ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að umsögn Impregilo um þingsályktunartillögu tíu þingmanna flokksins um erlendar starfsmannaleigur sé fáheyrð frá fyrirtæki sem "sannarlega hefur orðið sér til skammar hér á Íslandi með því að...

ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að umsögn Impregilo um þingsályktunartillögu tíu þingmanna flokksins um erlendar starfsmannaleigur sé fáheyrð frá fyrirtæki sem "sannarlega hefur orðið sér til skammar hér á Íslandi með því að nota ósvífnar starfsmannaleigur sem beinlínis hafa notfært sér neyð fátæks verkafólks".

Impregilo sendi fjölmiðlum í gær umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við þingsályktunartillögunni. Fyrirtækið segist fagna innihaldi ályktunarinnar, og þeim áformum að skýra lagalegt umhverfi fyrir starfsmannaleigur, en gerir alvarlegar athugasemdir við greinargerð sem fylgir þingsályktuninni.

Impregilo segir það undrunarefni að á þjóðþingi Íslendinga skuli vera dreift þingskjali með "margháttuðum, alvarlegum og röngum ásökunum" í garð fyrirtækisins. "Rógburðurinn er einsdæmi og slíkur að tæpast er tilefni til sérstakra andsvara," segir í umsögninni.

Ómar R. Valdimarsson, talsmaður Impregilo, segir að í greinargerðinni sé m.a. vitnað nær orðrétt í fylgiskjal með ferðasögu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar á vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar. Í greinargerðinni sé því haldið fram að Impregilo hafi þverbrotið allar hefðbundnar reglur á íslenskum vinnumarkaði af starfsmannaleigum og Impregilo. Margsinnis sé það gefið í skyn í skjalinu að fyrirtækið hafi brotið lög hér á landi frá því að það hóf starfsemi. Þessu vísi Impregilo alfarið á bug.

Össur segir það liggja fyrir skjalfest í gögnum, sem hann hafi séð, að erlend starfsmannaleiga hafi látið verkafólk skrifa undir ódagsett uppsagnarbréf fram í tímann, til að hægara yrði um vik að losa sig viðkomandi starfsmenn. Þetta sé ekkert annað en brot á öllum viðteknum hefðum og almennu siðgæði. Með því að notfæra sér þjónustu leigunnar sé Impregilo jafnsekt og hún sjálf. Hér á landi hafi þessi háttsemi mætt sameiginlegri andstöðu samfélagsins alls. Harkaleg viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar hafi komið í veg fyrir að Impregilo héldi áfram "svívirðilegum verknaði" sem fyrirtækið hafi tekið þátt í gegnum starfsmannaleigurnar.

Átti að vera þingmönnum ljóst

Ómar segir skamman tíma hafa verið til undirbúnings framkvæmda og þetta hafi þingmönnum, m.a. innan Samfylkingarinnar, átt að vera ljóst sem greiddu því atkvæði að virkjunarframkvæmdirnar urðu að veruleika. Ómar bendir á að samkomulag hafi náðst við verkalýðsfélögin í október á síðasta ári um launauppgjör við starfsmenn. Fyrirtækið hafi alltaf greitt laun samkvæmt gildandi launatöxtum í virkjunarsamningi.

Össur segir að þótt þingmenn hafi lagt blessun sína yfir framkvæmdirnar hafi þeir ekki verið að fallast á að verktakinn myndi fremja mannréttindabrot.