Hluti ráðstefnugesta byrjaði gærdaginn á ferð í álverið í Straumsvík og þaðan lá leiðin á Grundartanga.
Hluti ráðstefnugesta byrjaði gærdaginn á ferð í álverið í Straumsvík og þaðan lá leiðin á Grundartanga. — Morgunblaðið/Þorkell
ALÞJÓÐLEG ál- og orkuráðstefna hófst hér á landi í gær með því að nærri 150 ráðstefnugestir fóru í skoðunarferðir að álverunum í Straumsvík og á Grundartanga og virkjunum Landsvirkjunar í Soginu og Búrfelli.

ALÞJÓÐLEG ál- og orkuráðstefna hófst hér á landi í gær með því að nærri 150 ráðstefnugestir fóru í skoðunarferðir að álverunum í Straumsvík og á Grundartanga og virkjunum Landsvirkjunar í Soginu og Búrfelli. Fyrirlestrar fara svo fram í dag og á morgun á Hótel Nordica í Reykjavík.

Ráðstefnan er haldin á vegum breska fyrirtækisins Metal Events Ltd. en Landsvirkjun er meðal styrktaraðila og bauð gestum til hátíðarkvöldverðar í gærkvöldi. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mun ávarpa ráðstefnuna í dag og í kjölfarið flytja erindi Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa, Kenneth Petersen, eigandi Norðuráls, Rannveig Rist, forstjóri Alcan í Straumsvík, og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar.

Á ráðstefnunni verður einnig rætt um þróun og framtíðarhorfur ál- og orkuiðnaðar á heimsmarkaði og dagskránni lýkur á morgun með því að fulltrúar Landsvirkjunar, Hitaveitu Suðurnesja og Iðntæknistofnunar flytja erindi um vatns- og jarðvarmavirkjanir og sjálfbæra þróun í íslenskri náttúru.

Samkvæmt upplýsingum frá Metal Events Ltd eru gestirnir 150 frá tæplega 100 fyrirtækjum og stofnunum alls staðar að úr heiminum, þar af hafa nærri 20 íslensk fyrirtæki tilkynnt þátttöku. Sambærileg ráðstefna fór fram í S-Afríku í fyrra og þá með þátttöku Landsvirkjunar.