[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og aðrar þjóðir eigum við og höfum átt glæsilega fulltrúa í stóriðjuveri draumanna Hollywood. Frægastur núlifandi er að sjálfsögðu Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, sem hefur búið í Los Angeles í áratugi við framleiðslu á kvikmyndum.

Eins og aðrar þjóðir eigum við og höfum átt glæsilega fulltrúa í stóriðjuveri draumanna Hollywood. Frægastur núlifandi er að sjálfsögðu Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, sem hefur búið í Los Angeles í áratugi við framleiðslu á kvikmyndum. Halldór Laxness dvaldi í Hollywood á sínum ungdómsárum við gerð kvikmyndahandrita. Það er þó ekki ætlunin hér að fjalla um kvikmyndaferil þessara manna heldur beina sjónum að íslenskum leikurum sem hafa starfað í Hollywood allt frá tímum þöglu myndanna.

Bill Cody var Vestur-Íslendingur af skagfirskum uppruna og fyrsti íslenski Hollywoodleikarinn. Hann var töluvert afkastamikill leikari og lék gjarnan kúreka. Á því tímabili sem Laxness dvaldi í Hollywood birtist eftir hann grein í Morgunblaðinu, 18. desember 1927, þar sem hann segir af kynnum sínum af Bill Cody. "Hann er heimsfrægasti kúreki (cowboy). Ég minnist þess að hafa séð hann nokkrum sinnum á léreftinu með langa keyrið sitt og barðastóra kúfinn bæði í Evrópu og Amriku..."

Bill Cody lærði fyrst að sitja hest hér á landi. Var hann sendur hingað sjö ára gamall drengur og dvaldi að Húsabakka við Sauðárkrók í tvö ár og var látinn smala á hestbaki upp um fjöll og firnindi.

Halldór lýsir Bill Cody í bókinni Líf í skáldskap og segir meðal annars: "Hann var einhvers konar fyrirmyndarkúreki, vel virtur og talinn í alhæsta flokki í sinni grein. Hann var ekki sami banditt og sumir þeirra sem riðu um héruð á filmgardínunni, gætti þess vendilega að vera hvorki með sígrettu dinglandi í munnvikinu né vínglös og flöskur á lofti og hlaut fyrir það mikið lof hjá kvenfélögum, siðapostulum og söfnuðum um allar sveitir." Bill átti son sem hann lét skíra í höfuðið á sér en hann var einnig kvikmyndaleikari.

Bill Cody lék m.a. í kvikmyndinni Riding of Mystery árið 1925 og Fighting Gringo, 1939. Hann lést árið 1948 í Santa Monica í Kaliforníu.

Bjarni Björnsson dvaldi í Hollywood í fjögur ár og lék smærri hlutverk í nokkrum kvikmyndum. Bjarni, sem var fæddur 1890, lagði ungur stund á skrautmálun í Kaupmannahöfn. Á árunum 1905-1910 starfaði hann við leiktjaldamálun við Dagmarleikhúsið í Kaupmannahöfn, að sögn Gunnþóru Halldórsdóttur safnvarðar hjá Kvikmyndasafni Íslands. Í Kaupmannhöfn fór hann að leika með áhugamannaleikflokki, "Det Lille Casino". Þegar hann flutti til Íslands aftur starfaði hann með Leikfélagi Reykjavíkur og hélt skemmtanir í Iðnó. Bjarni hélt aftur til Kaupmannahafnar 1914 og vann í eitt ár hjá Nordisk Filmcompagni og lék ýmis smá hlutverk en eitt veigameira í kvikmyndinni, "Barnet", í leikstjórn Holger-Madsen. Þegar stríðið braust út fór hann aftur heim til Íslands.

Árið 1917 hélt hann til Ameríku, fyrst til New York og síðan til Chicago sem þá var miðstöð kvikmyndaiðnaðarins þar í landi. Fékk hann tækifæri til að leika í kvikmynd hjá félagi sem gerði nær eingöngu auglýsingamyndir.

Árið 1918 fluttu kvikmyndafyrirtækin í Chicago til Hollywood.

Árið 1923 er Bjarni kominn til Hollywood til þess að hitta leikstjórann Lawrance Trimble sem hafði ráðið hann til þess að leika í myndinni "My Old Dutch". Í Hollywood notar hann nafnið Barney Bronson. Einnig vann hann þar fyrir sér sem staðgengill leikara á meðan sviðsmyndin var gerð klár.

Bjarni lék m.a. í kvikmyndinni, "The Black Pirate" í leikstjórn Alberts Parkers. Aðalleikarar voru hinir þekktu leikarar Douglas Fairbanks og Mary Pickford.

Hann lék einnig í myndinni "Beau Geste" sem var gerð í Mexíkó í leikstjórn Herberts Brenons. Meðal leikara eru Ronald Coleman og Neil Hamilton. Hann lék í myndinni "Wedding March", sem einnig er þekkt undir heitinu "The Honeymoon", frá 1928 í leikstjórn Erichs von Stroheim.

