Sjá má áhrif úr ýmsum áttum varðandi byggingarstíl hússins, en ekki er vitað hver teiknaði það, segir greinarhöfundur. Lögun hússins á horninu og skraut við þakskegg er með klassískum áhrifum. Húsið meðfram Klapparstíg ber áhrif af sveitserstíl. Fyrir ofan
Sjá má áhrif úr ýmsum áttum varðandi byggingarstíl hússins, en ekki er vitað hver teiknaði það, segir greinarhöfundur. Lögun hússins á horninu og skraut við þakskegg er með klassískum áhrifum. Húsið meðfram Klapparstíg ber áhrif af sveitserstíl. Fyrir ofan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga hússins er samofin sögu Laugavegar. Þar var veitingahúsið Fjallkonan og um árabil var húsið í eigu Náttúrulækningafélagsins. Freyja Jónsdóttir fjallar hér um sögufrægt hús við Laugaveg.
Hinn 28. nóvember 1903 fór fram fyrsta virðing á húsi sem Pétur Hjaltested reisti sér á hornlóð Laugavegar og Klapparstígs. Aðalhúsið, sem er hornhús, er byggt af bindingi, klætt að utan með plægðum 5/4" borðum, pappa, listum og járni þar yfir.

Á fyrstu hæð eru tvö herbergi og sölubúð, allt þiljað að innan og búðin með pappa á veggjum og striga og pappa í lofti. Í henni er tvísett búðarborð með glerkössum og á veggjum eru fimm skápar með fimmtíu skúffum og glerhurðum sumstaðar að ofan. Í búðarplássinu eru þrír ofnar.

Á efri hæðinni eru fjögur íbúðarherbergi og gangur. Þrjú af herbergjunum eru með striga og pappa á veggjum og loftum, þar er allt málað. Þar eru þrír ofnar og ein eldavél. Á þriðju hæð eru þrjú íbúðarherbergi, eldhús, búr og gangur sem allt er í smíðum. Þar eru þrír ofnar og ein eldavél.

Sunnan við aðalhúsið, upp með Klapparstíg, er hliðarbygging, byggð af sama efni og aðalhúsið. Á fyrstu hæð er eitt íbúðarherbergi og tveir gangar, allt þiljað og annar gangurinn er með pappa á veggjum og lofti. Á annarri hæð eru tveir gangar, þiljaðir og málaðir.

Við suðurhliðina á þessari byggingu er hliðarbygging, byggð af sama efni og aðalhúsið. Þar eru á fyrstu hæðinni þrjú herbergi, þiljuð og tvö af herbergjunum eru með pappír á veggjum en striga og pappír í loftum. Þar er allt málað og tveir ofnar til upphitunar og ein eldavél. Á þriðju hæð eru fimm íbúðarherbergi og gangur, þiljuð og máluð.

Sunnan við þetta hús er bygging úr steini að neðan en binding að ofan, klætt að utan með 5/4" borðum og pappa og járni yfir. Það er með járnþaki á plægðri 5/4" borðasúð, með pappa í milli. Niðri í þessu húsi er fjárhús og heygeymsla, uppi er hólfað í þrjú rými.

Tvílyft viðbygging

Árið 1917 er búið að byggja tvílyfta viðbyggingu á lóðarmörkum. Hún er byggð af bindingi, klædd að utan með borðum á tvo vegu, hinir tveir útveggir eru eldvarnarveggir. Viðbyggingin er með járnþaki á langböndum. Niðri eru geymsluklefar, þvottahús og sex salerni. Uppi er þurrkloft og geymsla.

Pétur Hjaltested var fjölhæfur maður. Auk þess að vera gull- og úrsmiður smíðaði hann söðla og hnakka. Um tíma var hann með hljóðfæraverslun í húsinu. Hann reisti býlið Sunnuhvol árið 1906. Það stóð suðvestan í Rauðarárholti á þeim slóðum sem nú mætast Háteigsvegur og Þverholt. Pétur var mikill jarðræktarmaður, hann breytti gróðursnauðum holtum og óræktarmýrum í grösug tún.

Árið 1915 seldi Pétur húseign sína á Laugavegi 20b hjónunum Kristínu og Axel Dahlsted. Pétur tók húsið á Laugavegi 23 upp í hluta kaupverðsins, en þar höfðu þau verið með veitingareksturinn Fjallkonuna.

