22. maí 2004 | Fólk í fréttum | 676 orð | 1 mynd

Íslenskur gítarleikari gengur í færeysku sveitina Tý

Ekki vandamál að tala saman

Ottó Páll Arnarson er nýi gítarleikarinn í Tý. Hann komst í sveitina með því að senda þeim tölvupóst og upp úr því hófust frekari samskipti.
Ottó Páll Arnarson er nýi gítarleikarinn í Tý. Hann komst í sveitina með því að senda þeim tölvupóst og upp úr því hófust frekari samskipti.
FÆREYSKA víkingametalsveitin Týr er Íslendingum að góðu kunn. Bæði hefur hún komið hingað til lands til tónleika og svo naut "Ormurin langi" mikilla vinsælda. Ennfremur hefur frumraun sveitarinnar How far to Asgaard selst í tæpum 3.
FÆREYSKA víkingametalsveitin Týr er Íslendingum að góðu kunn. Bæði hefur hún komið hingað til lands til tónleika og svo naut "Ormurin langi" mikilla vinsælda. Ennfremur hefur frumraun sveitarinnar How far to Asgaard selst í tæpum 3.000 eintökum og hefur önnur breiðskífa hennar, Eric the Red, hlotið lofsamlega dóma.

Nú hefur 28 ára gítarleikari úr Mývatnssveit, Ottó Páll Arnarson, gengið til liðs við sveitina. "Ég þekkti þá ekki neitt en fékk þá hugmynd að senda þeim tölvupóst í desember 2003 og spyrja hvort þeir væru að leita að gítarleikara. Ég fékk svar frá þeim tveimur dögum seinna að þeir væru að leita. Þannig byrjaði þetta," segir Ottó Páll en Týr hefur verið á höttunum eftir nýjum gítarleikara frá því að Terji Skibenes hætti.

"Ég sendi þeim hljóðupptökur og myndir og síðan fórum við að hringjast á. Svo fór ég í prufu núna fyrir þremur eða fjórum vikum. Ég var þá úti í Færeyjum í viku. Þeir voru búnir að senda mér nótur að fjórum lögum sem ég þurfti að læra. Það hefur greinilega gengið mjög vel," segir Ottó Páll ánægður.

Krefjandi hlutverk

Í tilkynningu frá Tý kemur fram að Terji hafi ekki haft hug á að reyna fyrir sér sem atvinnugítarleikari. "Það er að sjálfsögðu mjög krefjandi hlutverk að vera meðlimur í Tý og það krefst mikils áhuga og eldmóðs. Óþarft er að geta þess að tónlist Týs verður ekki til af sjálfu sér og hún þarf sinn tíma til fullsköpunar. Hún krefst mikilla hæfileika og æfinga. Mikill tími fer í æfingar eins og allir atvinnumenn gera til að verða góðir," segir í tilkynningunni.

"Markmiðið er að verða atvinnumenn í tónlistargreininni og geta nýtt hverja stund til að semja lög, æfa, vinna við upptökur og að sjálfsögðu fara í hljómleikaferðir eins mikið og mögulegt er," segir þar líka, þannig að það er enginn lúxus framundan hjá Ottó Páli.

Passaði vel í hópinn

"Ég reiknaði aldrei með því að þetta ætti eftir að gerast. En mér líst miklu meira en frábærlega á þetta. Hinir þrír eru allir mjög almennilegir og við náðum vel saman. Ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að þeir völdu mig, að ég passaði best inn í hópinn af þeim sem þeir voru að skoða," segir hann.

Týr er sammála þessu í tilkynningu sinni: "Við erum mjög ánægðir með að hafa fundið Ottó, tónlistarmann sem deilir með okkur sömu framtíðarsýn og er ákveðinn að helga Tý sína hæfileika og starfskrafta í þessu verkefni með Hera, Gunnari og Kára, í að gera Tý að atvinnumannahljómsveit."

Ottó Páll hefur spilað á gítar frá því hann var um 16 ára. "Hann er gítarkennari hann Heri. Hann sér það á þér hvort þú kannt að spila á gítar eða ekki. Því miður hef ég ekki farið í neitt gítarnám en ég mæli eindregið með því að allir sem ætli sér eitthvað í þessu geri það. Ég hugsa að ég væri dálítið mikið betri ef ég hefði lært eitthvað," segir Ottó Páll sem segist þó vera mjög fljótur að læra lög eftir að hafa hlustað á þau nokkrum sinnum. "Nema lögin hjá Tý, þetta er ekkert sem er gert á fimm mínútum. Þeir semja ekki lag á einum degi. Þetta er flókið og krefst mikilla æfinga," segir hann.

Tónleikahald framundan

Ottó Páll er staddur sem stendur í Mývatnssveitinni þar sem hann er búsettur en fer út til Færeyja næstkomandi föstudag. "Þá verð ég úti í tvo mánuði að minnsta kosti," segir hann en framundan í sumar og haust er tónleikahald í Færeyjum, Þýskalandi og Rússlandi. Og aldrei að vita nema Týr fái tækifæri til að heimsækja landann í lok júní.

Samskipti Íslands og Færeyja eru greinilega alltaf að eflast. "Já, þeir vita ótrúlega mikið um Ísland, meira en ég veit um Færeyjar. Heri, sem er aðalmaðurinn í þessu, hann talar fína íslensku og það hefur ekkert verið vandamál hjá okkur að tala saman. Hann getur líka talað við mig á færeysku. Hún er ótrúlega einföld þegar maður er búinn að vera í Færeyjum í nokkra daga."

Ævintýrið leggst vel í Ottó Pál. "Þetta er mjög spennandi og þetta er tækifæri sem ég gat ekki látið framhjá mér fara."

ingarun@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.