Svanfríður Jónasdóttir
Svanfríður Jónasdóttir
Er þjóðareign eitthvað betri en einkaeign eða ríkiseign?

ÞAÐ hefur lengi staðið styr um eignarhald á náttúruauðlindum á Íslandi. Deilur um landamerki og eign á landi eru alþekktar, nú síðast vegna laga um þjóðlendur, en í samræmi við þau er unnið að því að ná niðurstöðu um hvaða land er í einkaeign og hvað er þjóðlenda; land sem skilgreint er í eigu ríkisins. Deilurnar um eignarhald á fiskistofnunum í hafinu kringum Ísland, "sameign þjóðarinnar", hafa líka verið mjög fyrirferðarmiklar í þjóðmálaumræðunni. Til að ná árangri við auðlindanýtingu er mikilvægt að eignarhald auðlindanna sé ljóst og þar með ábyrgðin á nýtingu þeirra. Einkaeignarréttur er eini eignarrétturinn sem er skilgreindur í stjórnarskránni. Hann er þó að margra mati ekki fullnægjandi og Auðlindanefnd, sem alþingi kaus vorið 1998, komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að skilgreina einnig í strjórnarskránni þjóðareignarrétt. Með slíkum skilgreindum eignarrétti yrði bæði eiganda (þjóðinni) og þeim sem fengju að nýta það sem skilgreint yrði sem þjóðareign ljósar skyldur sínar og réttindi. Undir þjóðareignarrétt væri þá hægt að fella t.d. fiskistofnana, þjóðlendur, hafsbotninn og annað það sem hingað til hefur í vandræðaskap verið skilgreint sem eigur ríkisins. Hér er við hæfi að minna á deiluna um Þingvelli; eru þeir ríkis eða kirkju? Lögin eru þó skýr; Þingvellir skulu vera ,,ævinleg eign íslensku þjóðarinnar".

Dugar ekki ríkiseignin?

Er þjóðareign eitthvað betri en einkaeign eða ríkiseign? Það er pólitískt mat margra að ekki sé grundvöllur fyrir því að t.d. hálendið (þjóðlendur) og fiskistofnarnir verði skilgreint sem einkaeign þeirra sem það nýta. Það yrði einfaldlega aldrei friður um slíka tilhögun. Þótt ákvæðið um sameign þjóðarinnar í fiskveiðistjórnarlögunum sé óljóst hefur enginn stjórnmálaflokkur treyst sér til að leggja til breytingar á því. En óljós lagaákvæði skapa líka óljósa réttarstöðu. Það þekkja þeir sem nýta fiskistofnana. Með því að skilgreina nýja tegund eignarréttar; þjóðareign, í stjórnarskrá væri hægt að ráða bót á því. Hugmynd auðlindanefndar sneri fyrst og fremst að náttúrurauðlindum og gekk út á það að þjóðareign mætti ekki selja eða láta varanlega af hendi en veita mætti heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum. Einkaeign má hins vegar selja varanlega og það á við um ríkiseignir líka, enda lúta þær sömu lögmálum og einkaeign annarra lögaðila.

Finnum nýja og traustari skipan mála

Forsætisráðherra hafði gefið fyrirheit um það að fyrir síðustu alþingiskosningar yrði lagt fram frumvarp til stjórnskipunarlaga um þjóðareignarákvæði í anda tillögu auðlindanefndar. Þegar til kastanna kom varð ekkert úr því. Hins vegar kom ákvæði þess efnis inn í stjórnarsáttmála að stefnt yrði að því að hið óljósa ákvæði úr lögunum um stjórn fiskveiða yrði sett í stjórnarskrá. Það mun hins vegar engu breyta um óljósa réttarstöðu þeirra sem fá að nýta fiskimiðin og því engu skipta.

Það er mikilvægt að þessi mál séu rædd og við reynum að finna þá skipan mála sem sátt geti orðið um. Nú þegar raforkumarkaðurinn er að opnast er enn brýnni þörf á því að reglur séu skýrar og réttindi á hreinu. Með þjóðareignarákvæði í stjórnarskrá væri hugsanlega unnt að leggja grunn að samræmdum reglum er giltu um allar auðlindir í eigu eða umsjón þjóðarinnar. Það er afar mikilvægt fyrir þjóð sem byggir í svo ríkum mæli á auðlindanýtingu.

Framtíðarhópur Samfylkingarinnar hefur að undanförnu efnt til umræðu víða um land um auðlindanýtingu. Næst á þeirri dagskrá er málstofa um þjóðareign á auðlindum og öðrum sameignum þjóðarinnar sem haldin verður í Norræna húsinu miðvikudaginn 12. maí kl. 16:30. Það verður m.a. fjallað um Public Trust eins og sú tegund þjóðareignar er skilgreind í Bandaríkjunum. Einnig verður fjallað um tillögu auðlindanefndar og ýmsar þjóðareignir sem jafnvel eru munaðarlausar í einhverjum skilningi. Umræðan er mikilvæg og að sem flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að við búum sameignum okkar sem traustastan ramma. Málstofa Framtíðarhópsins er viðleitni í þá veru og væntanlega vekur hún enn frekari áhuga á þessu mikilvæga viðfangsefni.

Svanfríður Jónasdóttir skrifar um eignarhald á náttúruauðlindum

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.