Diðrik Jóhannsson, sonur Hans Kuhn, afhenti ráðherra gjafabréfið.
AFKOMENDUR þýska fræðimannsins dr. Hans Kuhn, sem ferðaðist um Ísland snemma á síðustu öld og tók mikið af myndum og safnaði gripum, hafa gefið Þjóðminjasafninu þjóðlífs- og landslagsmyndir úr þessum Íslandsferðum.
AFKOMENDUR þýska fræðimannsins dr. Hans Kuhn, sem ferðaðist um Ísland snemma á síðustu öld og tók mikið af myndum og safnaði gripum, hafa gefið Þjóðminjasafninu þjóðlífs- og landslagsmyndir úr þessum Íslandsferðum. Tilefnið er að út er komið hjá bókaútgáfunni Erni og Örlygi ritverkið Úr torfbæjum inn í tækniöld eftir Kuhn og þýska samstarfsmenn hans, Bruno Schweizer og Reinhard Prinz, ásamt Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi.
Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra tók við gjafabréfi frá afkomendum dr. Kuhns í útgáfuhátíð síðastliðinn sunnudag. Afhenti ráðherra síðan gjafabréfið þeim Ingu Láru Baldvinsdóttur, deildarstjóra ljósmyndadeildar Þjóðminjasafnsins, og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði.
Á þriðja þúsund myndir í þriggja binda verki
Ritverkið Úr torfbæjum inn í tækniöld er í þremur bindum, um 1.700 blaðsíður og með á þriðja þúsund myndum og teikningum sem fæstar hafa birst áður. Árni Björnsson ritar yfirlit um menningar-, stjórnmála- og atvinnusögu fyrstu áratuga 20. aldar og hinir höfundarnir rita ferðalýsingar og frásagnir af þeim umbrotatímum þegar Íslendingar lögðu niður forna lífshætti og vinnubrögð. Einnig prýða bækurnar myndir og teikningar þeirra þriggja síðarnefndu.