Það ár var kreppan í algleymingi og hélt Bjarni til New York til að safna fyrir farinu heim til Íslands. Tveim árum síðar giftist hann unnustu sinni, Torfhildi Dalhoffsdóttur, píanóleikara og silfursmið, og þau eignuðust dóttur.

Bjarni er fyrstur íslenskra leikara til að hljóta listamannalaun frá Alþingi, árið 1936, og brá hann sér þá til Kaupmannahafnar og Óslóar að uppfæra menntun sína á leiksviðinu. Hann dó árið 1942, aðeins 52 ára gamall.

Jóhann Pétursson gerði samning 1950 um að leika í kvikmyndinni "Prehistoric Women" eða Risinn og steinaldarkonan, sem sýnd var í Trípolíbíó 1953.

Jóhann risi, eins og hann var kallaður hér á landi, hafði þá atvinnu að koma fram með sirkusum víða um heim. Í ævisögu Jóhanns, "Of stór fyrir Ísland", segir frá því að honum hafi þótt launin fyrir þessa frumraun sína í Hollywood lág en þau voru 200 dollarar þegar umboðsmaðurinn var búinn að taka sitt. Hann hafði því ekki áhuga þegar reynt var að fá hann í fleiri kvikmyndir.

Jóhann lét þó tilleiðast síðar eða árið 1979 að leika í kvikmynd sem bar nafnið "Carny". Með aðalhlutverk í þeirri mynd fór Jodie Foster, sem þá var 16 ára.

Jóhann Svarfdælingur, eins og hann vildi frekar láta kalla sig, lék ekki í fleiri kvikmyndum en kom fram í heimildarkvikmyndinni "Being different".

Pétur Rögnvaldsson, eða Peter Ronson eins og bandarísku kvikmyndaframleiðendurnir vildu að hann nefndi sig meðan hann starfaði í Hollywood, var áberandi í íslensku þjóðlífi skömmu eftir 1960. Ekki aðeins fyrir að hafa leikið eitt aðalhlutverkið í Hollywood-myndinni Leyndardómar Snæfellsjökuls gerðri eftir sögu Jules Verne heldur líka vegna þátttöku sinnar í Ólympíuleikunum í Róm árið 1960. Keppti hann í 110 metra grindahlaupi og var fánaberi Íslands við opnunarhátíð leikanna. Lítið hefur spurst til hans síðan en með aðstoð Netsins hafðist upp á Pétri í bænum Tustin í Kaliforníu.

Pétur sagðist hafa komið nokkrum sinnum til Íslands eftir 1960 en þá hélt hann héðan til Bandaríkjanna til að fara í háskóla.

Kvikmyndaleikur Péturs hófst fyrir tilviljun þegar hann keppti í tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í Kaupmannahöfn 1955. Þar kynntist hann bandarískum íþróttamanni sem vann hjá Twentieth Century Fox og héldu þeir kunningsskapnum áfram. Skömmu eftir að Pétur flutti til Kaliforníu var kvikmyndafélagið að leita að leikurum í kvikmyndina Leyndardómar Snæfellsjökuls og var Pétur boðaður í prufu fyrir tilstilli ameríska vinarins. Höfðu menn í huga að hann léki leiðsögumann í myndinni, Hans Belker.

"Ég fór þrisvar sinnum í prufu áður en ég fékk hlutverkið og þurfti ég þá að vera ber að ofan," rifjar hann upp í símanum. Þeir sem muna eftir Pétri segja að hann hafi verið afar myndarlegur, ljóshærður og líkamsvöxturinn stæltur.

Pétur segir tökur myndarinnar, Leyndardómar Snæfellsjökuls, hafa gengið vel. "Mér líkaði vel við fólkið sem ég vann með. Og eftir að kvikmyndin var tekin til sýninga kom ég fram í nokkrum sjónvarpsþáttum til að kynna hana. Einnig fór ég í fleiri prufumyndatökur hjá Twentieth Century Fox sem bauð mér sjö ára samning."

Pétur segir samninginn ekki hafa verið viðunandi, auk þess hafi hann ekki haft gaman af athyglinni sem hann fékk sem kvikmyndaleikari. "Mig langaði frekar til að fá að reyna mig hinum megin við kvikmyndavélarnar, til dæmis sem framleiðandi," segir hann.

Peter Ronson lék ekki í fleiri kvikmyndum heldur snéri hann sér að námi í viðskiptum og skapandi skrifum. Að því loknu fór hann að vinna við tryggingar og síðar starfaði hann hjá sjóði sem fjárfestir í fasteignum, þar sem hann er sinn eigin herra. Hann vinnur við þá starfsemi enn. "Annars er ég sestur í helgan stein að hluta til og eyði drjúgum tíma í að leika golf, enda er ég í góðu líkamlegu ástandi, " segir hann þegar hann er spurður hvað hann hafi nú einkum fyrir stafni. Hann segir varla líða þann dag að hann hugsi ekki til Íslands. "Mér líkar vel við landa mína en þoli ekki veðráttuna," staðhæfir hann og hlær. Um einkahagi sína segir hann stoltur: "Ég er giftur yndislegri konu af norskum ættum og við eigum tvo uppkomna syni. Annar lýkur sérnámi í krabbameinslækningum næsta vor og hinn er að ljúka grunnnámi í læknisfræði. Ég er mikill fjölskyldumaður og nýt þess að vera með mínum nánustu."

