á í málinu. Slíkir voru mannkostir þeirra.

Andófsmaðurinn Þorgeir var raunar aðeins einn af mörgum Þorgeirum, sem átti vist með Vilborgu. Mér virtist sem Þorgeiri væri jafnan hugleiknast barnið í hverjum manni, skynjun þess, skilningur og minni, sem fylgir okkur fram í ellina.

Ekkju Þorgeirs, Vilborgu Dagbjartsdóttur, skyldmennum hans og vinum votta ég samúð.

Tómas Gunnarsson.

Eitt sinn sátum við öls við pel, Þorgeir og ég. Kom talinu að yfirskilvitlegum hlutum. Sagði hann mér þá sögu þessa: Þeir urðu kunningjar Þorgeir og Þórbergur á efri árum þess síðarnefnda. Þórbergur vildi sannfæra Þorgeir um líf eftir þetta, en hann þrjóskaðist við. Vildi hvorugur þýðast rök hins. Að lokum gerðu þeir með sér þann samning, að hvor sem á undan færi yfirum mundi gera hinum viðvart, ef líf væri eftir þetta.

Nú fór Þórbergur af þessum heimi og leið svo langur tími að ekki gerði hann vart við sig og hafði Þorgeir gleymt þessum sammælum þeirra. Þá er það eitt sinn að Þorgeir syfjar í eftirmiðdag og leggur sig. Sígur á hann höfgi nokkur en heyrir þá að stigið er inn á loftskörina, staf pikkað í gólf og staðnæmst við rúmgaflinn. "Hvort vakir þú Þorgeir?" spyr rám rödd. "Víst," umlar hann. "Vita skaltu þá Þorgeir, að ekki er líf eftir þetta," segir röddin, og í því glaðvaknar Þorgeir og sér í bak Þórbergi á rykfrakkanum ganga út úr herberginu stafi studdan.

Nær saga þessi ekki lengra - að sinni.

Ólafur Hannibalsson.

"Ég er hvíslandi golu í laufi".

Mörgum kann að þykja þessi ljóðlína Þorgeirs heitins Þorgeirsonar helsti hljóðlát, a.m.k. sem sjálfslýsing. Hann var meðal flestra þekktari fyrir skerandi reiðiöskur og hnitmiðuð svipuhögg. En þetta var ein hliðin á hans viðkvæmu sálarkviku, ef til vill sjálfur grunnur hennar, sem gat umhverfst ef honum þótti réttlætiskennd sinni misboðið. Hvíslandi goluþyturinn breyttist í voldugan skýstrók sem hitti hræsnara, fræðimenn og farísea búðarlokusamfélagsins með þeim hætti að enginn varð samur eftir. Skeyti hans voru hlaðin hárbeittum særingum íslenskrar tungu eins og hún getur risið hvað hæst. Atlögur hans breyttu samfélaginu varanlega.

Við sem vorum samtíma Þorgeiri í Tékkóslóvakíu á árunum 1959-1962 létum heillast af kostum hans og göllum. Að umbera "galla" hans fékkst endurgoldið í ríkum mæli, enda voru þeir í reynd gjöfull hvati í hans stórbrotna listfengi.

Hann var slíkur töframaður móðurmálsins að fáir ef nokkrir eru hans makar á seinni tímum. Natni hans og sjálfsagi við þýðingar var með eindæmum, og kostuðu hann margar gönguferðir í kringum Tjörnina þar til rétt lausn var fundin. Jafnvel þá var hann ekki ánægður heldur endurbætti eigin snilldarþýðingar í nýrri útgáfu. Þýðingar hans og útvarpsupplestur á verkum Heinesens mundu einar sér duga til að halda nafni hans á lofti. Hann var ekki í rónni fyrr en hann hafði náð hverju blæbrigði textans á íslensku. Til þess varð hann að skilja allt út í hörgul og fanga það í möskva málsins.

Þorgeir bjó yfir segulmagnaðri frásagnargáfu, og það var hamslaust gleðisvall að hlusta á hann þegar sá gállinn var á honum. Þær stundir áttu sinn drjúga þátt í að gera dvölina í Prögu, þessari dulmögnuðu borg, ógleymanlega. "Praga er ekki borg - hún er hugarástand" er haft eftir vísum manni.

Þorgeir og Praga áttu vissulega vel saman. Og í þeirri borg hreppti hann mesta hnoss ævi sinnar. Þar kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Vilborgu Dagbjartsdóttur; þar hittust tveir meistarar orðsins.

