FARICE, Íslandsbanki, Norræni fjárfestingabankinn og Föroya Banki hafa skrifað undir lánssamning vegna lagningar ljósleiðara milli Íslands, Færeyja og Skotlands.

FARICE, Íslandsbanki, Norræni fjárfestingabankinn og Föroya Banki hafa skrifað undir lánssamning vegna lagningar ljósleiðara milli Íslands, Færeyja og Skotlands. Lánssamningurinn er gerður á grundvelli alþjóðlegs útboðs Farice á fjármögnun verkefnisins sem PAREX viðskiptaráðgjöf annaðist fyrir hönd Farice. Í fréttatilkynningu segir að Íslandsbanki hafi tryggt Farice hagkvæma fjármögnun og fengið til liðs við sig Norræna fjárfestingabankann og Föroya Banka. Íslandsbanki hefur fjármagnað verkefnið á framkvæmdastigi en með samningnum nú er gengið frá langtímafjármögnun þess.

Farice mun eiga og reka hinn nýja sæstreng. Félagið er að meirihluta í eigu Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. og Föroya Tele sem á fimmtungshlut í félaginu. Lagningu ljósleiðarans lauk á sl. ári og er rekstur hans þegar hafinn.

Íslandsbanki mun jafnframt lána Eignarhaldsfélaginu Farice vegna kaupa þess á hlut í flutningsgetu CANTAT 3-sæstrengsins. Heildarlánsfjárhæð til Farice og Eignarhaldsfélagsins Farice er rúmlega 43 milljónir evra eða sem svarar 3.800 milljónum króna.