Sirrý Geirs var fyrsta leikkonan til að banka upp á í Hollywood, en fullu nafni heitir hún Sigríður Geirsdóttir. Ferill hennar hófst þegar hún var kjörin fegursta stúlka Íslands í fegurðarsamkeppni í Tívolí árið 1959. Ári síðar tók hún þátt í keppninni "Miss International" á Langasandi og varð nr. 3 í þeirri keppni. Sá árangur opnaði henni dyr í Hollywood og starfaði hún þar sem leikkona í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum í þrjú ár. Rétt eftir að fegurðarkeppninni lauk barst Sirrý tilboð frá MCA, Musical Corporation of America, um að fá umboðsmann. Einn af fyrstu sjónvarpsþáttunum sem hún kom fram í heitir "Bachelor Father" og fjallar um piparsvein sem tekur systurdóttur sína að sér. Með aðalhlutverkið fór John Forsythe, en hann varð síðar frægur fyrir leik sinn í "Dynasty"-þáttunum. Einnig lék hún franska au-pair-stúlku í þáttaröðinni "Beverly Hillbillies" árið 1962. Beverly Hillbillies var valinn vinsælasti þáttur ársins í Bandaríkjunum þetta sama ár. Hún kom fram í þáttunum um Dr. Kildaire sem voru afar vinsælir og mörgum fleiri sjónvarpsþáttum. Þá lék hún í gamanþættinum "Truth and Consequences".

Sirrý segir að sér hafi þótt skemmtilegast að koma fram í þáttunum Beverly Hillbillies. "Þetta voru grínþættir og vann ég lengst við gerð þeirra eða í nokkra mánuði. Það voru margir um hituna þegar verið var að velja leikara í þættina. Ég fékk hlutverkið í gegnum umboðsmenn mína." Leiðin lá einnig inn í heim kvikmyndanna en þá var hún búin að taka sér leikaranafnið Sirry Steffen. Hún komst strax inn í leikarafélagið Screen Actors Guild, og fyrsta kvikmyndahlutverk hennar var hlutverk hjúkrunarfræðings Hitlers í samnefndri mynd. Richard Basehart fór með aðalhlutverkið. Næst bauðst henni hlutverk í myndinni, "The Crawling Hand", þar sem hún lék sænskan skiptinema í Kaliforníu og var þetta aðalkvenhlutverkið í myndinni og eina aðalhlutverkið sem hún fór með í kvikmyndum en hún lék á móti Rod Lauren. Þar á eftir fékk hún smáhlutverk í gamanmyndinni "Bedtime Story". Með aðalhlutverk í þeirri mynd fóru David Niven og Marlon Brando. Einnig kom hún fram í þáttum sem Groucho Marx stýrði og í þætti Arts Linkletters. Í þeim síðarnefnda söng hún franskt lag en hún hafði verið í söngnámi hjá George Griffith, þekktum söngkennara í Hollywood. Hún var einnig í kvöldnámi í leiklistarskóla í Hollywood hjá Jack Apland.

"Ég kunni vel við mig í heimi kvikmyndanna. Fólkið sem tilheyrði honum var skemmtilegt og yfirleitt ágætis fólk. Ég var 22 ára þegar ég kom til Hollywood. Þá var ég búin að ferðast um alla Evrópu með foreldrum mínum, hafði m.a. verið í skóla í Sviss þannig að ég var nokkuð veraldarvön. Tekjurnar sem ég hafði voru ágætar og hlutverkin hefðu orðið fleiri ef ég hefði verið innfædd. Ég tók þátt í samkvæmislífinu, fór oftast út með umboðsmanni mínum, bæði í leikhús og á frumsýningar á kvikmyndum. Ég kynntist mörgu frægu fólki eins og Melinu Mercouri og manni hennar Jules Dassin, sem gerði hina frægu kvikmynd "Never on Sunday". Næstu ár á eftir bjó Sirrý í New York og starfaði mest við gerð sjónvarpsauglýsinga. "Eftir haustið 1966 var ég með annan fótinn hér heima. Veturinn 1967 starfaði ég við tískusýningar í Acapulco í Mexíkó. Flutti síðan til Kaliforníu aftur þangað til ég fór til Austurlanda fjær, Taílands, Singapúr, Hong Kong og Filippseyja. Á þessum stöðum kom ég fram í sjónvarpsþáttum, á skemmtunum á þekktum hótelum sem söngvari og í sjónvarpsauglýsingum.

Síðan lá leiðin til Indlands og þaðan í kringum hnöttinn." Eftir að Sirrý flutti til Íslands, stundaði hún nám við HÍ og lauk BA-prófi í ensku og sænsku og starfaði um skeið sem framhaldsskólakennari.

