Margrét Eir segir tónlistarbransann á Íslandi vera mikið hark.
Margrét Eir segir tónlistarbransann á Íslandi vera mikið hark.
ANDARTAK er önnur plata Margrétar en hún gaf út plötuna Meir fyrir jólin árið 2000. Hún segir nýju plötuna mun stærri í sniðum en hina fyrri og reyna meira á hana sem söngkonu.

ANDARTAK er önnur plata Margrétar en hún gaf út plötuna Meir fyrir jólin árið 2000. Hún segir nýju plötuna mun stærri í sniðum en hina fyrri og reyna meira á hana sem söngkonu. Á Andartaki eru þrjú tökulög og sjö ný lög, meðal annars eftir þá Magnús Þór Sigmundsson og Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Textana sömdu m.a. Andrea Gylfadóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir.

"Ég er ekki lagahöfundur sjálf - ekki ennþá!" segir Margrét og bætir við að hún hafi oft verið með lög "í höfðinu" en aldrei sett þau niður á blað. Það muni þó líklega breytast á næstunni. "Nú er ég farin að læra á gítar, keypti mér gítarbók um daginn og kann alveg fjögur grip," segir hún stolt þar sem hún er búin að koma sér fyrir í sófanum með kaffibolla.

Margrét heldur útgáfutónleika á Litla sviði Borgarleikhússins á miðvikudagskvöld, beint eftir að hafa verið í söngleiknum Grease á Stóra sviðinu.

- Verður það ekki erfitt?

"Það verður ágætis upphitun fyrir tónleikana, allavega er ekki langt að fara. Kannski er þetta smá klikkun en ég hef engar áhyggjur, hlakka bara til."

Heims um ból í ágúst

Margrét hefur sungið bakraddir á fjölmörgum plötum í gegnum tíðina, hún segir það einfaldlega nauðsynlegt ef maður ætli að lifa á því að vera tónlistarmaður á Íslandi.

"Tónlistarbransinn er svo mikið hark hérna. En auðvitað er líka skemmtilegt að syngja bakraddir; góður félagsskapur, grín og gleði. Það er óneitanlega sérstakt að syngja "Heims um ból" klukkan átta á mánudagsmorgni í ágúst eins og þarf oft að gera þegar jólaplöturnar eru teknar upp."

Hún segir bakraddasönginn gerólíkan því að vinna ein og vera í forgrunni. "Ég er enn þá að venjast því, ég er miklu berari einhvern veginn þegar ég er svona ein. Mér bregður dálítið þegar ég sé risastór plaköt í búðum með myndum af sjálfri mér. Ég þarf bara að læra að njóta þess meira að vera svona ein í sviðsljósinu. Ef maður gerir það ekki á maður ekkert erindi í þennan bransa."

Slæmt tískutímabil

Annað af tveimur erlendum tökulögum á plötunni er "The Power of Love" með Frankie Goes to Hollywood sem fengið hefur nafnið "Eldheitt" í þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar.

"Ég var beðin um að syngja það í brúðkaupi í sumar og þá mundi ég hvað þetta er æðislegt lag. Það fylgir því svo skemmtileg '86-nostalgíustemning, mann langar alveg í túberað hár og grifflur þegar maður heyrir það. Eins og þetta var nú slæmt tískutímabil þá eru nefnilega mörg lögin frá þessum tíma flott og með fallegum melódíum."

Hitt lagið er "Wuthering Heights" eftir Kate Bush sem nefnist "Heiðin há" í þýðingu Þórarins Eldjárns. Margrét segist hafa hlustað mikið á Kate Bush fyrir nokkrum árum en síðan tekið sér hlé frá henni. Endurfundir urðu síðan í vor þegar hún heyrði "Wuthering Heights" í útvarpinu í rútu klukkan fimm um morgun á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll.

"Það var mikil áskorun að taka þetta lag og ég veit að sumum finnst lagið ef til vill heilagt í flutningi Kate Bush, en ég hlakka samt mjög til að sjá viðbrögðin."

Lagið fjallar um ástir þeirra Kötu og Heathcliff, aðalpersónanna úr skáldsögunni Fýkur yfir hæðir eftir Emily Bronte. "Lagið fjallar um gríðarlega ást á milli tveggja einstaklinga sem ná ekki saman, Það er dæmigert fyrir mig, ég er stundum dálítið dramatísk sjálf," segir hún og brosir.

Útgáfutónleikarnir eru í Borgarleikhúsinu á miðvikudagskvöld og hefjast kl. 22. Miðinn kostar 2.000 krónur.

bryndis@mbl.is