Flateyjarkirkja á Skjálfanda hefur fengið andlitslyftingu.
Flateyjarkirkja á Skjálfanda hefur fengið andlitslyftingu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnið hefur verið að endurbótum á Flateyjarkirkju á Skjálfanda að undanförnu og hefur trésmiðjan Rein í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu séð um framkvæmdir. Skipt var um klæðningu útveggja og gert við glugga.
Unnið hefur verið að endurbótum á Flateyjarkirkju á Skjálfanda að undanförnu og hefur trésmiðjan Rein í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu séð um framkvæmdir. Skipt var um klæðningu útveggja og gert við glugga. Kirkjan var klædd að utan með aluzink og allt gler í gluggum kíttað upp.

Að sögn Stefáns Óskarssonar yfirsmiðs reyndist ástand kirkjunnar gott nema skipta þurfti um öll fótstykki, undir kirkjuturninum.

"Mjög tímabært var hins vegar orðið að skipta um klæðningu og ná fúanum úr. Og ætti nýja klæðningin að geta enst næstu 44 árin, líkt gamla klæðningin hefur gert. Þegar kirkjan var endurbyggð í Flatey 1960 voru veggir forskalaðir en turninn klæddur með sléttu hvítu stáli. Árið 1987 var forskalning farin að láta á sjá og losna frá þannig að brugðið var á það ráð að klæða kirkjuna að utan með sams konar klæðningu og var á turninum.

Fúi var nú kominn fram þar sem járnið lá svo þétt við timbrið að nauðsynlegt þótti að klæða hana upp á nýtt."

Nýtt sáluhlið komið

Fyrir tveimur árum var skipt um þakjárn. Í fyrra var rennt í kirkjutröppurnar og þær pússaðar auk þess sem nýtt sáluhlið að kirkjugarðinum var reist og girðing þar utan um. Verkið nú gekk vonum framar og tók fjóra menn átta vinnudaga. Vinnuflokkurinn hélt til á bænum Bergi þar sem hann var í fæði og húsnæði hjá þeim hjónum Stefaníu Jóhannesdóttur og Jóni Hermannssyni.

Kirkja hefur verið í Flatey allt frá söguöld og alltaf þótti gott að heita á hana.

Í jarðskjálftanum árið 1872 skemmdist kirkjan og þurfti þá að byggja nýja og stærri kirkju. Þar sem kirkjugarðurinn var orðinn útgrafinn þurfti að flytja kirkjuna úr garðinum. Eftir miklar vangaveltur var tekin ákvörðun um að byggja nýja kirkju á landi, en þá var svipaður fjöldi sóknarbarna á landi og í eyjunni. Eftir að kirkjan hafði verið flutt að Brettingsstöðum á Flateyjardal varð þróunin sú að eyjarskeggjum fjölgaði hægt og rólega ensóknarbörnum í landi fækkaði. Eftir að Brettingsstaðir fóru í eyði var kirkjan flutt til Flateyjar á ný og endurvígð þar 17. júlí 1960, sjö árum áður en Flatey fór í eyði.

Flateyjarkirkja hefur verið annexía frá Húsavíkurkirkju frá árinu 1955, í prófaststíð Friðriks A. Friðrikssonar, þáverandi sóknarprests á Húsavík. Guðsþjónustur fara árlega fram í Flateyjarkirkju um verslunarmannahelgar og mun séra Sighvatur Karlsson messa þar næsta sunnudag.

Yfirmaður Flateyjarkirkju er sr. Pétur Þórarinsson, prófastur í Laufási í Eyjarfirði. Að hans skipan eru umsjónarmenn kirkjunnar Guðmundur Sigurðsson, bóndi í Fagranesi í Aðaldal og formaður sóknarnefndar Grenjaðarstaðarkirkju og Helga Jónína Stefánsdóttir, fyrrverandi formaður sóknarnefndar Húsavíkurkirkju. Endurbætunar á kirkjunni hafa verið unnar í samráði við og undir stjórn Magnúsar Skúlasonar, framkvæmdastjóra húsafriðunarnefndar, sem veitt hefur ásamt jöfnunarsjóði sókna fjármagnið til verksins.

Gifting í Flatey

Gifting fór fram í Flateyjarkirkju að loknum endurbótunum sl. sunnudag þegar Þórdís Gunnarsdóttir, ættuð frá Útibæ í Flatey, og Gunnar Óli Hákonarson, frá Árbót í Aðaldal, gengu í hjónaband, en ekki er vitað til þess að gifting hafi þar farið fram eftir að kirkjan var flutt frá Flateyjardal.

Ferming fór þar hins vegar fram 1981 og skírn í fyrrasumar. Sr. Svavar A. Jónsson, sóknarprestur á Akureyri, gaf brúðhjónin saman og sá Birgitta Haukdal, æskuvinkona brúðarinnar, um sönginn.