Flestir íslenskir siðir sem tengjast bollu-, sprengi- og öskudegi eru annað hvort komnir úr kaþólskri trú eða frá hinum Norðurlöndunum. Öskupokasiðurinn er hins vegar alíslenskur og næstum því 400 ára gamall.
Flestir íslenskir siðir sem tengjast bollu-, sprengi- og öskudegi eru annað hvort komnir úr kaþólskri trú eða frá hinum Norðurlöndunum. Öskupokasiðurinn er hins vegar alíslenskur og næstum því 400 ára gamall.

Það er því alger synd að hann skuli vera að detta upp fyrir vegna þess hvað við erum svo upptekin af dönskum og bandarískum grímubúningasiðum!

Til að berjast gegn þessu leggjum við til að allir íslenskir krakkar búi til nokkra öskupoka og reyni síðan að læðast aftan að börnum og fullorðnum á öskudaginn til að hengja pokana aftan á þá eins og Íslendingar hafa gert í fjögur hundruð ár!!

Svona farið þið að:

1) Klippið niður litla ferhyrnda efnisbúta, helst í nokkrum litum.

2) Brjótið þá saman og saumið saman botninn og hliðina.

3) Setjið eitthvað óvænt í pokann eins og til dæmis brandara, málshátt eða jafnvel ástarbréf.

4) Bindið þráð eða band utan um pokaopið og festið bréfaklemmu, eða nælu á lausa enda bandsins.

Þið getið hengt öskupokana á hvern sem er en í gamla daga reyndu stelpur oft að koma öskupokum, með ösku í, á strákana, en strákar reyndu að koma pokum með smásteinum í á stelpurnar.