Þorgeir stóð oft í ströngu. Búðarlokusamfélagið gerði honum lífið ærið súrt á margan hátt. Það er erfitt að ímynda sér betri stoð og styttu í þeim gerningahríðum en konu hans. Ástúð hennar og ósérhlífin umhyggja, einkum eftir að heilsan tók að bila, var aðdáunarverð. Það lægi sýnu minna eftir Þorgeir Þorgeirson ef hennar hefði ekki notið við.

Annars verða öll orð ósköp fátækleg þegar þessi maður er kvaddur.

Kannski eiga þess vegna hans eigin orð best við að skilnaði: "Verði einhverjar jarðneskar leifar þegar ég er dauður þá vil ég láta dansa færeyskan dans og hafa mikið af brennivíni í útförinni minni.

Það væru ekki ónýt eftirmæli ef einhver gæti sagt löngu, löngu seinna. - Ég kom undir í jarðarförinni hans Þorgeirs Þorgeirsonar.

Þá væri gaman að vera dauður."

Árni Finnbjörnsson, Haukur Jóhannsson, Helena Kadec&cech;ková, Helgi Haraldsson, Jóhann Páll Árnason, Jón R. Gunnarsson, Nirmal Verma, Olga María Franzdóttir og Hallfreður Örn Eiríksson, Ólafur Hannibalsson, Steinunn Bjarnadóttir.

Fyrir gamlan lagsmann stendur það upp úr hvílíkur afbragðs sagnamaður Þorgeir gat verið. Verðlaunahafar í svokallaðri fyndni reynast harla léttvægir í þeim samanburði. Í annan stað mátti á stjörnustundum naumast finna skarpskyggnara eða óvægnara gegnumlýsara samfélagsins. Þá hrutu ósjaldan baneitraðar athugasemdir sem kerfismönnum þótti hart undir að búa, hvar í flokki sem þeir annars stóðu. Í þriðja máta var hann með orðhagari mönnum bæði í ræðu og riti og næmur skynjari á margar listgreinar. Fyrsta viðurkenning hans fyrir þýðingu hefur líklega verið á smákvæði eftir Rilke í Skólablaði MR 1952. Þeir Guðmundur E. Sigvaldason, síðar jarðeðlisfræðingur, skiptu með sér 50 kr. verðlaunum. Síðari og meiri afrek Þorgeirs á því sviði munu aðrir tíunda. En hann hafði stundum á sér aðra hlið og gat verið óþægilegur í umgengni, skelfing móðgunargjarn og fyrirtektasamur og hálfgert ólíkindatól. Ekki var ætíð gott að sjá fyrir hvort holdrosan sneri inn eða út. Þetta gat átt jafnt við gagnvart samfélaginu sem einstaklingum.

Þorgeiri lét jafnvel enn betur að gagnrýna en skapa sjálfur, og er þá allnokkuð sagt. Eitt hið fyrsta af snöfurlegri gagnrýni hans birtist í Þjóðviljanum vorið 1959 og hét "Borgaralegur snyrtimennskuglæpur í Iðnó". Hún fjallaði um sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Túskildingsóperunni eftir Bertolt Brecht og Kurt Weill. Sú grein átti reyndar síðar sama ár eftir að fleyta honum eftir krókaleiðum inn í kvikmyndaskólann í Prag.

Mikill fengur er að nýlegu myndbandi þar sem Þorgeir viðrar einkum skoðanir sínar um kvikmyndir og gefur um leið olnbogaskot í ýmsar áttir. Vonandi hafa svör hans við fyrirspurnum eftir sýningu myndarinnar líka verið tekin upp, en því miður mun lítið varðveitt af háðskum tilsvörum hans eða skopsögum þeim sem getið var í upphafi, nema í gloppóttu minni okkar. Sumt af þeim toga er þó í greinasafninu Uml og andblæ af hinni notalegu frásagnarlist má skynja í bókinni Kvunndagsfólk.

Heilsufar Þorgeirs var harla brösótt hina síðari áratugi og urðu til ýmsar sagnir um skipti hans við heilbrigðisþjónustuna, sumar nokkuð í hans eigin stíl. Gömlum kunningjum hnykkti stundum við þegar fyrir kom að mildur tónn heyrðist frá Geira. Nú á hann líklega ekki langt eftir, hugsuðu menn. Lengi tókst honum þó að rífa sig upp á heiftinni þegar honum þótti á rétt sinn eða annarra gengið. Nú verða þau tilþrif varla fleiri og tilveran er einum tómlegri en áður.

