Austurlamb kynnti lambakjöt á sýningunni Matur 2004.
Austurlamb kynnti lambakjöt á sýningunni Matur 2004. — Morgunblaðið/Eggert
AUSTURLAMB er söluverkefni bænda í Múlasýslum, þar sem sérpakkað lambakjöt, merkt framleiðanda, er markaðssett beint frá bónda til neytandans á Netinu. Heimasíða verkefnisins er www.austurlamb.
AUSTURLAMB er söluverkefni bænda í Múlasýslum, þar sem sérpakkað lambakjöt, merkt framleiðanda, er markaðssett beint frá bónda til neytandans á Netinu. Heimasíða verkefnisins er www.austurlamb.is, en auk þess að vera vettvangur fyrir pantanir er síðan notuð til þess að kynna vöruna og nálgast kaupendur. Sigurjón Bjarnason segir greinilegan áhuga hjá neytendum á að kaupa kjöt beint frá bónda. Fyrsta sendingin fór af stað um miðjan október á síðasta ári og kveðst hann eiga von á því að kjöt af lömbum sem slátrað var fyrir verkefnið síðastliðið vor klárist innan tíðar.

Skoðanakönnun á Netinu

"Þá byrjum við strax að huga að næsta hausti og erum meðal annars að gera skoðanakönnun á heimasíðu okkar til þess að fá leiðsögn frá neytendum. Við sjáum að viðskipti myndu aukast ef einingar væru smærri, en kjötið er nú selt í hálfum skrokkum að endilöngu," segir hann.

Þess má geta að Nóatún selur um þessar mundir frosin læri, hryggi og súpukjöt frá Austurlambi í þremur verslana sinna, það er við Nóatún, í JL-húsinu og Austurveri.

Lambalæri

frá Guðnýju Grétu

1 lambalæri með beini (til dæmis U3, sem er vel vöðvafyllt læri

og miðlungsfeitt)

4 stk. hvítlauksgeirar

(kljúfa þá ef þeir eru stórir)

Krydd að smekk kokksins, til dæmis jurtakrydd, villibráðarkrydd, lambakjötskrydd, salt og pipar eða blandað krydd, gott að prófa sig áfram með það

Lærið skal tekið úr frysti um það bil 5 dögum fyrir eldun og látið þiðna í ísskáp. Þegar það er orðið þítt skal meðhöndla það á eftirfarandi hátt.

Þegar búið er að kljúfa hvítlauksrifin, skal stinga þeim inn í lærið hér og hvar. Síðan er pínulítið af olíu sett á lærið til þess að kryddið loði betur við kjötið. Ef notað er jurtakrydd er gott að þekja lærið vel, pakka því svo vel í plast og geyma í ísskáp fram að matreiðslu.

Ég grilla lærið á teini í ofni, en einnig er hægt að nota venjulega steikingaraðferð. Lærið er steikt í 1-2 klukkustundir, eftir smekk hvers og eins og hvort það á að vera gegnsteikt eða rautt í miðjunni. Best er að gera sósu úr soðinu og setja jafnvel 2 lambakjötsteninga með til bragðbætis. Borið fram með kartöflum og hrásalati. Í þessa uppskrift er allt eins hægt að nota hrygg eða úrbeinaða steik.

Þegar ég steiki kjötið á teini hef ég ofnskúffu neðst í ofninum, sem tekur við því sem rennur af kjötinu. Þegar steikingu er lokið eru 3 dl af vatni settir í skúffuna til þess að leysa upp safann og síðan notaðir í sósuna.

Eins og sjá má er þetta mjög frjálsleg aðferð, en aðalatriðið er að láta kjötið bíða í ísskáp og leyfa því að meyrna. Þannig má ná fram því besta í hráefninu, segir Guðný Gréta Eyþórsdóttir frá Fossárdal í Djúpavogi, en hún er einn framleiðenda Austurlambs.