Bjarni Bjarnason
Bjarni Bjarnason
Vaka-Helgafell 2003, 268 bls.

TITILL þessarar nýju bókar Bjarna Bjarnasonar er tvíræður: Eintölu- og fleirtölumynd orðsins Andlit er sú sama og þegar við bætist að myndin framan á bókarkápu er af grímu eða dulargervi er ekki laust við að lesandi fyllist grunsemdum um að hér sé ekki allt sem sýnist. Þegar bókin er opnuð blasir við á titilsíðu undirtitillinn "skáldævisaga" og gaman er að sjá að þetta snjalla tegundarheiti sem Guðbergur Bergsson valdi sjálfsævisögu sinni er komið til að vera. Hér er sem sagt um að ræða skáldverk sem byggist á ævi höfundar sem reynist hafa frá ýmsu að segja þótt ekki sé hann aldraður mjög (f. 1965). Reyndar er mikil gróska í íslenskri skáldævisagnaritun um þessar mundir og má í því sambandi benda á nýútkomnar bækur Þráins Bertelssonar, Jóns Kalmans Stefánssonar og Lindu Vilhjálmsdóttur, auk bókar Bjarna, en þessar bækur eiga það sameiginlegt að í þeim stefna höfundar saman atburðum úr eigin ævi og listrænni sýn og nota persónulega reynslu sem efnivið til skáldlegrar úrvinnslu.

Andlit Bjarna Bjarnasonar samanstendur af mörgum mislöngum frásögnum þar sem sögumaður bregður upp atvikum frá tímabili frá því hann er sjö ára gamall og þar til hann stendur á þrítugu. Þótt hann sé sjálfur ætíð miðja frásagnarinnar fjalla þær margar hverjar ekki síður um annað fólk; ættingja, kunningja og ýmsa aðra sem hann kemst í kynni við. Það má því segja að hér sé brugðið upp svipmyndum eða skyndimyndum af fólki sem margt hvert verður afar eftirminnilegt í meitlaðri frásögn Bjarna sem tekst að gæða sumar persónulýsingarnar allt að því goðsagnakenndum víddum, þegar honum tekst best upp. Hér má nefna mynd hans af öldruðum bræðrum á Eyrarbakka, og myndir hans af föðurafa og móðurömmu, svo dæmi séu tekin. En í gegnum allar skyndimyndirnar af öðru fólki og samskiptum sögumanns við það framkallast smám saman að sjálfsögðu einnig sú mynd af honum sjálfum sem er kannski grundvallar(hug)mynd bókarinnar: Portrett af listamanninum sem ungum manni eða eins og næstsíðasta frásögn bókarinnar heitir: Síðasta portrett af neðanjarðarkúnstner. Hér er því lýst hvernig kúnstnerinn verður til og frásögninni lýkur að sjálfsögðu áður en hann er orðinn verðlaunaður höfundur, því enginn getur kallast neðanjarðarkúnstner eftir að hann hefur tekið við bókmenntaverðlaunum - og það oftar en einu sinni.

Sagan af neðanjarðarkúnstnernum hefur einnig öll einkenni goðsögunnar þótt ekki efist ég um sannleiksgildi hennar: Hér höfum við fátækan draumóramann sem hírist í köldum risherbergjum á nóttum en skrifar í hlýju Landsbókasafnsins á daginn. Verkum hans er ítrekað hafnað hjá öllum bókaútgáfum borgarinnar og í lok bókar hefur hann sætt sig við þá staðreynd að samfélagið sem hann tilheyrir er "samfélag hinna lágstemmdu drauma". En hann heldur áfram sinni draumasmíði og þegar frásögn lýkur er hann að vinna í Borginni bak við orðin, en fyrir það verk fékk Bjarni Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 1998. Á tímabili býr hann í risherbergi sem tilheyrir sögufrægri íbúð Þórbergs Þórðarsonar og frábær er frásögnin af því þegar draugur sem kannski er Þórbergur afturgenginn og kannski ekki birtist honum. Það má teljast merkileg tilviljun að í tveimur af skáldævisögum ársins má sjá tengingar við Meistara Þórberg (sem er einmitt upphafsmaður þessa bókmenntaforms á Íslandi) en bæði Bjarni og Þráinn Bertelsson vísa beint og óbeint til Þórbergs og verka hans.

Orðið "meitlaður" sem notað var hér að ofan um frásögn Bjarna er ekki valið af handahófi því stíll hans í þessari bók er einmitt það; knappur, gagnorður og útpældur. Hér mætti grípa til klisjunnar "engu orði ofaukið" og væri þá engu logið. Aðalstílbragð textans er úrdráttur, sagt er frá stórviðburðum á allt að því óhugnanlega hlutlægan hátt. Þess konar frásagnarháttur er frekar í anda Íslendingasagna en fyrri skáldsagna þessa höfundar. En Bjarni hefur meistaratök á þessum frásagnarhætti ekki síður en hinni ljóðrænu fantasíu Borgarinnar á bak við orðin og Næturvarðar kyrrðarinnar eða hinni sprellandi fáránleikakómedíu Mannætukonunnar.

