Frá æfingu  Söngsveitarinnar Fílharmóníu, en aðaltónleikar kórsins á þessum vetri verða í Langholtskirkju á morgun og nk. þriðjudagskvöld.
Frá æfingu Söngsveitarinnar Fílharmóníu, en aðaltónleikar kórsins á þessum vetri verða í Langholtskirkju á morgun og nk. þriðjudagskvöld. — Morgunblaðið/Jim Smart
AÐALTÓNLEIKAR starfsársins hjá Söngsveitinni Fílharmóníu verða í Langholtskirkju á morgun, laugardag, kl. 17.00 og nk. þriðjudagskvöld kl. 20.00. Flutt verða tvö stór kórverk, Dixit Dominus eftir G. F. Handel og hin svonefnda Pákumessa eftir J.

AÐALTÓNLEIKAR starfsársins hjá Söngsveitinni Fílharmóníu verða í Langholtskirkju á morgun, laugardag, kl. 17.00 og nk. þriðjudagskvöld kl. 20.00. Flutt verða tvö stór kórverk, Dixit Dominus eftir G. F. Handel og hin svonefnda Pákumessa eftir J. Haydn, sem einnig er þekkt undir heitinu Messa á stríðstímum. Einsöngvarar tónleikanna eru Hlín Pétursdóttir sópran, Xu Wen sópran, Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og Davíð Ólafsson bassi. Konsertmeistari kammersveitarinnar, sem annast undirleik, er Zbigniew Dubik. Stjórnandi tónleikanna er Óliver Kentish, en hann hefur stjórnað Söngsveitinni í vetur meðan aðalstjórnandi kórsins, Bernharður Wilkinson, var í ársleyfi.

Spurður um efnisskrána segir Óliver Kentish að í gegnum tíðina hafi Söngsveitin flutt talsvert af verkum eftir bæði Handel og Haydn, sem dæmi má nefna að sl. vor flutti kórinn Messías eftir Handel og vorið 2002 Messu heilagrar Sesselju eftir Haydn. "Hins vegar hafi Dixit Dominus aldrei verið flutt hérlendis áður, að því ég best veit, og Pákumessan var síðast flutt á tónleikum fyrir tæpum þrjátíu árum, þannig að það var sannarlega kominn tími til að flytja þessi verk. Þau eiga ekki síður erindi við okkur í dag, en á ritunartímanum, enda meginþema verkanna stríð og friður."

Handel samdi Dixit Dominus fyrir Karmelítaregluna í Róm snemma árs 1707, þá aðeins 22 ára að aldri. "Þetta er elsta handritið sem vitað er um eftir Handel og ber verkið svo sannarlega með sér að vera verk ungs manns, því það er mjög þróttmikið og afar glæsileg tónsmíð. Þegar Handel var að semja verkið í Róm á sínum tíma var bannað að semja óperur, en þetta kirkjuverk felur samt í sér mikla dramatík þannig að það mætti lýsa því sem mjög óperulegu, þótt þetta sé ekki ópera."

Að sögn Ólivers gerir Handel miklar kröfur til kórsins í verkinu. "Sópraninn er tvískiptur allan tímann, en verkið er samið fyrir fimm radda kór og strengjasveit. Það má segja að stólparnir í verkinu séu þrír stórir kórkaflar, í byrjun verksins, um miðbik og í lokin, en inn á milli eru síðan kyrrlátir einsöngskaflar."

Ákall um frið

Pákumessa eða Messa á stríðstímum eins og Haydn nefndi verkið sjálfur var samið 1796 í skugga Napóleonsstyrjaldanna. Að sögn Ólivers er þetta önnur messan í röð sex sem Haydn samdi í tilefni af nafndegi Hermenegild, eiginkonu Nikulásar prins í Austurríki, en talið er að verkið hafi verið frumflutt í árslok 1796. "Þegar Haydn var að semja messuna átti Austurríki í hörmulegu stríði við Frakka og herir Napóleons voru óðum að nálgast Vínarborg, þannig að þetta var afar hættulegur tími."

Óliver segir að líklega megi rekja nafngift verksins til þess hve pákurnar eru áberandi í verkinu. "Það er líkt og Haydn sé að lýsa nálægð franska hersins, því pákurnar hljóma eins og hertrumbur í fjarska. Það má skynja fremur ógnvænlegan undirtón í verkinu og þegar kórinn, í lokakaflanum, biður um frið með bænarorðunum "Gef oss þinn frið" þá virkar það í raun fremur eins og tónskáldið sé að heimta frið því bæði pákur og trompetar koma sterkt inn í þetta bænakall."

Að sögn Ólivers eru þessir tónleikar síðasta stórverkefnið sem hann stjórnar með Söngsveitinni, en hann var ráðinn til starfa í vetur meðan Bernharður Wilkinson, aðalstjórnandi kórsins, fór í ársleyfi. "Ég held auðvitað áfram að vinna með kórnum fram á vor, en þá verðum við með minna prógramm tileinkað íslenskum lögum sem ætlunin er að flytja í einhverju nágrannabæjarfélaginu."

Óliver segir störf sín með Söngsveitinni hafa verið afar lærdómsrík fyrir sig. "Ég er vanur að stjórna hljómsveitum, en hafði aðeins einu sinni áður stjórnað kór áður þegar ég tók að mér stjórn Söngsveitarinnar. Það er náttúrlega mikill munur á því að stjórna hljómsveit og kór, því í kórstjórn þarf maður allt í einu t.d. að fara að hugsa um textameðferðina og öndun. Að mörgu leyti er þetta búið að vera ansi strembinn vetur, enda stíf dagskrá, en að sama skapi hefur þetta verið mjög gaman og því ekki laust við að ég sé kominn með kórstjórnarbakteríuna," segir Óliver og þakkar að lokum samstarfsfólki sínu, ekki síst undirleikurunum Guðríði St. Sigurðardóttur og Sólveigu Önnu Jónsdóttur auk Xu Wen sem annast hefur raddþjálfun kórsins, fyrir ánægjulegt samstarf í vetur.

silja@mbl.is