Það kemur ekki á óvart að Oddur önd skuli komast í kast við laganna verði í mannheimum.
Það kemur ekki á óvart að Oddur önd skuli komast í kast við laganna verði í mannheimum.
Leikin og teiknuð á ensku og með íslenskri talsetningu. Leikstjórn: Joe Dante. Handrit: Larry Doyle, John Requa, Glen Ficarra. Kvikmyndatökustjórn: Dean Cundey. Tónlist: Danny Elfman.

Leikin og teiknuð á ensku og með íslenskri talsetningu. Leikstjórn: Joe Dante. Handrit: Larry Doyle, John Requa, Glen Ficarra. Kvikmyndatökustjórn: Dean Cundey. Tónlist: Danny Elfman. Aðalleikendur: Brendan Fraser, Jenna Elfman, Timothy Dalton, Steve Martin, Heather Locklear. Íslensk talsetning: Leikstjóri: Júlíus Agnarsson. Þýðing: Margrét Örnólfsdóttir. Aðalraddir: Bergur Þór Ingólfsson, Hjálmar Hjálmarsson, Hilmir Snær Guðnason, Steinn Ármann Magnússon, Sigrún Edda Björnsdóttir. 90 mínútur. Warner Brothers. Bandaríkin 2003.

FJANDVINIRNIR Kalli kanína/Bugs Bunny og Oddur önd/Daffy Duck, eru búnir að elda grátt silfur svo lengi sem harðfullorðnir bíógestir muna. Þeirra vígvöllur var tjaldið í Austurbæjarbíói í stuttmyndum á undan aðalmyndinni og fóru oft með sigur af hólmi í keppninni um skemmtanagildið. Allavega brugðust þær sjaldan eða aldrei, frekar en líflegar teiknimyndafígúrur Looney Tunes þar sem þeir Kalli og Oddur voru fremstir stórstjarnanna. Undanfarna áratugi hefur þeim farnast vel á Cartoon Network og þótti Warner Bros-kvikmyndaverinu tímabært að viðra sínar fornfrægu hetjur í bíó.

Looney Tunes: Aftur á kreik er sambland leikinna og teiknaðra persóna í annars venjulegri, leikinni kvikmynd. Slík flétta kom fyrst fram á sjónarsviðið í Hver skellti skuldinni á Kalla kanínu? - Who Framed Roger Rabbit?, og hefur skotið upp kollinum af og til síðan.

Ekki blæs byrlega fyrir Oddi í myndarbyrjun, er rekinn á dyr af Warner-bræðrum er hann mótmælir örmu hlutskipti sínu á tjaldinu, þar sem hann verður jafnan að lúffa - andlega og líkamlega, fyrir gulrótarætunni Kalla. Öryggisvörðurinn Dj (Brendan Fraser) fær pokann sinn á sama tíma, en hann er lánlítill sonur aðalnjósnamyndastjörnu Warner-bræðra, Damian Drake (Timothy Dalton). Oddur og Dj komast að því að Drake, sem er raunverulegur spæjari í einkalífinu, er kominn í hendurnar á Stjórnarformanninum (Steve Martin), ómenni sem stýrir sínu illa stórfyrirtæki ACME, og stefnir hraðbyri að heimsyfirráðum.

Leikurinn berst til Las Vegas þar sem björgunaraðgerðirnar hefjast og líður ekki á löngu uns allt gamla Looney Tunes-gengið er komið til sögunnar.

Teiknifígúrurnar bjóðast bæði í enskri og íslenskri talsetningu, undirr. sá þá íslensku, sem er upp og ofan. Snúin, erfiða þýðinguna og framsetningu leikaranna skortir persónulegan sjarma kjaftaska Looney Tunes. Íslensku leikararnir fara oftar en ekki á kostum í raddsetningum hefðbundinna teiknimynda en berjast að þessu sinni við heimsfræg og ótvíræð einkenni furðufígúra Warners: stamandi, málhaltar, frussandi út úr sér orðunum og húmorinn skilar sér ekki á fullnægjandi hátt. Svipaður vandi blasir við þýðandanum sem nær heldur ekki rétta tóninum en hluti af vandamálinu er vissulega misfyndið handrit og nánast ósnertanleg sérkenni sem glutrast eflaust niður í flestum þýðingum úr enskunni.

Mennskir leikarar standa sig dável og sýna viðeigandi látbragðsleik í teiknimyndastíl. Joe Dante (Gremlins) keyrir myndina áfram með miklum látum og nær furðu vel framgangsmáta teiknimyndanna góðu. Ræður vel við að flétta saman leiknum og ímynduðum persónum og nýtur hjálpar leikaranna, ekki síst Frasers og Martins. Sum atriðin eru bráðfyndin, þess á milli stendur maður handritshöfundana að hugmynda- og húmorsleysi sem setur fullmikinn svip á annars vel þegna endurkomu gamalla og góðra vina.

Sæbjörn Valdimarsson