Anna Björns fór að leika í kvikmyndum í Hollywood eftir að hafa starfaði sem fyrirsæta í Evrópu. Aðdragandinn var sá að Eileen Ford, sem rak eina þekktustu umboðsskrifstofu fyrirsætna í heiminum, bauð henni að koma til New York og vinna fyrir sig. Árið 1977 fór Anna í vikufrí til Los Angeles. Notaði hún tímann þar til að fara á fund Ninu Blanchard sem var einskonar Eileen Ford vesturstrandarinnar. Blanchard útvegaði henni vinnu sem varð til þess að vikufríið hennar varð að átján ára búsetu í Kaliforníu. Öðru hvoru vann hún einnig í New York hjá frú Ford.

Sem fyrirsæta starfaði Anna einkum við gerð leikinna sjónvarpsauglýsinga. Reyndi það á leikhæfileikana svo hún ákvað að nema leiklist. Hún segir að í LA sé völ á stórkostlegri kennslu í leiklist en hún lærði hjá mörgum góðum leiklistarkennurum eins og Stellu Adler og Uta Hagen, fyrir utan að sækja dans- og söngkennslu. Til gamans má geta þess að Anna var í tímum hjá Joan Darling með leikaranum Jon Voight.

Árið 1979 var ákveðið að gera framhald af kvikmyndinni "American Graffiti" í leikstjórn George Lucas. Myndin hafði notið mikilla vinsælda og verið stökkpallur margra leikara eins og Harrisons Fords.

Í handriti þeirrar myndar var að finna hlutverk stúlku af skandinavískum uppruna sem var eitt af aðalhlutverkunum. Anna fór í viðtal og fékk hlutverkið en mótleikari hennar var Paul LeMat.

Anna var ekki komin með græna kortið en fékk leyfi hjá yfirvöldum til að leika hlutverk íslensku stúlkunnar vegna þess að enginn bandarískur leikari gat tekið það að sér, því persónan í kvikmyndinni talaði eingöngu íslensku.

Þótt Anna fengi tilboð um kvikmynda- og sjónvarpsleik í kjölfarið þá segist hún ekki hafa getað tekið þeim vegna þess að hún hafði einungis atvinnuleyfi sem fyrirsæta. Fannst henni það miður því boltinn var tekinn að rúlla. Það bætti úr skák að Anna hafði mikið að gera sem fyrirsæta. Hún fékk einkasamning við fyrirtækin Vidal Sassoon og Noxema um að koma fram í auglýsingum þeirra.

Þegar hún svo loks fékk græna kortið þrem árum síðar fór hún að vinna í sjónvarpi og kvikmyndum. Eins og oft verður hlutskipti erlendra leikara segist hún einkum hafa fengið hlutverk "útlendinga" eins og Þjóðverja eða Skandinava, þótt hún væri næstum alveg laus við allan hreim. "Ég var iðulega gestaleikari og nokkrum sinnum gestastjarna þar sem ég lék þá eitt aðalhlutverkið í þáttunum. Ég lék m.a. tvisvar á móti Pierce Brosnan sem lék aðalhlutverkið í þáttunum "Remington Steele" og lék líka á móti honum í nokkrum auglýsingum.

Anna segir að það hafi verið skemmtilegt að fá tækifæri til að leika í sjónvarpsauglýsingum hjá færum leikstjórum eins Tony Scott sem gerði "Top Gun" og Adrian Lyne sem gerði "Fatal Attraction". Anna lék líka eitt aðalhlutverkið á móti Malcolm McDowell í mynd sem heitir "Get Crazy" og er grínmynd um tónlistariðnaðinn.

Hún lék í fleiri kvikmyndum og varð númer tvö í lokaúrtaki fyrir þekktar kvikmyndir eins og "Witness" og "Splash". "Það hefði óneitanlega verið skemmtilegt að fá tækifæri til að leika á móti Harrison Ford og Tom Hanks. En það var aldrei aðalmarkmið mitt í lífinu að vinna sem leikari í kvikmyndum. Þrátt fyrir það var þetta skemmtilegur bónus og ég er sátt við þessa ævintýralegu reynslu," segir hún. "Þegar ég var búin að lifa og starfa sem fyrirsæta og leikkona í yfir tíu ár, sem er í raun mjög langur tími í þessari atvinnugrein, var ég farin að missa áhugann. Ég var komin yfir þrítugt og farið að langa til að gera eitthvað annað. Enda miðast bæði fyrirsætustörf og kvenhlutverk í kvikmyndum að mestu leyti við ungt fólk. Það skemmtilega við þetta starf er hvað það er tilbreytingarríkt auk þess sem það er afar ánægjulegt að vinna með hæfileikaríku fólki, en þetta er tvímælalaust hörkuvinna.

Í Los Angeles fékk ég áhuga á kvikmyndagerð og gerði tvær heimildarmyndir á árunum 1980-1987. Önnur myndin heitir Ást og stríð og fjallar um íslenskar konur sem áttu í sambandi við erlenda hermenn. Hin heitir Brasilíufararnir og segir sögu Íslendinga sem fóru til Brasilíu en báðar voru myndirnar sýndar hér í sjónvarpi.

Undanfarin tíu ár hefur Anna rekið Yogastöð Vesturbæjar og síðastliðið vor útskrifaðist hún frá Listaháskóla Íslands sem grafískur hönnuður.