Árni Björnsson.

Ég kom fyrst á heimili Þorgeirs Þorgeirsonar og Vilborgar Dagbjartsdóttur seint á 8. áratugnum, skömmu áður en þau fluttu úr Vonarstrætinu. Ég varð heimagangur á sama tíma og fjölskyldan var að koma sér fyrir á Bókhlöðustígnum; breyta og bæta og mála húsið rautt með svörtu þaki.

Á einhvern hátt var öðruvísi fyrir unglingahóp að koma inn á þetta heimili en almennt gerðist. Fyrr en varði var maður lentur í umræðum um menn og málefni, listir og stjórnmál. Þetta var á tímum mikils kynslóðabils, var okkur sagt, en á Bókhlöðustígnum voru hlutverkin önnur en við áttum að venjast. Unga fólkið mátti hafa sig allt við til að látast að minnsta kosti ná eitthvað upp í róttækni húsbændanna. Hvergi var slegið af kröfum og sá sem ekki var kunnugur einhverju umræðuefni sá sér þann kost vænstan að lesa sér til svo hann væri maður með mönnum. Ég held að innra með okkur höfum við öll ákveðið að nokkuð mætti læra af mælsku Þorgeirs, enda fáir sem jafnast á við hann í því valdi sem hann hafði á því að segja sögur og setja fram hugmyndir og skoðanir. Og mitt í allri alvörunni var hann fyndnasti maður sem við höfðum nokkru sinni hitt.

Minningin um Þorgeir er alltaf bundin Vilborgu, en þau hafa orðið mér að miklu liði, sem ég fæ seint fullþakkað. Móðurbróðir minn hafði einu sinni orð á því að það gáfulegasta sem ég hefði nokkurn tímann gert í lífinu hafi verið þegar ég gerði Þorgeir að umboðsmanni mínum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna á meðan við Egill, sonur þeirra hjóna, vorum í námi erlendis. Sá eiginleiki Þorgeirs til að gefast ekki upp fyrir kerfinu var enda sá sem einkenndi hann mest út á við. Með honum vann Þorgeir það stórvirki að þvinga hið opinbera til að viðurkenna meinbugi á réttarkerfi landsins og fá því breytt.

Með Þorgeiri er genginn merkur Íslendingur og gagnmerkur maður. Ég samhryggist Vilborgu, Agli, Þorgeiri Elís og fjölskyldum þeirra og öðrum þeim sem voru nákomnir honum.

Lára Magnúsardóttir.

Í sumar hlotnaðist mér sá heiður að fyrirlesa um bókmenntaverk Þorgeirs Þorgeirsonar á ógleymanlegri afmælishátíð sem haldin var á Siglufirði í tilefni af sjötugsafmæli hans. Ég talaði um tímann og minninguna eða minnið sem leikur svo stórt hlutverk í verkum Þorgeirs. Hann var heimspekilegur og hugmyndalegur höfundur og þó að ég hafi bæði kennt og skrifað um verk hans koma þau mér alltaf á óvart. Heimildaskáldsagan Yfirvaldið er með merkustu bókum áttunda áratugarins og Hvunndagsfólk hefur að geyma frásagnir af uppvexti á stríðsárunum í skugga "verndaranna". Skáldsagan Einleikur á glansmynd hefur verið kölluð "súrrealistísk heimildaskáldsaga" og það lýsir henni vel. Þessar skáldsögur Þorgeirs eru þrauthugsaðar og byggðar af nákvæmni en um leið eru þær myndrænar eins og kvikmyndir hans, ljóðrænar eins og þýðingarnar og heimspekilegar eins og ritgerðirnar. Öll þessi verk bíða ungra fræðimanna eins og falinn fjársjóður.

Þegar ég var að vinna að fyrirlestrinum í sumar spurði ég Þorgeir hvort ekki væru til einhver persónuleg viðtöl við hann. Hann svaraði því til að sér dytti ekki í hug að opna hjarta sitt fyrir bláókunnugum blaðamönnum. Minningin; að muna eða gleyma, fela eða afhjúpa, segja frá eða þegja er kjarni allrar listsköpunar og hjá Þorgeiri var þessi leikur ef til vill alvarlegri en hjá mörgum öðrum. Hugsun hans var skörp og sundurgreinandi, hann gat verið ákaflega fyndinn en líka stóryrtur og meinyrtur svo að sveið undan. Hann þoldi ekki "fúsk" af neinu tagi og maður gat ekki búist við neinni undanþágu frá miskunnarlausri gagnrýni hans í skjóli þess að vera vinur hans. Hann hlífði engum og síst sjálfum sér. Hann var réttsýnn og hann var góður maður, án þess hefðu orð hans aldrei skipt jafn miklu máli og raun bar vitni.