Miklar umbætur þurfti að gera á húsinu á Laugavegi 20b. Til þess að ganga frá milligjöf á eigninni og gera breytingar og sinna öðru viðhaldi á henni varð Kristín að taka víxla í Íslandsbanka. Þrír heiðursmenn, þeir Jón frá Vaðnesi, Páll í Kaupvangi og Ámundi Ámundason, kaupmaður á Hverfisgötunni, gerðust ábyrgðarmenn á víxlunum.

Kristín Dahlsted veitingakona fæddist 14. september 1876 í Botni, fremsta bæ við norðanverðan Dýrafjörð. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Sakaríasson og Ingibjörg Jóhanna Jónsdóttir. Ung að árum tók Kristín sér far með Kutter Daníu til Danmerkur og starfaði á Læsö, sem var hótel í Friðrikshöfn. Hún lærði síðan hótelrekstur á Neilsen hóteli hjá herra Jörgensen. Fyrst eftir að Kristín kom aftur til landsins starfaði hún á Hótel Reykjavík hjá Margréti Zoëga, tengdamóður Einars Benediktssonar.

Kristín byrjaði með veitingarekstur á Laugavegi 68. Hún fór síðan aftur til Danmerkur og dvaldi þar í meira en ár. Þegar hún kom heim keypti hún húsið á Laugavegi 23 af séra Lárusi frá Selárdal. Þar setti hún upp hótelrekstur er hún nefndi Fjallkonuna.

Fyrst eftir að veitingahúsið flutti á Laugaveg 20b gekk reksturinn vel. Hljómsveit var á staðnum undir stjórn Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara, og var spilað öll kvöld á milli kl. 9 og 11.30. Ölið fyrir veitingareksturinn var keypt hjá Garðari Gíslasyni sem flutti það inn frá Ameríku og fleiri stöðum, gosdrykkir voru fengnir hjá Sanitas. Matur var eldaður á gaseldavélum og er líklegt að Fjallkonan hafi verið fyrsta hótelið á landinu sem notaði gas til eldunar.

Orð fór af því að stundum væri nokkuð sukksamt á Fjallkonunni. Einhverju sinni þurfti að kveðja til fjóra lögregluþjóna til að koma norskum skipstjóra í járn. Atvikið taldist til nokkurra tíðinda í bænum.

Veturinn 1918 varð eigendum Fjallkonunnar erfiður, harðindi og drepsótt lögðust á landsmenn, fáir áttu heimangengt til að skemmta sér og auraráð urðu minni en áður. Í kringum 1920 seldu Axel og Kristín Dahlsted húsið. Rekstur Fjallkonunnar hélt áfram á hinum ýmsu stöðum í bænum. Kristín hætti veitingarekstri árið 1947 en þá hafði hún rekið veitingastofu í Tryggvagötu 6 sem hún nefndi Ægi.

Tuttugu íbúar á átta heimilum

Í gegnum tíðina hefur margt fólk átt heima á Laugavegi 20b. Á efri hæðunum hafa alltaf verið íbúðir. Samkvæmt íbúaskrá frá árinu 1906 eru skráðir þar tuttugu manns á átta heimilum. Þeir sem taldir voru fyrir heimilunum voru: Jóhann A. Jónsson úrsmiður, Guðmundur Sigurðsson klæðskeri, Björn Þórðarson kaupmaður, Magnús Magnússon steinsmiður, Þorsteinn Jónsson bakari, Helga Hallsdóttir húskona, Álfheiður Ólafsdóttir húskona og Ólöf Þórðardóttir ráðskona. Árið 1909 eru aðeins skráð þar þrjú heimili með ellefu manns.

Árið 1922 er Rafmagnsfélagið Hiti og Ljós skráð eigandi að húsinu. Þá var plássið sem veitingarhúsið Fjallkonan var í innréttað fyrir verslun. Árið 1952 eru Einar Gíslason og fleiri skráðir eigendur hússins.

Á fyrstu hæð Laugavegar 20b hafa verið verslanir og ýmiss konar annar atvinnurekstur.

Þar var klæðskeraverkstæði og verslunin Últíma, Katel, innrömmun og listmunagallerí og fornbókaverslun. Náttúrulækningafélag Íslands átti húsið um þrjá áratugi og var með skrifstofur sínar þar. Árið 1989 fóru fram miklar endurbætur á skrifstofuhúsnæðinu sem Guðmundur Jónsson smiður sá um. Húsið var selt árið 1997 fyrirtækinu Bertili. Í hluta annarrar hæðar hefur lengi verið matstofa, fyrst rekin af Náttúrulækningafélagi Íslands en síðan matstofan Á næstu grösum.

