15. september 2004 | Viðskiptafréttir | 306 orð | 1 mynd

Hyggst stofna nýtt póstdreifingarfyrirtæki með Frétt hf.

Verkefninu lokið Einar Þorsteinsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, segist vilja breyta til.
Verkefninu lokið Einar Þorsteinsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, segist vilja breyta til.
EINAR Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts, hefur sagt starfi sínu lausu. Fram kemur í tilkynningu frá Íslandspósti að stjórnin hafi samþykkt uppsögn forstjórans og lét Einar af störfum í gær. Einar segir að ástæður fyrir uppsögninni séu einfaldar.
EINAR Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts, hefur sagt starfi sínu lausu. Fram kemur í tilkynningu frá Íslandspósti að stjórnin hafi samþykkt uppsögn forstjórans og lét Einar af störfum í gær.

Einar segir að ástæður fyrir uppsögninni séu einfaldar. Hann hafi tekið að sér árið 1998 að gera ríkisstofnun að öflugu og arðbæru fyrirtæki og því verki sem slíku sé lokið, að hans mati. "Ég hef líka þá skoðun að menn eigi ekki að vera allt of lengi á hverjum stað og það sé gott fyrir bæði mann sjálfan og fyrirtækið að skipt sé um mann í brúnni. Mér fannst kominn tími á slíka breytingu," segir Einar.

Einar segir að fram undan sé stofnun nýs póstdreifingarfyrirtækis í samstarfi við Frétt hf., sem gefur út Fréttablaðið og DV. Fyrirtækið verður að stærstum hluta í eigu Fréttar en Einar mun einnig eiga hlut í því. Verður það byggt á dreifikerfi Fréttablaðsins og verður ætlað að hasla sér völl í dreifingu pósts af öllu tagi. Einar segir að breytingar á einkarétti Íslandspósts á dreifingu bréfa undir ákveðinni lágmarksþyngd veiti fyrirtæki sem þessu ákveðin tækifæri, en þær hafi hins vegar ekki ráðið því að hann ætli að skipta um starf. Íslandspóstur hefur í dag einkarétt á því að dreifa bréfum sem eru léttari en 100 grömm, en þyngdarmörkin verða lækkuð í 50 grömm árið 2006 og er markmiðið að fella þau alfarið úr gildi.

Gott samkomulag

Björn Jósef Arnviðarson, stjórnarformaður Íslandspósts, segir að ráðning nýs forstjóra verði skoðuð á stjórnarfundi sem haldinn verður öðru hvorum megin við næstu helgi, en Anna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og Andrés Magnússon starfsmannastjóri munu sinna störfum forstjóra uns nýr forstjóri hefur verið ráðinn. Björn segir stjórnina sjá á eftir Einari, en starfslok hans hefðu orðið í góðu samkomulagi á milli aðila. Einar tók við sem forstjóri Íslandspósts 1. janúar 1998 og hefur því stjórnað félaginu í um sex og hálft ár.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.