23. janúar 2004 | Innlendar fréttir | 761 orð | 1 mynd

Heimildamynd um Gása í smíðum

Gásar ef til vill endurgerðir?

Pálmi Gunnarsson
Pálmi Gunnarsson
Pálmi Gunnarsson er fæddur 29. september 1950 á Hóli í Vopnafirði. Gagnfræðapróf frá Laugum í Reykjadal - nám í Rodding-lýðháskólanum á Suður-Jótlandi, verslunarnámskeið frá Verslunarskóla Íslands, nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur og Kvikmyndaskóla Íslands. Tónlistarmaður að atvinnu frá 1969. Hefur unnið nokkrar þáttaraðir fyrir sjónvarp um fluguveiði og rekur Íslensku fluguveiðiþjónustuna. Börn: Sigurður Helgi, Ragnheiður Helga og Ninna Rún. Lífsförunautur Anna Ólafsdóttir.
Pálmi Gunnarsson er fæddur 29. september 1950 á Hóli í Vopnafirði. Gagnfræðapróf frá Laugum í Reykjadal - nám í Rodding-lýðháskólanum á Suður-Jótlandi, verslunarnámskeið frá Verslunarskóla Íslands, nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur og Kvikmyndaskóla Íslands.

Tónlistarmaður að atvinnu frá 1969. Hefur unnið nokkrar þáttaraðir fyrir sjónvarp um fluguveiði og rekur Íslensku fluguveiðiþjónustuna.

Börn: Sigurður Helgi, Ragnheiður Helga og Ninna Rún. Lífsförunautur Anna Ólafsdóttir.

Pálmi Gunnarsson er best þekktur hér á landi sem tónlistarmaður, dagskrárgerðarmaður og fluguveiðimaður sem rekur fluguveiðiþjónustu. En stökkið úr dagskrárgerð yfir í heimildamyndargerð er ekki stærra en svo að Pálmi hefur tekið það. Hann vinnur nú að gerð heimildamyndar um hin forna verslunarstað Gása við Eyjafjörð.

-Segðu okkur fyrst hvað kom til að þú fórst úr tónlist yfir í dagskrárgerð...

"Ég hef frá því ég sá Stríð og frið heima á Vopnafirði þá smágutti, verið heillaður af kvikmyndum og öllu sem viðkemur kvikmyndagerð. Þetta var svarthvít rússnesk útgáfa og var sýnd á tveimur kvöldum og hléin voru hrikalega mörg og afar fáir í bíó. Síðan stalst ég að tjaldabaki og horfði á Drakúla með Cristopher Lee og þar með var ég heltekinn. Það að skoða þennan stórmekilega bransa ofurlítið var því eiginlega eins eðlilegt og það getur verið en í raun var ég að láta gamlan draum rætast. Það er þó ekki rétt að segja að ég hafi söðlað algerlega um því ég er þokkalega upptekinn í tónlist þessa dagana að viðbættu þessu dundi mínu."

-Hvers vegna mynd um Gása?

"Ég fer í langar gönguferðir eins oft og ég get og einhverju sinni fór ég að skoða mig um út með Eyjafirði þar sem margt merkilegt er að sjá eins og Dagverðareyrarþorpið gamla. Ég endaði út á Gáseyri og sá að þar var verið að grafa í jörð. Þetta vakti athygli mína og ég fór að skoða málið. Ég komst að því að á Gáseyri var í gangi einn viðamesti fornleifauppgröftur Íslandssögunnar og því meira sem ég kynnti mér málið því merkilegra fannst mér það. Og nú er ég að gera heimildamynd um þennan fornfræga verslunarstað. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur styrkt mig til verksins sem er ómetanlegt og aðstandendur uppgraftrarins hafa sýnt þessu áhuga og stuðning.

Hugmynd mín er að gera lifandi og skemmtilega mynd um verslunarstaðinn á Gásum t.d reyna að sjá fyrir mér hvernig hann hefur litið út með þrívíddargrafík og í leiðinni velta upp hvernig lífið hefur hugsanlega gengið fyrir sig í árdaga verslunar á Íslandi. Ég el þá von í brjósti mér að einhvern tímann á næstu árum verði þorpið endurgert og er ég með það á hreinu að það myndi verða alger sprengja inn í ferðaþjónustu á svæðinu."

-Segðu okkur aðeins frá Gásum...

"Gásir við Eyjafjörð eru stórmerkilegur staður. Þarna var einn helsti verslunarstaður á Norðurlandi á miðöldum og það finnast heimildir um staðinn í fornritum frá 13. og 14. öld. Þar mun t.d. hafa verið höndlað með brennistein sem fluttur var ofan úr Mývatnssveit og unninn á Gásum til útflutnings. Gása er síðast getið 1391 en skömmu síðar virðist verslun þar hafa lagst niður eða á 15. öld. Þó benda nýjustu rannsóknir til þess að verslað hafi verið á Gásum mun lengur eða eða fram á 16. öld. Elstu lýsingar á rústum á Gásum eru frá seinni hluta 18. aldar og þegar á 19. öld var mönnum ljóst að á Gásum væri að finna einn umfangsmesta og merkilegasta minjastað á Íslandi.

Að Gásauppgreftrinum standa Minjasafnið á Akureyri, Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifastofnun Íslands, Ferðamálasetur Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetur. Auk þess eiga Hörgárbyggð, Umhverfisstofnun, náttúruverndarsvið, RALA á Möðruvöllum, Ferðamálráð Íslands, Gásafélagið og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sæti í samráðshópnum."

-Hvar verður myndin sýnd og hvenær?

"Ég reikna með að hún verði sýnd á RÚV og verði tilbúin til sýningar í byrjun árs 2006. Ég mun einnig leita að samstarfsaðilum erlendis en saga verslunarstaðarins teygir anga sína til Evrópu og Skandinavíu."

-Þú hefur aðallega til þessa gert myndbönd og sjónvarpsþætti um veiðiskap...er þessi breyting forsmekkur að nýrri stefnu?

"Ekki veit ég það en ég hef mikinn áhuga á kvikmyndagerð í víðasta skilningi orðsins. T.d. er ég með öðru sem ég tek mér fyrir hendur, að skrifa handrit fyrir leiknar myndir sem fara ef til vill aldrei af harða diskinum, en meðan ég hef gaman af þessu þá held ég ótrauður áfram."

-Ertu hættur að gera veiðiþætti?

"Nei ég er ekki hættur að gera veiðiþætti - ég stefni að því að gera í það minnsta tvo þætti á næsta ári, ef tími gefst til og svo er danskur félagi minn að reyna að véla mig til að gera með honum þáttaröð um fluguveiðar fyrir alþjóðlegan markað. Það kemur í ljós hvað úr því verður en er vissulega spennandi verkefni fyrir flakkara eins og mig."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.