Brain Police fékk mikla innspýtingu er söngvarinn Jens Ólafsson (t.v.) gekk til liðs við sveitina. Drengurinn er einfaldlega rokkari af Guðs náð.
Brain Police fékk mikla innspýtingu er söngvarinn Jens Ólafsson (t.v.) gekk til liðs við sveitina. Drengurinn er einfaldlega rokkari af Guðs náð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brain Police er önnur plata samnefndrar rokksveitar. Sveitin er skipuð þeim Jens Ólafssyni (söngur), Jóni Birni Ríkarðssyni "Trucker" (trommur og gong), Gunnlaugi Lárussyni II (gítar) og Herði Stefánssyni (bassi). Lög eftir meðlimi.

Brain Police er önnur plata samnefndrar rokksveitar. Sveitin er skipuð þeim Jens Ólafssyni (söngur), Jóni Birni Ríkarðssyni "Trucker" (trommur og gong), Gunnlaugi Lárussyni II (gítar) og Herði Stefánssyni (bassi). Lög eftir meðlimi. Upptökustjórn var í höndum Brain Police og Hrannars Ingimarssonar sem sá einnig um takkastjórn. Tvö lög, "Taste the Flower" og "Jacuzzi Susy" voru tekin upp af Ísleifi. Axel stýrði þar tökkum og hljóðblandaði. Axel Árnason sá um hljómjöfnun plötunnar.

FYRSTA plata Brain Police, Glacier Sun, olli dulitlum vonbrigðum er hún kom út í ársbyrjun 2000. Fyrir það fyrsta var hljómur slæmur en í öðru lagi hæfði rödd þáverandi söngvara illa þeirri tónlist sem Brain Police hefur verið að eiga við frá degi eitt, þ.e. eyðimerkurrokk í stíl við það sem Queens of the Stone Age, Kyuss og Fu Manchu hafa verið að fást við. Bæði þessi atriði eru komin í lag á Brain Police, annarri breiðskífu sveitarinnar.

Það er gríðarlegur styrkur fyrir sveitina að hafa fengið Jens Ólafsson sem söngvara (áður í Toy Machine frá Akureyri). Drengurinn er auðheyranlega með rokkrödd af Guðs náð. Þegar honum er skellt aftan á Brain Police-trukkinn er eiginlega lítið hægt að klúðra þessu því hinir þrír kunna vel að munda strengi og bumbur. Í raun er hljómsveitin endurfædd. Upptökumanninum Hrannari Ingimarssyni tekst síðan vel upp í því að koma þessum feita og sveitta rokkhljómi, sem Brain Police er þekkt fyrir á hljómleikum, til skila.

Platan byrjar með svakalegu inngangsstefi; hlaðið gíturum og keyrt áfram af trommum. Stefið segir við hlustandann: "Læsið dætur ykkar inni. Brain Police eru mættir!" Síðan rekur hver sandleginn ópusinn annan. Þétt rokkið er öskrað áfram af Jens (eða Jenna) sem er með rödd sem minnir allt í senn á Eddie Vedder, Chris Cornell og Mark Lanegan. Mér finnst þó andi þess síðastnefnda, sem eitt sinn söng með hinni stórgóðu gruggsveit Screaming Trees en tekur nú við og við í hljóðnemann hjá Q.O.T.S.A., liggja hvað mest yfir. En tilfinningin, krafturinn og ástríðan er Jenna; strákurinn gefur sig af öllu hjarta í þetta.

Lagatitlarnir eru í svölum rokkanda, og mig grunar að strákarnir hendi um leið lúmskt gaman að þessari menningu. "Return of the Lovechopper of Destiny", "Iron Fist" og "Love Mutha" segja sitt. Þá er umslagið í sama dúr, vel heppnað geimrokksumslag og eiginlega bara vel svalt og rokkað.

Það eina sem ég get sett út á er að lagasmíðarnar eru full einsleitar, sérstaklega er á líður. Þannig byrjar platan af miklum krafti, áðurnefnd "Return..." og "Rocket Fuel" eru kandídatar í smáskífur, ef þær væru gefnar út hér á landi (réttara væri að kalla þetta "útvarpslög"). "Love Mutha", með sínum Black Sabbath inngangi, er þá snilldarrokkari. Lag sem gott er að þeysa á bíl við og sá eiginleiki á reyndar við þau fleiri. Síðan er eins og komi smá þreyta er á líður, vegna áðurnefndra takmarkana í lagasmíðum. Það er ekki fyrr en í lokalaginu, "Womble Dust" (ég tel ekki tvö síðustu lögin með, sem eru eiginleg aukalög) sem birtir til. Melódían í því lagi er margbreytilegri en áður , lagið "vítt" og skemmtileg kaflaskipt. Svínvirkar alveg.

Tvö síðustu lögin eru tekin af Master Brain smáskífunni sem út kom í fyrra. Þau skemma dálítið fyrir heildarupplifuninni, þar sem hljómurinn er ekki nærri því eins góður og á hinum lögunum. Það hefði verið sniðugra að setja þau aftarlega sem "felulög", merkja þau í bak og fyrir sem aukalög eða þá bara taka þau upp aftur.

Allt í allt rokkar þessi plata firna vel. Það sem uppá vantar í lagasmíðum bætir Brain Police fyllilega upp með rokki, róli og enn meiru af rokki ef það er það sem þarf. Því þegar allt kemur til alls þá er þetta bara rokk og ról ... en mér hugnast það vel!

Arnar Eggert Thoroddsen