Þórarinn Kr. Ólafsson, vinnslustjóri hjá Þrótti ehf. í Grindavík, er ánægður með gang mála, en fyrirtækið hefur selt 300 tonn af saltfiski á þessu ári.
Þórarinn Kr. Ólafsson, vinnslustjóri hjá Þrótti ehf. í Grindavík, er ánægður með gang mála, en fyrirtækið hefur selt 300 tonn af saltfiski á þessu ári. — Ljósmynd/Stella
"VIÐ erum búnir að salta um 55 tonn af fésum frá áramótum og það er afskaplega góð búbót. Til þessa höfum við selt hausana frá okkur, en eftir að verðið á stærstu hausunum fór úr 1,3 til 1,4 evra í nærri tvær á kílóið, höfum við nýtt hausana...
"VIÐ erum búnir að salta um 55 tonn af fésum frá áramótum og það er afskaplega góð búbót. Til þessa höfum við selt hausana frá okkur, en eftir að verðið á stærstu hausunum fór úr 1,3 til 1,4 evra í nærri tvær á kílóið, höfum við nýtt hausana sjálfir. Það lætur nærri að fésin borgi megnið af öllum vinnulaunum fyrirtækisins, en við höfum aldrei unnið annað eins af saltfiski eins og á síðustu þremur mánuðum," segir Þórarinn Kr. Ólafsson, vinnslustjóri hjá Þrótti ehf. í Grindavík.

Vinnsla á fésum er tiltölulega einföld. Hausinn á fiskinum er einfaldlega klofinn í sérstakri vél, sem jafnframt hreinsar úr honum tálknin. Síðan eru fésin söltuð eins og annar fiskur. Þórarinn segir að skýringin á aukinni eftirspurn sé svolítið sérstök. Í mikilli vætutíð eins og verið hafi að undanförnu í Portúgal dafni sérstaklega vel ákveðin tegund grænmetis, sem Portúgalar borði helzt með saltfiski. Þar sem fésin séu mun ódýrari en hefðbundinn saltfiskur, borði fólk þau frekar, einkum yngra fólk og fólk sem minna hefur á milli handanna.

"Vinnsla á saltfiski hefur gengið mjög vel hjá okkur að undanförnu. Síðastliðinn desembermánuður var stærsti desember hjá okkur frá upphafi, við jöfnuðum janúarmetið okkar og í febrúar vorum við með tvöfalt meira en í þeim febrúarmánuði sem var beztur fyrir.

Við stækkuðum húsið hjá okkur í fyrra og ákváðum að auka framleiðsluna. Þess vegna kaupum við mikið af fiski á mörkuðum, en 90% þess kaupum við úr Breiðafirðinum. Fiskurinn þaðan hefur verið sérstaklega góður þetta árið. Við erum svo með 10 báta héðan af svæðinu í föstum viðskiptum en aðeins fjóra í fyrra.

Staðan er þannig nú að margir hafa hætt söltun, eða snúið sér að öðru og því hefur gengið nokkuð vel að afla hráefnis, þótt vertíðin hafi verið heldur léleg á heildina litið. Við erum þegar búnir að selja 300 tonn af saltfiski frá áramótum og vonandi er eitthvað út úr þessu að hafa," segir Þórarinn.

Þróttur ehf. hefur ekki einskorðað sig við ákveðna kaupendur, heldur ávalt selt hæstbjóðanda. 20 manns eru á launaskrá hjá fyrirtækinu.