GUÐJÓN Þórðarson, knattspyrnustjóri Barnsley, biður stuðningsmenn félagsins um þolinmæði og stuðning eftir enn einn ósigur liðsins. Barnsley beið lægri hlut fyrir Peterborough á heimavelli, 0:1, í ensku 2. deildinni í fyrrakvöld.
GUÐJÓN Þórðarson, knattspyrnustjóri Barnsley, biður stuðningsmenn félagsins um þolinmæði og stuðning eftir enn einn ósigur liðsins. Barnsley beið lægri hlut fyrir Peterborough á heimavelli, 0:1, í ensku 2. deildinni í fyrrakvöld. Það var þriðja tap liðsins í síðustu fjórum leikjum og það hefur sigið niður í ellefta sæti deildarinnar eftir að hafa verið í hópi sex efstu í nær allan vetur.

Hluti stuðningsmannanna sendi leikmönnum Barnsley tóninn í leiknum í fyrrakvöld og Guðjón var ekki sáttur við það.

"Það hjálpar okkur engan veginn ef stuðningsmenn okkar veitast að leikmönnum vegna mistaka sem þeir gera. Leikmennirnir verða taugaóstyrkir og það sást vel hversu slæm áhrif þetta hafði á þá. Fylgismenn knattspyrnuliða eru oft ansi miskunnarlausir. Ef þeir vilja að liðið komist á sigurbraut verða þeir að fylkja sér á bakvið liðið því þegar harðnar á dalnum verða allir að standa saman.

Stjórn deildakeppninnar stýrir því ennþá hvaða leikmenn við getum fengið til félagsins - við stöndum ekki jafnfætis öðrum liðum í deildinni að þessu leyti. Það tekur meira en nokkra mánuði að byggja upp knattspyrnulið," sagði Guðjón á vef Barnsley í gær, og vísaði þar til þess að Barnsley hefur verið í fjárhagslegri gjörgæslu frá síðasta sumri þegar engu munaði að félagið yrði gjaldþrota.