Gunnar Hansen er þekktastur fyrir að hafa leikið í hryllingsmyndinni "Texas Chainsaw Massacre" eða Keðjusagarmorðingjanum, sem var frumsýnd í Bandaríkjunum árið 1973. Myndin er þekkt fyrir blóðugri efnistök en áður þekktust í hrollvekjum. Telst myndin sígild í heimi hryllingsmynda og á enn marga aðdáendur víða um heim. Verið er að sýna endurgerð myndarinnar hér á landi.

Efnisþráður myndarinnar byggist á sannsögulegum atburðum og lék Gunnar fjöldamorðingjann "Leðurfés" sem bar jafnan andlitsgrímu gerða úr skinni fórnarlambanna.

Gunnar flutti með foreldrum sínum til Bandaríkjanna þegar hann var fimm ára og hefur lengst af búið þar ytra. Hlutverk morðingjans var frumraun hans. Þegar tilboðið barst nam hann ensku og stærðfræði í háskóla en frétti að það ætti að fara að gera hryllingsmynd á heimaslóðum hans, Austin í Texas. Fannst honum skárra af tvennu illu að leika í kvikmynd um sumarið en að vera atvinnulaus. Þótt hann hefði áður aðeins leikið í nokkrum skólaleikritum þótti frammistaða hans í myndinni það mögnuð að honum bauðst hlutverk í fleiri kvikmyndum, m.a. í kvikmynd Wes Cravens "The Hills Have Eyes", sem var vinsæl hryllingsmynd á sínum tíma. Hann hafnaði boðinu og lauk náminu.

Gunnar kvaðst aldrei hafa haft neinn sérstakan metnað til að leika í kvikmyndum. "Ég hef alltaf haft meiri áhuga á að einbeita mér að ritstörfum." En eftir að Gunnar lauk háskólanámi árið 1975 flutti hann frá Austin til Maine og byrjaði að skrifa. "Fyrst var ég ritstjóri tímarits. Innan árs fór ég í lausamennsku sem blaðamaður við hin ýmsu tímarit. Á endanum fór ég að skrifa bækur (nýjasta bók hans heitir "Islands at the Edge of Time") og gera heimildarmyndir, sem ég starfa við núna."

Fyrir fimmtán árum byrjaði Gunnar að leika aftur í kvikmyndum. "Tilboðin héldu áfram að berast," segir hann til skýringar, "og ég verð líka að viðurkenna að ég hef dálítið gaman af kvikmyndaleik."

Gunnar hefur einkum haldið sig við hryllingsmyndir og hefur leikið í myndum eins og "Rachel's Attic", "Hellblock 13", "Freakshow", "Mosquito" og "Hollywood Chainsaw Hookers". Þekktasta myndin af þessum er líklega "Mosquito". Sú nýjasta var frumsýnd nýlega og heitir "The Next Victim". Hann hefur þó aldrei lært leiklist í skóla, fyrir utan tilsögn á háskólaárunum.

Gunnar segir hlutverkið í Keðjusagarmorðingjanum hafa verið vissan áhrifavald í lífi sínu. "Vegna þátttöku minnar í myndinni hef ég verið beðinn að leika í kvikmyndum, sem ég annars hefði aldrei verið beðinn um! Ég kem líka fram á "hryllingssamkomum" víða í Bandaríkjunum þar sem eru samankomnir aðdáendur hryllingsmynda og í draugahúsum, sem rekin eru í viðskiptalegum tilgangi hér í Bandaríkjunum. Ég fer líka nokkrum sinnum á ári til Evrópu í sömu erindagjörðum. Tilgangurinn er að tala við fólk og gefa eiginhandaráritanir. Ef ekki væri fyrir þennan feril minn væri líf mitt mun rólegra.

"Ég hef gaman af að leika í kvikmyndum, það er svo ólíkt mínu "venjulega" lífi sem er fremur kyrrlátt og felst í að sitja einn fyrir framan tölvu og vinna. Kvikmyndaleikurinn krefst þess hins vegar að ég dvelji tímabundið fjarri heimili mínu og ég þarf að vinna mjög náið með öðru fólki."

Þessa stundina er ég að vinna að heimildarmynd sem ég hef skrifað handritið að og leikstýri, vinnuheitið er "Ósýnilegur" og fjallar um samband hvítra og indíána í Maine. Ég hef nýlega skrifað ásamt fleirum handrit að hryllingsmynd, "The Last Horror Picture Show", tökur á myndinni hefjast í janúar.

Gunnar segist enn hafa mjög sterk tengsl við Ísland. "Frændfólk mitt býr á Íslandi og ég reyni að fara þangað í heimsókn árlega.

Ég hef auðvitað ákveðinn metnað sem leikari þó áhugasvið mitt tengist fremur ritstörfum. Mig mundi langa til að leika í stórmynd og ekki síður að leika í víkingamynd."