Við Kristján vottum Vilborgu, börnum þeirra Þorgeirs og fjölskyldu innilegustu samúð okkar.

Dagný Kristjánsdóttir.

Fyrir framan mig liggur póstkort, rithöndin mjög sérstök og falleg, dagsett 14. júlí 1976, sem hefst á þessum orðum: "Uppskot tygara viðvíkjandi útgávu av bökur mínar í týðing Þórgeirs sum frá líðir í árunum 1977-1982 haldi eg vera gott og kann eg tí góðtaka." Undirritað: William Heinesen. Þetta varð upphaf að mjög merkilegu ritsafni Heinesens í íslenskri þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar, þar sem gefin var út ein bók á ári. Þarna hófst margra ára samstarf okkar Þorgeirs, sem var ákaflega skemmtilegt og mér afar lærdómsríkt. Ég var nýtekinn til starfa sem útgáfustjóri Máls og menningar og vænti mikils af þessu sagnasafni og varð síður en svo fyrir vonbrigðum. Einhverra hluta vegna fór það svo að ég las allar þýðingarnar saman við frumtexta um leið og handrit barst, sennilega af tómri eigingirni. Frumhandrit Þorgeirs a.m.k. framan af voru handskrifuð, hver stafur eins og teiknaður, og þarna kynntist ég vinnubrögðum sem ég hafði aldrei áður séð. Og afraksturinn var eftir því. Persónur og atburðir kviknuðu til ótrúlegs lífs í hinum íslenska búningi um leið og og þýðandinn gætti fyllsta trúnaðar við anda frumtextans. Afstaða Þorgeirs var sú að óhjákvæmilega tapaðist eitthvað þegar texti færðist yfir á annað tungumál, og verkefni þýðandans væri að vinna upp þetta tap með því að endurskapa, skerpa drættina með þeim meðulum sem tungumál hans réði yfir. Fyrir kom að mér þótti hann ganga of langt í þessari endursköpun og þá var oft annað hvort að hann sannfærði mig með ómótstæðilegum rökum eða fór burt í hálfgerðu fússi og kom síðan til baka nokkrum dögum seinna með svo snjalla lausn að ég varð ævinlega dolfallinn.

Á þessum árum skrifaði hann talsvert í Tímarit Máls og menningar, og ég vissi að ef efni barst frá Þorgeiri væri því hefti borgið. Minnisstæðast er mér dagbókarbrotið "Kettir eru merkilegar skepnur" sem birtist í 1. hefti 1981. Í sama hefti er önnur heillandi dagbók, "Sautján júlídagar" eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur, sem yrkir þar eina japanska tönku fyrir hvern færðan dag. Þetta dagbókarbrot Þorgeirs er með snjöllustu esseyjum sem skrifaðar hafa verið á íslensku, tilbrigði um dularfulla eðlisávísun katta, feigð og lífsháska og lífið fyrir dauðann. Rúsínan í pylsuendanum er óborganleg sagan af því hvernig Þórbergur Þórðarson porrar höfund upp fyrir milligöngu miðils á fræðslufundi í Ölfusborgum, dæmi um húmor og frásagnarsnilld Þorgeirs sem ásamt hlýju viðmóti og sannri menningu hugar og hjarta laðaði ungt fólk að heimili þeirra Vilborgar í Vonarstræti og á Bókhlöðustíg.

Þorleifur Hauksson.

Fréttin af andláti Þorgeirs barst mér til Danska stúdentahússins í París, þar sem ég sé út um gluggann tvö hús sem Þorgeir bjó í um tíma, hinn djarfa svissneska stúdentabústað eftir Le Corbusier og hið glæsilega sænska stúdentahús.

1984-1986 var Vilborg umsjónarkennari minn í Austurbæjarskóla, sem - eins og hún orðar það - opnar út arma sína eins og stór faðmur. Þannig opnuðu einnig Vilborg og Þorgeir heimili sitt fyrir einstæðri danskri móður og syni hennar í framandi landi. Það varð upphafið að mörgum góðum stundum í húsinu við Bókhlöðustíg.

