Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi á geðdeild LSH, sagði frá athyglisverðum hugmyndum um meðferð og endurhæfingu geðsjúkra í Morgunblaðinu sl. sunnudag.

Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi á geðdeild LSH, sagði frá athyglisverðum hugmyndum um meðferð og endurhæfingu geðsjúkra í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Beinast þær að því að efla sjálfstraust og sjálfsvirðingu sjúklinga og gera þeim kleift að bera ábyrgð á eigin lífi og læra að lifa með sjúkdómi sínum.

Elín Ebba heldur því fram að hér á landi hafi menn "ofurtrú á lyfjum og læknisfræðilegum inngripum" og segir "sjúkrahús beinlínis bataletjandi fyrir geðsjúka". Hún telur geðdeild Landspítalans alltof stóra eftir sameiningu sjúkrahúsanna, segir að "við eigum bara að hafa bráðaþjónustuna innan sjúkrahússins, en færa allt annað starf þaðan. [...] Ég efast ekki um að kerfi, sem skipti meðferð geðsjúkra upp á þennan hátt, yrði miklu skilvirkara til lengri tíma litið", segir hún. "Þar að auki er það undarleg ráðstöfun að hafa bráðaþjónustu og alla endurhæfingu, barna- og unglingageðdeild og langdvalardeildir, undir sömu stjórn. Slíkt þætti áreiðanlega ekki góð latína ef um einhvern annan sjúkdóm væri að ræða."

Elín Ebba virðist óneitanlega hafa mikið til síns máls hvað málefni geðsjúkra varðar. Hún segir það staðreynd "að í allt að 60-70% tilvika [séu] geðsjúkdómar krónískir sjúkdómar sem fólk þarf að lifa með alla ævi, en kerfið ætlar ekki að losna úr því fari að meðhöndla þá alltaf sem bráðatilfelli". Í stað slíkrar bráðameðferðar hefur Elín Ebba og samstarfsfólk hennar um atvinnusköpun fyrir geðsjúka, svonefnt Hlutverkasetur, lagt til að gæðaeftirlit á meðferð geðsjúkra hefjist hér á landi í sumar. Í því eftirliti er ætlunin að "nýta þekkingu og reynslu geðsjúkra sjálfra til að leggja mat á þjónustuna", sem geðsjúkir fá. "Með því að nýta reynslu og þekkingu geðsjúkra erum við einfaldlega að fara sömu leið og viðskiptalífið fann fyrir löngu, að nýta rýnihópa til að átta okkur á hvað megi betur fara," segir hún.

Því má aldrei gleyma, að eins og Elín Ebba bendir á, eru geðsjúkdómar þess eðlis að sá sem við sjúkdóminn glímir missir iðulega samfara veikindum sínum sjálfstraust sitt og um leið getuna til að taka ábyrgð á eigin lífi. Þegar svo er komið er hætt við að viðkomandi einstaklingur festist í vítahring lyfjanotkunar og þeirrar forræðishyggju sem oft á tíðum einkennir sjúkrastofnanir, ekki síst þegar verið er að meðhöndla geðsjúkdóma, og bati láti á sér standa. Að sjálfsögðu eru til þeir einstaklingar sem ætíð eru mjög veikir og þurfa jafnvel stöðugt á þjónustu inni á sjúkrahúsum að halda. Þeir eru þó ekki svo stórt hlutfall af heildinni. Það er því augljóst að ef sá sem við geðrænan vanda stríðir getur lært að þekkja sjúkdóm sinn, einkenni hans og ferli eru töluverðar líkur á því að hann geti jafnframt hagað lífi sínu þannig að sjúkdómurinn sé viðráðanlegur.

Það hlýtur að vera meginhlutverk heilbrigðiskerfisins að sinna öllum sem við sjúkdóma glíma þannig að þeir geti tekið ábyrgð á sjálfum sér, séð um sig sjálfir og lifað með sjúkdómi sínum þ.e.a.s. ef ekki tekst að lækna hann. Meðhöndlun við geðsjúkdómum hefur fleygt fram á síðustu áratugum og afar mikilvægt að sú jákvæða þróun sem átt hefur sér stað haldi áfram. Eins og Elín Ebba bendir á búa geðsjúkir yfir mikilvægri reynslu sem auðvitað á að nýta þeim til framdráttar. Það er því full ástæða til að rannsaka hvaða leiðir, aðrar en lyfjagjöf, eru líklegastar til að skila varanlegum árangri og búa þannig um hnútana að þróuð séu mismunandi úrræði er henta ólíkum þörfum þess breiða hóps einstaklinga er eiga í miserfiðri glímu við geðsjúkdóma.