RÉTTARHÖLDIN yfir lífsstílsfrömuðinum og viðskiptajöfrinum Mörthu Stewart hafa staðið yfir undanfarnar fimm vikur.
RÉTTARHÖLDIN yfir lífsstílsfrömuðinum og viðskiptajöfrinum Mörthu Stewart hafa staðið yfir undanfarnar fimm vikur. Fyrr í vikunni var vísað frá alvarlegustu ákærunni á hendur Stewart, en þeirri ákæru höfðu lögmenn Stewart mótmælt frá upphafi réttarhaldanna. Hún fól í sér að Stewart hefði logið að fjárfestum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að verð á bréfum í hennar eigin fyrirtæki, Martha Stewart Living Omnimedia, lækkuðu í verði.

Frávísun þessa atriðis er talinn ákveðinn sigur fyrir Stewart, en hefði hún verið fundin sek um þetta atriði hefði það numið allt að 10 ára fangelsisvist. Stewart og verðbréfasali hennar, Peter Bacanovic, standa engu að síður frammi fyrir öðrum ákæruatriðum, m.a. fyrir að gefa yfirvöldum rangar upplýsingar um sölu á hlutum Stewart í líftæknifyrirtækinu ImClone í desember 2001, en málið snýst öðru fremur um það hvort Stewart hafi búið yfir innherjaupplýsingum um bréfin áður en hún seldi. Hlutabréf í ImClone hrundu í verði daginn eftir að Stewart seldi.

Saksóknari sagði við upphaf réttarhalda að málið snerist um að Stewart hefði logið að yfirvöldum, hagrætt sönnunargögnum og svikið fjárfesta. Stewart og Bacanovic hefðu síðan samið lygasögu til að fela ósköpin.

Lögmaður Stewart leggur höfuðáherslu á að skjólstæðingur hans sé ekki glæpamaður heldur hafi einfaldlega gert mistök.

Vitnisburður fyrrverandi aðstoðarmanns Bacanovics skiptir höfuðmáli í réttarhöldunum yfir tvímenningunum. Lögmenn bæði Stewart og Bacanovic hafa gert hvað þeir geta til að véfengja vitnisburð hans.

Málið snýst í reynd um það hvort samningur um sölu á bréfum ImClone var til staðar milli Stewart og Bacanovic. Saksóknarar segja þau tvö hafa komið sér saman um lygasögu til að láta svo út líta að Stewart hefði beðið Bacanovic að selja bréfin þegar þau færu niður í 60 dali á hlut, sem gerðist daginn sem Stewart seldi.

Þessu svara lögmenn tvímenninganna hins vegar fullum hálsi. Sá sem ver Stewart sagði í lokaávarpi sínu við réttarhöldin að saksóknarar gætu ekki sannað að samningurinn væri uppspuni.