María Ellingsen var stödd í New York þegar fór af stað atburðarás sem endaði með því að hún flutti til Los Angeles þar sem hún lék bæði í sjónvarpi og kvikmyndum. Hún hafði verið að vinna sem leikkona hjá Þjóðleikhúsinu fram að því en þegar hlé varð á starfsemi leikhússins vegna viðgerða hélt hún til New York. Þar vann hún sem aðstoðarleikstjóri við leikrit, sem skólinn hennar, New York University, var að setja upp en þaðan lauk hún námi í leiklist. María hafði leikið í þremur íslenskum kvikmyndum áður en hún fór utan.

Í New York var hún svo heppin að fá strax umboðsmann sem sendi hana í prufutökur. "Mér var sagt að ég gæti átt von á að þurfa að reyna fyrir mér í eitt ár áður en ég fengi hlutverk." "Ég var því mjög afslöppuð þegar ég fór í allra fyrstu prufuna sem var fyrir sápuóperuna "Santa Barbara" og því óundirbúin þegar mér var boðið hlutverkið.

En ég ákvað að taka tilboðinu af því mér fannst ekki úr vegi að fá sjónvarpsreynslu og atvinnuleyfi í leiðinni."

Ekki leið á löngu þar til María var farin að vinna hjá NBC-sjónvarpsstöðinni og borða í mötuneytinu í hádeginu með stjörnum eins og Jay Leno. Þetta var árið 1990.

Hún kom inn í sjónvarpsþættina sem hin austur-þýska Katarína Reicher og lék í 170 þáttum á rúmu ári. María segir söguþráð þáttanna hafa helst líkst farsa því hann hafi verið með ólíkindum.

Þegar þætti Maríu í "Santa Barbara" lauk fluttist María á hestabúgarð fyrir utan Los Angeles, í lítinn kofa upp í fjöllum. "Þetta var yndislegur tími eftir þessa ströngu sjónvarpstörn. Nú tóku við prufutökur fyrir kvikmyndir. Ég fékk hlutverk í þrem ólíkum myndum auk þess að komast oft í "úrslit".

Ég ferðaðist um landið þvert og endilangt við upptökur á þessum myndum." Glæpamyndin Curacao var tekin á eyju í Karíbahafinu. Leikstjórinn var ástralskur en aðalhlutverkin í höndum hinna þekktu leikara George C. Scott og Williams Petersens.

Í ádeilumyndinni "The New Age" eftir Michael Tolkin, sem skrifaði handritið að "The Player", lék hún með Judy Davis og Peter Weller. Og loks var skrifað fyrir hana hlutverk í Disney-myndina "The Mighty Ducks", íshokkímynd fyrir unglinga, þar sem óvinaliðið var íslenskt. Lék hún forsprakka liðsins á móti leikaranum Emilio Esteves. En þá barst henni tilboð að heiman um að leika Agnesi í samnefndri kvikmynd. "Það er ekki á hverjum degi sem kvikmynduð er saga konu og þessi saga er ansi mögnuð," segir María. "Ég sló því til. Þegar þeim tökum lauk fann ég að ég var tilbúin til að koma heim þó að umboðsmönnum mínum í Hollywood hafi fundist ég rétt vera að byrja. Ég var farin að sakna leikhússins, íslenskunnar og þess að vera heima. En þessi Hollywood-tími var skemmtilegur og þetta var ómetanleg reynsla fyrir mig sem unga leikkonu.

Undanfarin ár hefur María leikið hér á landi á leiksviði, í kvikmyndum, hér og erlendis, stjórnað sjónvarpsþætti á Stöð 2 og rekið eigið leikhús.

Jóhanna Jónas datt í lukkupottinn þegar hún útskrifaðist sem leikari frá School for the Arts, í Boston University vorið 1990. Þegar hún og skólafélagar hennar voru með kynningu á sjálfum sér í New York í tilefni af útskriftinni, kom bandarískur umboðsmaður auga á Jóhönnu. Fljótlega fékk hún tilboð um hlutverk í sápuóperunni "Loving" sem tekin var upp í New York. Lék hún sænska eiginkonu harðsvíraðs mafíósa.

Jóhanna var við tökur myndaflokksins í hálft ár en þá flutti hún til Los Angeles og fór að vinna þar við leikhús. Fljótlega eftir að hún flutti til LA fékk hún hlutverk í framhaldsmyndaflokki sem hét "Parker Lewis Can't Lose". Þetta voru svona öðruvísi gamanþættir, mjög skemmtilegir og spennandi og nutu töluverðra vinsælda," segir hún um efnistökin. "Þeir fjölluðu um unglinga og voru svipaðir að framsetningu og framhaldsmyndaflokkurinn "Malcolm in the Middle", sem sýndur er á Skjá 1.

Ég lék kærustu hins stóra og stæðilega Kubiacs. Hlutverkið var ofsalega skemmtilegt, hálf flippað og frábrugðið hinum dæmigerðu kvengerðum sem verið var að sýna í sjónvarpi. Hafði ég meira frelsi í túlkun á þessu hlutverki en ég hafði í "sápunni" "Loving"." Einnig lék Jóhanna í leikhúsi og stuttmyndum.