Síðar meir, sem skiptinemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sat ég oft við kringlótta matarborðið við litlu gluggana með útsýni yfir Lækjargötu. Margir lesendur minnast vafalaust líka með gleði og þakklæti margra ánægjulegra stunda og fróðlegra umræðna þar. Eftir góðan íslenskan málsverð lagaði Vilborg "gott kaffi" handa okkur og á eftir fylgdu svo umræður. Þessar heillandi og háfleygu umræður um skáldskap og stjórnmál sem kenndu stjórnmálafræðinemanum margt um eðli valdsins og mikilvægi mannréttinda, sem aldrei verður lært í stjórnmálafræði.

Hér fyrir innan vetrarmyrkvaðar rúðurnar, á meðan að stormurinn hvein um nakin tré Þingholtanna, og gamla húsið brakaði undan vindinum og fótataki, birtist sannur íslenskur, norrænn og evrópskur gáfumaður. Enginn munur var á lágri stofunni langt í norðri og hæstu dómssölum eða hugsjónum í Evrópu. Í þessu húsi og við þetta borð, lærði ég hvernig hugmyndir og hugsjónir eiga sér engin takmörk. Hvernig lýðræðið og mannréttindin geta aðeins lifað án takmarkana.

Og við sem jusum af þessum þekkingarbrunni, munum ávallt muna skyndilegt bros og klakandi hlátur...

Rasmus Gjedssø Bertelsen.

Kveðja frá SÁL

Árið er 1972 og það hefur risið upp hópur unglinga sem sögðust geta framkvæmt sjálf það sem þunglamalegt menntakerfið hafði ekki komið í framkvæmd: að setja á stofn leiklistarakademíu sem stæði undir nafni. Þau vildu ekki bíða. Lífið fer svo hratt framhjá þegar maður er ungur. Engu er líkara en að maður sitji uppi með farseðil í hraðlest. Allt verður að gerast núna og ekki tími til að láta lífið bara líða hjá. Við vildum sitja á fyrsta farrými til framtíðar, til lífsins.

Lífsmarkið var sýnt. Leiklistarakademían var stofnuð í trássi við öll lög og reglugerðir. Í flokkinn bættust ungir kennarar sem höfðu daðrað við róttækar hugmyndir, varla eldri en nemendurnir sjálfir. Og "eldri" maður. Já og þessi líka maður! Árið er 1972 og vart hægt að hugsa sér meiri andstæður en uppivöðslusama unglinga með byltingarkenndar hugmyndir um skólakerfi og listmenntun og hinsvegar skeggjaðan "eldri" mann sem brosti kíminn þegar hugmyndaöldurnar risu hvað hæst og skullu á steingeldu kerfinu. Eins og ekkert væri meira gaman í heiminum en að láta berast með þessum öldum. Hvað gat þessi maður átt sameiginlegt með ólátabelgjum sem varla voru laus undan því undarlega og síbreytanlega ástandi, líkamlega og andlega, sem er kölluð gelgja og öllum þroskuðum einstaklingum finnst hvað erfiðast að umbera? Hvaðan kom honum þolinmæðin? - Og af hverju skildi hann þetta betur en aðrir? Og af hverju skipaði hann sér í sveit með þessum hörðu, en þó óhörðnuðu unglingum? Úr hvaða efni var svona maður? Leiklistarskóli SÁL stofnaður af nemendum skólans í trássi við kerfið sem hafði verið of svifaseint til að fylla upp í það tómarúm sem hafði skapast við að þeir leiklistarskólar sem fyrir höfðu verið voru lagðir niður. Anarkistísk aðgerð; bylting hinna óþolandi; móðgun við alla leiklistarlega rétthugsun. Framin af óhörðnuðum unglingum með vaxtarverki sem áttu bara að ná til líkamans en höfðu tekið uppá því að setjast að í höfðum þeirra og komið af stað slíkum gjörningi að rétthugsandi fólk gat ekki á heilu sér tekið. Fólk á breytingaskeiði er erfitt, ef ekki hreinlega hættulegt, það gæti nefnilega tekið uppá einhverju sem enginn sæi fyrir og það gæti hreinlega eitthvað hlotist af því! Þarna fannst Þorgeiri Þorgeirsyni gaman að vera. Enda sagði hann að einræði væri sæluríki stöðnunar og þeim sem aðhylltust það stæði stuggur af lýðræði, því þar gæti allt gerst.

