Björn Brynjúlfur Björnsson
Björn Brynjúlfur Björnsson
Það er auðvitað öllum fyrir bestu að réttar tölur séu til umræðu.

BJARNI Guðmundsson framkvæmdastjóri Sjónvarpsins skrifar grein í laugardagsblað Morgunblaðsins undir fyrirsögninni Byggjum á staðreyndum, þar sem hann gerir að umtalsefni það sem hann kallar meðferð mína á tölum í grein sem birtist á föstudag.

Bjarni spilar hér enn þá plötu að sú tala sem ég nota í minni grein um innkaup Innlendrar dagskrárdeildar Sjónvarpsins á efni keyptu af sjálfstæðum framleiðendum (58 milljónir í áætlun ársins 2003) sé röng og betra sé að "byggja á staðreyndum".

Mér er heldur illa við að sitja undir aðdróttunum um að vera að ljúga upp tölum enda vandséð í hvaða tilgangi ég ætti að gera slíkt. Þessi tala er ekki fundin upp af mér heldur fengin frá dagskrárstjóra Innlendrar dagskrárdeildar og fjármálastjóra hans. Hún er með öðrum orðum rétt.

Leikurinn sem Bjarni er hins vegar í er sá að við þessa tölu vill hann bæta 80 milljónum sem eru á liðnum Annað dagskrárefni í rekstri Sjónvarpsins. Þannig fær hann 140 milljónir. Gallinn við þessa röksemdafærslu framkvæmdastjórans er hins vegar sá að þessir peningar eru ekki sérstaklega ætlaðir til kaupa á efni af innlendum framleiðendum. Hluti þeirra mun notaður til að talsetja barnaefni og það sem eftir er skilst mér að sé notað "hér og þar" eftir þörfum og sé varasjóður ef upp koma óvæntir hlutir sem ekki er gert ráð fyrir í áætlunum annarra deilda. Þannig færi megnið af þessum peningum væntanlega til fréttadeildar ef upp kæmi Kötlugos. Sjóður fyrir "Annað dagskrárefni" er sjálfsagður í rekstri Sjónvarpsins, en það er fráleitt að telja hann í heilu lagi til þess fjár sem Sjónvarpið ver til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Enda er ekkert af þessum peningum eyrnamerkt til þeirra nota.

Við sem störfum utan Sjónvarpsins eigum eðli máls samkvæmt erfitt með að draga fram tölur um einstaka þætti í rekstrinum og liggjum vel við höggi þegar innanbúðarmenn saka okkur um að "byggja ekki á staðreyndum". Það er auðvitað öllum fyrir bestu að réttar tölur séu til umræðu. Þess vegna olli það mér vonbrigðum að framkvæmdastjóri Sjónvarpsins hunsaði í grein sinni beiðni mína um að sundurliða þær 140 milljónir sem hann segir að Sjónvarpið verji árlega til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

Til að við getum öll "byggt á staðreyndum" í umræðum um Sjónvarpið langar mig til að biðja framkvæmdastjórann að birta tölur um innkaup Sjónvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum undanfarin fimm ár, annars vegar það sem keypt var af Innlendri dagskrárdeild og hins vegar það sem keypt var af liðnum Annað dagskrárefni. Sundurliðað eftir árum og þeim fimm flokkum sem slíkt efni er flokkað eftir: Heimildarmyndir, stuttmyndir, kvikmyndir, leikið sjónvarpsefni og sjónvarpsþættir.

Björn Brynjúlfur Björnsson svarar Bjarna Guðmundssyni

Höfundur er formaður Félags kvikmyndagerðarmanna.