SALA á saltfiski fyrir páskana er nú í fullum gangi og gengur hún ágætlega. Verð á saltfiski er almennt hátt en samkeppni frá Noregi gæti þó sett strik í reikninginn. Vegna lágs gengis norsku krónunnar geta Norðmenn boðið fiskinn á lægra verði en við.

SALA á saltfiski fyrir páskana er nú í fullum gangi og gengur hún ágætlega. Verð á saltfiski er almennt hátt en samkeppni frá Noregi gæti þó sett strik í reikninginn. Vegna lágs gengis norsku krónunnar geta Norðmenn boðið fiskinn á lægra verði en við.

Verðhækkun á fésum

Mikil verðhækkun hefur orðið á fésunum frá því á síðustu vertíð. Guðjón Guðjónsson, forstöðumaður saltfisk- og skreiðardeildar SÍF, segir að skýringin á því sé meðal annars lægð í portúgölsku efnahagslífi, en nær öll fésin séu seld þangað. "Þegar þrengir að leita neytendur í ódýrari afurðir eins og fésin. Eftirspurn hefur því verið mikil og vertíðin varla komin almennilega í gang. Þess vegna er skortur á fésum og auk þess er töluverð barátta um hausana við þurrkunina.

Það er vissulega jákvætt að sjá verð á aukaafurðum sem þessum hækka en ef hækkunin gengur of langt getur hún leitt til sölutregðu eða jafnvel hruns í sölu og þá verður hækkunin fljót að ganga til baka. Þetta höfum við séð gerast í ódýrari tegundum eins og ufsa," segir Guðjón.

Samkeppni við Kína

Hann segir að á hinn bóginn sé verð á söltuðum afskurði á niðurleið. Því valdi aukið framboð frá Kína. Vinnlaun séu fremur hátt hlutfall við vinnslu á þessum afskurði og því hafi Kínverjar mikið forskot þar. Þeir séu að vinna úr gífurlegu magni af fiski og því falli mikill afskurður til þar. Þeir hafi verið að frysta afskurðinn í bitablokk, en það sé takmarkaður markaður. Því salti þeir afskurðinn í síauknum mæli.

"Það hefur verið ágætis páskasala í saltfiskinum og verð er almennt hátt á þeim afurðum sem í páskasölu fara.

Gengið á evrunni hefur verið hagstætt en lágt gengi á norsku krónunni er viss ógnun því Norðmenn nota gjarnan slíka stöðu til að lækka verð til að greiða fyrir sölunni. Þetta vita kaupendur og halda að sér höndunum þar til Norðmenn lækka. Þetta veldur nokkurri óvissu á markaðnum en eins og er gengur þetta vel," segir Guðjón.

Vertíðin byrjar seint

Hann segir það líka hafa áhrif hversu seint hin hefðbundna netavertíð fari af stað þetta árið. "Það hefur í sjálfu sér ekki enn haft mikil áhrif á markaðinn þar sem eftirspurn eftir þessum stóra fiski er ekki mikil á þessum árstíma en sá fiskur sem kemur inn á þessum tíma er almennt betri en sá sem kemur upp seinna á vertíðinni. Þessi stóri vertíðarfiskur fer almennt ekki í þessa hefðbundnu páskaneyslu heldur fer stór hluti af honum í birgðir fram á haust og er síðan seldur fyrir jólin á mörkuðum eins og Portúgal. Lítið framboð nú hefur gert það að verkum að verð hefur haldist hærri en ella, en búast má við að það gefi eitthvað eftir um leið og veiði glæðist að einhverju ráði."

Minna til Brasilíu

Guðjón segir að lágt gengi á dollarnum hafi einnig áhrif á þessa markaði. Tegundir eins og ufsi, keila og langa séu yfirleitt seldar inn á markaði, sem greiði fyrir fiskinn í dollurum. Því hafi dregið úr sölu til Brasilíu til dæmis. Þá sé ljóst að lækkun á fiskverði í dollurum hafi áhrif til lækkunar á öðrum mörkuðum líka og loks megi benda á að hráefnisverð í dollurum hafi auðvitað lækkað líka. Þeir sem kaupi inn fisk í dollurum til vinnslu á söltuðum flökum til dæmis njóti þess og geti þá þolað lægra verð en aðrir á mörkuðunum í Evrópu.