Jóhanna segir að það hafi verið ævintýralegt að kynnast lífinu í kvikmyndaverinu og því magnaða upptökuferli sem á sér stað í kvikmyndum í LA auk þess að kynnast lífinu utan vinnunnar. "Ég lenti í ýmsu í þessum bransa og kynntist bæði góðum og slæmum hliðum hans," segir hún. "Ég komst að því hvað yfirborðsmennskan getur verið skelfileg. Það sem gaf manni trú á þennan iðnað var að maður kynntist líka fólki sem var með miklar hugsjónir og var að fást við alvöru hluti." Jóhanna segir það hafa verið erfitt að kljást við yfirborðsmennskuna. "Ég var til dæmis beðin um að fylla upp í hrukkur sem ég vissi ekki einu sinni að ég væri með, en ég var aðeins 25 ára gömul. Svo var þessi eilífa krafa um megrun og farið fram á að leikkonurnar fylltu brjóstin af silíkoni. Á hinn bóginn heillaðist ég af fagmennskunni sem átti sér stað í góðum verkefnum. Ég naut þess mjög að kynnast henni."

Hún segir að sér hafi liðið vel á þessum tíma og hefði hún gjarnan viljað vera lengur og kynnast þeirri hlið á Hollywood betur.

"Ég var frekar ung þegar ég byrjaði að leika ytra og tók út mikinn þroska á þessu tímabili og hefur mér alltaf fundist þetta ómetanleg reynsla." Jóhanna segist hafa hætt þegar hún fékk ekki atvinnuleyfið framlengt. Hún ákvað að koma heim að vinna við það sem hún elskar að gera eins og hún orðar það.

Jóhanna hefur síðan leikið í íslenskum leikhúsum. Síðastliðinn vetur lék hún í leikritinu Beyglur með öllu sem sett var upp í Iðnó. Nú er hún með öðrum að þýða leikritið svo hægt sé að fara með það til dæmis á leiklistarhátíðir. Þessa stundina er hún að æfa fyrir söng- og leikdagskrá sem verið er að færa upp á Kaffi Reykjavík.

Ylfa Edelstein lék í fjórum þáttum af bandarísku sjónvarpsþáttunum The Education of Max Bickford sem sýndir voru á Stöð 2 í fyrra. Aðalleikarar voru Richard Dreyfuss Óskarsverðlaunahafi og Marcia Gay Harden sem vann Óskarsverðlaun fyrir "Pollock". Ylfa lék jógakennara Dreyfuss sem kom til hennar og vildi tileinka sér heilbrigðara líferni en nennti ekki mikið að hreyfa sig.

Ylfa fluttist til Bandaríkjanna árið 1987 eftir að hún lauk námi við Menntaskólann við Sund. Hún byrjaði í leiklistarnámi í St. Louis en fór svo til New York í tveggja ára leiklistarnám í skólanum The Actor's Space. Hún fluttist svo til Los Angeles þar sem hún hefur búið í rúm tíu ár og unnið í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum.

Ylfa hefur komið fram í ýmsum sjónvarpsþáttum eins og "The HoopLife" sem voru teknir upp í Kanada og fjölluðu um körfuboltalið, lék Ylfa íþróttasálfræðing í þáttunum. Þá hefur hún leikið í þáttunum "Law & Order C.I." þar sem hún fór með hlutverk lögfræðings í einum þætti en lék rússneska hjákonu í öðrum. "Það er miklu vænlegra að leika lögfræðinga en sakborninga í Law & Order því það eru meiri líkur á að þeim bregði aftur fyrir í þáttunum en sakborningarnir hverfa af sjónarsviðinu um leið og dæmt er í máli þeirra," segir Ylfa sposk. Hún hefur nýlokið við að leika í kvikmyndinni Dís þar sem hún leikur bandarískan ljósmyndara sem hittir aðalsöguhetjuna.

Hún segist lifa þannig lífi að hún viti aldrei hvað gerist næst. "Ef fólk hefur rétta innstillingu fyrir slíku lífi getur það verið spennandi. Líf leikarans gengur út á að vera tilbúinn, líkamlega, tilfinningalega og hugarfarslega þegar tilboðið kemur. Ég sæki því reglulega leiklistartíma og les mikið t.d. Shakespeare, ný og gömul leikrit, ljóð til að næra sálina og stunda jóga til að efla einbeitinguna og líkamlegan styrk."

Ingvar E. Sigurðsson lék nokkuð veigamikið hlutverk í stórmyndinni K-19: The Widowmaker þar sem aðalleikararnir eru ekki af verri endanum, þeir Harrison Ford og Liam Neeson. Myndin er framleidd af Sigurjóni Sighvatssyni og lýsir óhugnanlegu óhappi um borð í sovéskum kjarnorkukafbáti á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 4. júlí 1961. Ingvar þótti standa sig vel í hlutverki sínu en hann lék einn af áhöfninni. "Verið var að leita að leikurum í hlutverk sovéskrar áhafnar kafbátsins og var ég beðinn um að koma í prufu til LA og fór ég í eina slíka. Í henni fékk ég í hendurnar texta eins karakters úr myndinni og las hann á ensku fyrir framan myndavél. Nokkrum mánuðum síðar var hringt og spurt hvort ég gæti komið daginn eftir, því þá áttu tökur að fara að hefjast. Ég neitaði, því ég var að vinna í leikhúsinu. Síðan æxlaðist það svo að við vorum ekki alveg tilbúin að sýna leikritið. Var ákveðið að gefa mér lausan tauminn og frumsýna seinna og var ég þakklátur fyrir það."

