Karl Sigurbjörnsson biskup
Karl Sigurbjörnsson biskup
"Samkynhneigt fólk er líkt og annað kristið fólk velkomið til starfa innan kirkjunnar, hvort heldur sem leikmenn eða vígðir.
"Samkynhneigt fólk er líkt og annað kristið fólk velkomið til starfa innan kirkjunnar, hvort heldur sem leikmenn eða vígðir. Prestastefnur og Kirkjuþing hafa fjallað um samkynhneigð og kirkju og hvatt til umræðu, samtals og fræðslu á vettvangi kirkjunnar. Samkynhneigðir eru velkomnir í samfélag kirkjunnar," segir Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.

Karl sagði að þjóðkirkjan viðurkenndi staðfesta samvist sem sambúðarform og hún hefði á sínum tíma fagnað þeirri réttarbót sem lögin um staðfesta samvist voru. Prestar þjóðkirkjunnar hefðu blessað samkynhneigð pör, þó að það væri ekki athöfn sem hefur formlegt gildi að lögum.

Biskup sagði að kirkjan þyrfti auðvitað að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. "Sem stendur höfum við meðal annars sett okkur að efla fræðslu meðal starfsmanna kirkjunnar, innan sálgæslunnar, um samkynhneigð með það í huga að vera betur í stakk búin til að taka á móti þeim sem glíma við vanda vegna hennar, bæði samkynhneigt fólk og aðstandendur þeirra. Einnig fylgjumst við grannt með umræðu um þessi mál hjá systurkirkjum okkar.

Prestafélag Íslands hélt nýlega málþing með Samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra þar sem tekinn var púlsinn á stöðunni og sú umræða heldur áfram innan þeirra vébanda.

Hér er íslenska þjóðkirkjan samstiga þeim kirkjum sem þjóðkirkjan er í samstarfi við austan hafs og vestan og fylgist náið með þeim umræðum sem þar eiga sér stað. Þar eru miklar umræður og deilur um þessi mál, en formlega hefur engin nágrannakirknanna vígt samkynhneigða sem hjón," sagði biskup.