Stofnfundur Félags kvenna í lögmennsku var haldinn í húsakynnum Lögmannafélagsins í vikunni.
Stofnfundur Félags kvenna í lögmennsku var haldinn í húsakynnum Lögmannafélagsins í vikunni. — Morgunblaðið/Golli
SJÖTÍU konur mættu á stofnfund félags kvenna í lögmennsku í gær. Nýkjörinn formaður félagsins er Sif Konráðsdóttir lögmaður.

SJÖTÍU konur mættu á stofnfund félags kvenna í lögmennsku í gær. Nýkjörinn formaður félagsins er Sif Konráðsdóttir lögmaður. Markmið félagsins er að efla samstarf og styrkja stöðu kvenna í lögmennsku auk þess sem félaginu er ætlað að mynda eins konar tengslanet kvenna sem stunda lögmennsku. Þá er félaginu ætlað að auka áhrif og þátttöku kvenna í lögmennsku.

Að sögn Völu Valtýsdóttur lögmanns, sem sat í undirbúningsnefnd fyrir stofnun félagsins, er hlutfall kvenna meðal sjálfstætt starfandi lögmanna einungis 14%. Hlutfallið virðist ekki vaxa í samræmi við aukna ásókn kvenna í lögfræðinám, en undanfarin ár hefur Háskóli Íslands útskrifað álíka margar konur og karla úr lagadeild ár hvert. Hlutfall kvenna meðal lögmanna fyrirtækja og stofnana er um helmingur, en Vala segist ekki vita hvernig standi á því að þær sæki í þau störf en síður í að gerast sjálfstætt starfandi lögmenn.

Eitt af fyrstu verkefnum stjórnar hins nýstofnaða félags verði að kanna ástæður þess að konur með lögfræðimenntun leggja síður stund á lögmennsku en karlar með sömu menntun.

Alls eru 667 félagsmenn í Lögmannafélaginu, þar af eru 147 konur eða um fjórðungur félagsmanna. Að sögn Sifjar Konráðsdóttur fór mæting á fundinn fram út björtustu vonum en um 70 konur voru á stofnfundinum eða helmingur þeirra kvenna sem eru í Lögmannafélaginu.

Í stjórn félagsins voru, auk Sifjar, kjörnar Svala Thorlacius, Margrét Einarsdóttir, Kristín Edwald og Helga Melkorka Óttarsdóttir. Varamenn í stjórn eru Hjördís Harðardóttir og Inga Þöll Þorgrímsdóttir.

Heiðursfélagi Félags kvenna í lögmennsku er Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari, en hún var önnur konan til að öðlast málflutningsréttindi á Íslandi.