BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í umræðu utan dagskrár á Alþingi í gær að enginn þyrfti að óttast það að hættuástand skapaðist um sjúkraflutninga Landhelgisgæslunnar vegna þess að samningum Landspítala - háskólasjúkrahúss, þriggja ráðuneyta og...
BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í umræðu utan dagskrár á Alþingi í gær að enginn þyrfti að óttast það að hættuástand skapaðist um sjúkraflutninga Landhelgisgæslunnar vegna þess að samningum Landspítala - háskólasjúkrahúss, þriggja ráðuneyta og Landhelgisgæslunnar um þyrlulækna hefði verið sagt upp. Læknum sem starfa á þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur verið sagt upp störfum frá og með 1. maí næstkomandi. "Það ríkir ekkert hættuástand," sagði ráðherra, "samningurinn er í gildi og það er verið að fylla það tómarúm sem skapast ef þessi samningur gildir ekki áfram. Og það þarf enginn að óttast að það skapist eitthvert slíkt tómarúm; að það verði hér hættuástand vegna þess að það verði ekki unnt að sinna þessari þjónustu á þann veg að öryggi landsmanna sé tryggt."

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, var málshefjandi umræðunnar. "Störf fyrir þyrlulækna eru í upnámi," sagði hann, "ekki fer á milli mála að það getur skipt sköpum um lífsvon slasaðra og verndun lima að læknir sé í för. Þetta vita starfsmenn Landhelgisgæslunnar afar vel og bera eðlilega þá von í brjósti að allir landsmenn fái notið þjónustunnar." Hann og fleiri þingmenn skoruðu á ráðherra að beita sér fyrir því að útvega fé til Landhelgisgæslunnar svo hægt yrði að hafa lækna á þyrlum hennar. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var einn þeirra. "Ég skora á hæstvirtan ráðherra að beita sér fyrir því að útvega það fé til Landhelgisgæslunnar þannig að við þurfum ekki að búa við óvissu um nokkurra vikna hríð til viðbótar við það sem þegar er liðið á þessu ári. Hæstvirtur dómsmálaráðherra hefur þegar sýnt það að hann getur beitt sér og verið fundvís á fé þegar öryggismál eru annars vegar. Og ég trúi ekki öðru en að honum reynist það létt verk að finna nauðsynlegt fjármagn til að tryggja áframhaldandi rekstur flugbjörgunarsveita Landhelgisgæslunnar. Það er alveg jafn mikið öryggismál eins og að fjölga í sérsveitum lögreglunnar," sagði hann.