Leið Ingvars lá þá til Kanada þar sem kvikmyndin var tekin upp að hluta til. "Ég fór í tólf daga kafbátaskóla í Halifax, sem þjálfar að öllu jöfnu kafbátahermenn. Þar skoðuðum við dísilkafbát og hlustuðum á fyrirlestra um það hvernig kjarnorkukafbátar starfa auk þess sem okkur voru sýndar brunaæfingar fyrir kafbáta. Nokkrum vikum síðar fór ég í búningamátun og tökur hófust."

Hann segir það góða reynslu og frábært að kynnast kvikmyndagerð að Hollywood-sið. "Segja má að það sé svipað að leika í kvikmynd hvar sem er í heiminum en aðalmunurinn felst í fjármununum sem lagðir eru í kvikmyndirnar og þar af leiðandi hve margt fólk vinnur við tökurnar.

Unnið var við mjög þröngar aðstæður.Við vorum að leika inni í nákvæmri eftirlíkingu af kafbáti. Við myndatökurnar var oft öll áhöfnin inni í einum hluta kafbátsins og var hitinn þá rosalegur og menn svitnuðu mikið og var förðunarfólkið sífellt að þerra andlitið á okkur. Fleira kom á óvart eins og að handritið var að breytast dag frá degi. Maður hefði haldið að í svona dýrri framleiðslu væri allt á hreinu."

Ingvar hefur verið að leika í Bretlandi í leikriti Vesturportsins, Rómeu og Júlíu, sem var fært upp í Old Vic-leikhúsinu í London við góðan orðstír. Ingvar er einn af stofnendum Vesturports.

Berglind Ólafsdóttir er nýjasta "Hollywoodstjarnan". Hún er tuttugu og sex ára og býr í Beverly Hills ásamt eiginmanni sínum. Berglind, sem hefur búið sex ár í Bandaríkjunum, fer með hlutverk í nýjum sjónvarpsþætti sem hóf göngu sína í Bandaríkjunum á dögunum. Þátturinn heitir "Style Court" eða Tískurétturinn og gengur út á að draga annálaða tískuþrjóta fyrir rétt þar sem viðkomandi er tekinn í gegn fyrir eindæma smekkleysi í klæðaburði og hann dæmdur til útlitsbreytinga. Berglind leikur réttarvörð, sem sér um að halda friðinn í réttarsalnum.

Hún kemur einnig fram sem annar stjórnandi í þættinum "Cram" hjá Game Show Network. Berglind er nýkomin til Hollywood frá New York þar sem hún hafði leikið aðalhlutverkið í sjónvarpsauglýsingu fyrir Wrigley's-tyggjóframleiðslufyrirtækið. "Ég hef ekki mikinn áhuga á að leika í sjónvarpsauglýsingum en geri undantekningar ef auglýsingin er vönduð og ég fæ tækifæri til að leika."

Hún segist vera búin að vera í leiklistarnámi hjá Larry Moss Studio. "Ég hef verið í stöðugri vinnu að undanförnu," segir hún og lætur vel yfir sér.

Berglind hefur farið með hlutverk í Disney-myndunum "Animal" og "Hot Chick" með Rob Schneider og "Master of Disguise" með Dana Carvey og komið fram í sjónvarpsþættinum "Scare Tactics" sem sýndur hefur verið á Stöð 2. Þá lék hún ekki alls fyrir löngu í tveim þáttum sem heita "Watching Ellie", aðalleikarinn í þeim þáttum er Julia Dreyfuss sem lék Diane í Seinfeld-þáttunum. Þá hefur hún leikið í þáttunum "According to Jim" með Jim Belushi í aðalhlutverki, svo eitthvað sé nefnt.

Berglind, sem auk eigin skírnarnafns hefur notað listamannanöfnin Burgland Icey og Icey Berglind, hefur nokkrum sinnum tekið þátt í Óskarsverðlaunaathöfninni og sama á við um Emmy-verðlaunaafhendinguna. Á síðustu Emmy-verðlaunahátíð lék hún atriði á móti leikaranum Brad Garett, sem leikur bróðurinn í sjónvarpsþáttunum "Everybody Loves Raymond". "Það var ánægjuleg reynsla enda Brad fínn náungi," segir hún. "Nú ætla ég að taka mér nokkurra daga frí og byrja svo aftur á að fara í prufur. Ég vonast til að fá einhver spennandi hlutverk." he@mbl.is

Heimildir: Líf í skáldskap, höf. Ólafur Ragnarsson. Litróf lífsins, höf. Anna Kristine Magnúsdóttir.

Of stór fyrir Ísland, höf. Jón Hjaltason.

Eftir Hildi Einarsdóttur