Sveinsstykki verður sýnt á Eiðum um helgina: Arnar Jónsson minntist fjörutíu ára ferils með sýningunni Sveinsstykki sem frumsýnt var í Loftkastalanum í desember sl.
Sveinsstykki verður sýnt á Eiðum um helgina: Arnar Jónsson minntist fjörutíu ára ferils með sýningunni Sveinsstykki sem frumsýnt var í Loftkastalanum í desember sl. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Egilsstaðir | Nú er að fara í gang umfangsmikil leikstarfsemi í gamla skólahúsinu á Eiðum og hefst hún um helgina með sýningu Arnars Jónssonar á Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson.
Egilsstaðir | Nú er að fara í gang umfangsmikil leikstarfsemi í gamla skólahúsinu á Eiðum og hefst hún um helgina með sýningu Arnars Jónssonar á Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson. Verkið var frumsýnt í Loftkastalanum í Reykjavík skömmu fyrir jól og er sérstaklega ritað fyrir Arnar, en með sýningunni í Loftkastalanum minntist hann fjörutíu ára starfsafmælis. Leikritið hlaut lofsamlega dóma gagnrýnenda og þykir áhrifamikið verk í meðförum Arnars, sem leikur manneskjuna Svein á ýmsum æviskeiðum.

Búnaður hússins endurbættur

Leiksýningar á Eiðum eru sérstakt átaksverkefni á vegum undirbúningsnefndar fyrir lista- og menningarsetur á Eiðum og er Páll Baldvin Baldvinsson verkefnisstjóri. Hann segir að fyrirhugaðar séu á Eiðum leiksýningar að staðaldri næstu þrjá mánuði. Hann vill þó ekki að svo stöddu tjá sig um hvaða aðrar sýningar verði á Eiðum næstu vikurnar, en undirbúningsnefndin sé í viðræðum við nokkra sjálfstæða leikhópa um framhaldið.

Gamla skólahúsið á Eiðum hefur undanfarin ár verið nýtt undir uppfærslur Óperustúdíós Austurlands á óperuverkum Mozarts, en ljóst er að búnaður hússins til leikverka- og tónlistarflutnings er klénn. Páll segir búið að flytja sérstakan búnað í húsið, sem tryggja á betri sjónlínur í salnum og einnig hefur ljósabúnaður verið settur í húsið vegna fyrirhugaðra leiksýninga.

Páll segir mikinn áhuga meðal leikhúsfólks á sýningarhaldi fyrir austan og reiknar með að fólk úr fleiri listgreinum sýni Eiðum áhuga í framhaldinu.

Tvær sýningar verða á Sveinsstykki á Eiðum; á laugardag og sunnudag og hefjast báðar kl. 20.30. Forsala aðgöngumiða er á Eiðum frá kl. 17 sýningardaga og í síma 5523000 frá kl. 13-18 virka daga.