[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný göngubrú yfir Jökulsá við Eskifell í Lóni hefur verið opnuð fyrir göngufólki.

Ný göngubrú yfir Jökulsá við Eskifell í Lóni hefur verið opnuð fyrir göngufólki. Um er að ræða 95 metra langa brú, sem byggð er af Vegagerð Ríkisins og er hluti af framkvæmdum sem byggjast á stefnumörkun landeigenda Stafafells í Lóni í ferða- og útivistarmálum. Þar er gert ráð fyrir byggingu göngubrúa og þjónustusvæða sem stuðla að því að gera Stafafell að samfelldu útivistarsvæði frá fjöru til fjalls og nær það yfir ríflega 300 ferkm svæði. Auk brúargerðar við Eskifell, Kollumúla og Víðidal, er unnið að uppbyggingu þjónustusvæða, sem gert er ráð fyrir að verði fimm í fjöllunum.

Gunnlaugur B. Ólafsson, fararstjóri og fulltrúi eigenda Stafafells, segir nýju göngubrúna vera mikilvægan áfanga í uppbyggingu þessa griðlands fyrir göngufólk. "Nýja Jökulsárbrúin tengir saman mikilvæg göngusvæði. Ein dagleið er úr byggð um Austurskóga yfir í Eskifell. Þaðan er síðan dagleið í Kollumúla, meðfram Jökulsárgljúfri og yfir í Illakamb. Frá Kollumúla eru síðan ýmsir möguleikar til gönguferða, m.a. meðfram Tröllakrókum og yfir í Víðidal."

Gunnlaugur bendir á að ný gistiaðstaða hafi einnig bæst við á svæðinu. "Við höfum unnið að því að stækka tjaldstæði að Smiðjunesi, en það er staðsett í fallegri líparíthvelfingu og liggja þaðan skemmtilegar gönguleiðir inn að Hvannagili. Þá verður grædd upp tjaldstæðaflöt við Eskifell, og gistigámum komið þar fyrir til bráðabirgða þar til að skáli verður byggður. Þetta er liður í því að standsetja 35 km meginleið í gegnum svæðið sem nær alveg úr byggð inn í Víðidal, en til þess hlutum við m.a. styrk frá Ferðamálaráði," segir Gunnlaugur.

Efnt verður til formlegrar opnunar Stafafells sem útivistarsvæðis um Verslunarmannahelgina og verða skemmtidagskrá og gönguferðir skipulagðar af því tilefni.