Núna er Verslunin 1928 á fyrstu hæð þar sem Fjallkonan var. Þar næst á undan var antíkbúð. Verslunin 1928 var stofnuð 1996 og hefur mikið úrval af húsgögnum, skrautmunum og skartgripum svo eitthvað sé nefnt. Vörurnar eru framleiddar í Suður-Evrópu og Asíu og eru sérstæðar og fallegar.

Gullsmíðastofa og verslun Hansínu Jensdóttur er Klapparstígsmegin í húsinu og hefur verið þar síðan í október 1996. Þar áður var barnafataverslunin Bangsi í plássinu. Einnig Gallerí Kolbrúnar Kjarval. Um tíma var þar fatahreinsun. Á síðasta afmælisdegi Reykjavíkur var stofnuð í húsinu verksmiðja og verslunin Ranimosk, þar er verslað með póstkort frá því fyrir stríð og ýmislegt annað, bæði íslenskt og frá öðrum löndum eins og Mexíkó. Of langt mál væri að lýsa því hvað þar er að finna og sjón er sögu ríkari. Í því plássi var Þorgrímur Jónsson gullsmiður og síðan Ragnhildur Sif Reynisdóttir gullsmiður.

Eins konar útihús var reist á lóðarmörkum til suðurs sem talið er að hafi verið byggt með það fyrir augum að nota sem hesthús eða fjárhús. Ekkert varð af því en aftur á móti var Rakarastofan á Klapparstíg stofnuð þar árið 1918. Stofan var þarna til húsa þar til hún flutti á núverandi stað á Klapparstíg 29 árið 1978. Rakarastofan var ekki allan tímann á upphaflegum stað í húsinu heldur var hún flutt til m.a. einu sinni. Þegar Sigurpáll Grímsson, eigandi stofunnar, var að stækka plássið kom margt forvitnilegt í ljós, m.a. hjólbörur með tréhjóli sem varið var með málmgjörð, einnig vog sem framleidd var í Kína.

Þegar stuðst er við virðingar sem gerðar hafa verið eftir að húsið hefur verið lagfært koma þessi ártöl upp: Árið 1917 var byggt geymsluhús á suðurmörkum lóðarinnar. Í þeirri virðingu er getið um að vatns-, gas- og skólpleiðslur séu í húsinu. Árið 1920 hefur verið bætt við ofnum. Árið 1922 eru rafmagnsleiðslur teknar inn í matið. Þá er húsið skráð eign Rafmagnsfélagsins.

Virðing er til frá árinu 1943, þá hafa farið fram talsverðar endurbætur. Aftur fer fram mat árið 1947, þá talið óbreytt í aðalatriðum. Húsið er síðan metið árið 1975 og þá sagt að breytingar hafi orðið á húseigninni, eins og að verslunarhæð og önnur hæð séu innréttaðar. Einnig önnur hæð og ris Klapparstígsmegin, allt innréttað og endurbætt.

Náttúrulækningafélagið lét klæða húsið að utan, skipta um suma glugga og gera við aðra, ásamt ýmsum öðrum viðgerðum bæði utanhúss og innan. Þá voru gerðar miklar öryggisráðstafanir varðandi neyðarútgönguleiðir og sá Hannes Helgason smiður um það verk og fékk ráðleggingar frá fulltrúa í Slökkviliðinu.

Sérstakt og fallegt hús

Laugavegur 20b er sérstakt og fallegt hús og má sjá áhrif úr ýmsum áttum varðandi byggingarstíl þess, en ekki er vitað hver teiknaði húsið. Lögun hússins á horninu og skraut við þakskegg er með klassískum áhrifum. Húsið meðfram Klapparstíg ber áhrif af sveitserstíl. Fyrir ofan inngöngudyr á horni Laugavegar og Klapparstígs er kanapi sem setur mikinn svip á húsið. Aðaldyr Klapparstígsmegin eru með skrauti fyrir ofan en dyrnar voru stækkaðar á meðan Náttúrulækningafélag Íslands átti húsið.

Í sumar fóru fram miklar lagfæringar á húsinu að utan og það málað.

Það er ljóst að ekki er hægt að geta allra sem voru með rekstur í húsinu Laugavegi 20b frá byggingu þess. Einnig er ekki vitað með vissu um alla eigendur þess frá upphafi.

Helstu heimildir eru frá Borgarskjalasafninu, brunavirðingar og B-skjöl, Þjóðskjalasafninu, kirkjubækur og íbúaskrár.