Á baksíðu bókarkápunnar er að finna þessa setningu: "Hér segir Bjarni Bjarnason frá litríkri æsku á áttunda áratugnum, hvernig hann elur sig upp að mestu leyti sjálfur, þvælist milli staða innanlands og utan [...]". Ég veit ekki hvort ég get tekið undir fyrsta hluta setningarinnar. Æska sögumanns er vissulega sérstök en orðið "litríkt" hefur að mínu mati jákvæða skírskotun sem varla er viðeigandi þegar í hlut á barn sem "elur sig upp að mestu leyti sjálft", ef að líkum lætur vegna vanrækslu og sinnuleysis lánlausra foreldra. Mér finnst frekar hanga skuggi yfir þeirri bernsku sem lýst er. Hér er sagt frá dreng sem hrellir kennarann sinn þá fáu daga sem hann skrópar ekki í skólanum, þvælist í bænum og hnuplar úr búðum, allt án afskipta foreldra sem spyrja engra spurninga. Hann fréttir af skilnaði foreldra sinna fyrir tilviljun þegar hann kemst að því að faðir hans hefur búið annars staðar í marga mánuði. Hann ákveður að flytja til föður síns til Færeyja þegar hann er tíu ára og móðirin reynir ekki að telja honum hughvarf. Gott dæmi um úrdrátt í frásögninni er þegar hann lýsir sjö ára aðskilnaði frá móður sinni á þennan hátt: "Vorið þegar ég var sautján ára hafði ég ekki náð að spjalla við hana nema í síma í sjö ár" (141). Annað gott dæmi er eftirfarandi frásögn:

"Annars var pabbi útgerðarmaður, átti tólf tonna bát sem hét Kátur. Mig hafði oft langað í siglingu á þeim bát en var ævinlega skilinn eftir í landi. Svo gerist það einn morgun að hann spyr hvort ég vilji ekki koma með í túr. Ég veit ekki hvers vegna, en ég afþakkaði. Hann reyndi að ýta á eftir mér, en mér varð ekki haggað. Það síðasta sem ég myndi gera væri að fara í þessa sjóferð. Í þessari ferð sökk Kátur, með svarthvítu fjölskyldumyndina frammi í lúkar, eins og til var ætlast af honum, og faðir minn fékk tryggingapeningana. Þurfti ekki að hafa barn með í túrnum til að sannfæra dómarana." (37)

Í meitluðum frásögnum eins og þessari er að sjálfsögðu sögð mun stærri saga, eða með öðrum orðum er mikill undirtexti í frásögninni sem varla fer framhjá nokkrum lesanda. Annars staðar segir hann um föður sinn, sem hann deilir með heimili öll unglingsárin: "[...] hann var mér í raun og veru gersamlega framandi. Ég talaði aldrei við þennan mann, gerði aldrei neitt með honum, við hittumst ekki vikum saman þótt við byggjum í sama húsi." (101-2)

En frásagnir Bjarna eru þó oftast hlaðnar miklum húmor og allnokkurri íróníu sem hvoru tveggja er komið á framfæri með hnitmiðuðum einfaldleika. Gott dæmi um það fyrrnefnda er þegar hann límist óvænt fastur við eldhúsgólfið heima hjá sér eftir að hafa stigið ofan í sykurblöndu ættaða úr bruggframleiðslu föðurins. "Sykurblandan hafði sullast niður, þornað á gólfinu og skapað þetta líka fyrirtaks lím." Þar sem hann stendur pikkfastur og horfir á grænar og brúnar flöskur sem innihalda bruggið tekur hann "þá ákvörðun að vera bindindismaður til æviloka. Annars gæti svo farið að ég kæmist aldrei úr sporunum í lífinu". (34-5) Háðslegan blæ fær frásögnin hins vegar til að mynda þegar fjallað er um samskipti neðanjarðarskáldsins við útgefendur - og ekki að ósekju.

Í upphafi bókarinnar lýsir sögumaður flækingskettinum Gullbrandi Högnasyni sem hann finnur svangan og illa til reika úti á götu og tekur með sér heim. Í táknrænni mynd sem dregin er upp þarna strax í upphafi er sálinni líkt við þennan kött og sögumaður nefnist eftir það Gullbrandur Högnason. Forsenda þessarar samlíkingar verður æ ljósari eftir því sem líður á verkið. Sögumaðurinn Gullbrandur/Bjarni er nokkurs konar flækingsköttur; sjálfstæður, stoltur og varkár í samskiptum sínum við heiminn. Hann lendir í ýmsu, fær ýmsa byltuna en kemur alltaf standandi niður. Og líkast til hefur hann níu líf.

Andlit er bók sem kemur skemmtilega á óvart og það er hreint og beint furðuleg tilviljun hversu miklar tengingar má finna með henni og áðurnefndu verki Þráins Bertelssonar. Ég leyfi mér að spyrða þær saman hér í lokin með því að fullyrða að íslenska skáld/sjálfsævisagan sé að taka stórt listrænt þroskastökk um þessar mundir, það bera þessar tvær frábæru bækur vitni um.

Soffía Auður Birgisdóttir