Og þarna sat hann í miðjum hópnum, einn af okkur, en þó svo ólíkur, en samt einn af okkur. Hann var sá eini, af þó mjög svo framsæknum kennurum, sem sagði aldrei: Þið og Ég. Hann sagði alltaf: Við. Það var af þeirri einföldu ástæðu að hann var einn af hópnum. Þannig maður var Þorgeir Þorgeirson.

Það þarf vart að lýsa fyrir neinum hvaða hvalreki hann var á fjörur okkar. Maður sem hafði litið svo á að til þess að hægt væri að gera leiknar myndir af einhverju viti, þyrfti að skoða það samfélag sem myndirnar ættu að endurspegla. Með kvikmyndatökuvélina á lofti hafði hann gert það, rannsakað það mannlíf sem við ætluðum að leika og endurskapa í rými leikhússins. Hann hafði þegar gert það með heimildarmyndum eins og Maður og verksmiðja, og Róður.

Ég man ekki eftir því að hafa setið eina einustu kennslustund hjá Þorgeiri, þó kenndi hann okkur næstum uppá hvern dag í hartnær þrjú ár. Þetta var samræða. Hann efldi með okkur samræðulist um listina, um lífið og hvernig ætti að búa til listaverk úr lífinu. En fyrst og fremst opnaði hann augu okkar; að horfa gagnrýnum augum á umhverfið, afhjúpa það og greina og umskapa í list. Hvort sem það yrði til heimabrúks eða heimsbrúks.

Í þessu samfélagi fann Þorgeir sig enda aðhylltist hann þá skoðun að hver maður ætti að vera frjáls að vinna að hugðarefnum sínum og hefði því rétt á að stunda nám í hverju því sem hugur hans stóð til. Listaskóli átti að hafa margar vistarverur, en enga dyraverði.

Hann útvíkkaði bókstaflega þessa kenningu sína, því jafnan stóð heimili hans og Vilborgar okkur opið. Þar gengum við á fund samhentra hjóna og þar sem Vilborg var fengu samræðurnar enn fleiri og magnaðri víddir.

Mörgum stóð stuggur af svo hömlulausu lýðræði eins og SÁLskólinn aðhylltist, þar sem nemendurnir skipulögðu námið eftir þörfum sínum. Þegar varðhundar valdsins tóku að glefsa í skólann, þá voru góð ráð dýr - öllum nema Þorgeiri, sem á ögurstundu hélt ró sinni, því hann hafði þann fágæta eiginleika að geta, á slíkum stundum, greint flókna atburðarrás í einni sjónhendingu af einstakri skarpskyggni. Yfirvegað og rólega miðlaði hann af næmi sínu. Skilgreindi og lagði okkur til á hógværan hátt, efni í þau vopn sem við urðum síðan sjálf að smíða til að verja tilvist okkar og hugsjónir. Það urðu vopn sem bitu. Enda maðurinn lagt stund á heimspeki, sálfræði, listasögu og kvikmyndaleikstjórn.

Að lokum fór það svo að ráðamenn um leiklistarnám í landinu sáu sér ekki annað fært en að kokgleypa kenningar okkar um leiklistarnám og námsmannahópinn sem hafði myndast á þeim þremur árum sem skólinn starfaði - allt nema Þorgeir.

Hann var að sjálfsögðu of stór biti í svo þröngan háls og auk þess illmeltanlegur. Hann, sem Leiklistarskóli Íslands hefði þó þurft mest á að halda.

En kannski hefði Þorgeir aldrei unað þar, það var ekki í eðli hans að róa á svo lygnum sjó. Það reyndist líka bíða hans stærri og mikilvægari verkefni við að koma lýðræðislegri stjórnskipun á í landinu.

Leikrit Þorgeirs eru því miður ekki mörg en engan leikritahöfund hef ég staðið að meira næmi fyrir hinni dramatísku list. Skarpleg greining hans á eðli mannsins og skilningur á því sem fær eina mannveru til að þrauka lífið af, þar sem hver hefur sína afsökun, - var einstök. Hann leiddi okkur þannig um veröld sína, sem var stærri en sú veröld sem blasti við okkur dags daglega. Þessa veröld lagði hann á borð fyrir okkur eins og ekkert væri sjálfsagðara en að krakkagrislingar eins og við rifum hana í okkur. Við erum enn að smjatta á henni og verðum sjálfsagt að því meðan eitthvert okkar tórir á þessari jörð. Því vissulega hefur fátt af þessu verið auðmelt - þó ekki tormelt, en alltaf gómsætt. Og eftirbragðið höfugt og seiðandi - og varir ...

Viðar Eggertsson.