Rússnesk herskip og aðstoðarskip þeirra eru enn á Þistilfjarðargrunni, skammt utan við 12 mílna lögsöguna. Heræfingunni á að ljúka 25. október.
Rússnesk herskip og aðstoðarskip þeirra eru enn á Þistilfjarðargrunni, skammt utan við 12 mílna lögsöguna. Heræfingunni á að ljúka 25. október.
VARÐSKIP lónar í kringum rússneska herskipaflotann sem hefur haldið sig á Þistilfjarðargrunni undanfarnar tvær vikur og flugvél Landhelgisgæslunnar og Flugmálastjórnar hafa flogið þar yfir.

VARÐSKIP lónar í kringum rússneska herskipaflotann sem hefur haldið sig á Þistilfjarðargrunni undanfarnar tvær vikur og flugvél Landhelgisgæslunnar og Flugmálastjórnar hafa flogið þar yfir. Varnarliðið fylgist væntanlega með ferðum flotans með ratsjám en engar eftirlitsflugvélar eru hér á vegum liðsins.

Í gær voru sjö rússnesk herskip á Þistilfjarðargrunni, nokkrar sjómílur fyrir utan 12-mílna landhelgismörkin. Þrjú skip úr flotanum höfðu siglt á brott á sunnudag og mánudag og tilkynnt hafði verið að hin skipin fjögur hyrfu á brott í fyrrinótt. Það stóðst ekki, skipin þrjú bættust aftur í flotann upp úr miðnætti í fyrrinótt og í gærmorgun var tilkynnt að herskipaflotinn yrðu á sömu slóðum í fjóra sólarhringa til viðbótar, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Engar skýringar voru gefnar á þessum breytingum í áætlunum Rússanna.

Stærstu skipin í flotanum eru flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og kjarnorkuknúna beitiskipið Pétur mikli.

Engar eftirlitsflugvélar

Að sögn Friðþórs Eydal, upplýsingafulltrúa varnarliðsins, hafa engar P-3 Orion-eftirlitsflugvélar verið hér á landi á vegum varnarliðsins frá áramótum en fram að því voru hér fjórar til fimm slíkar vélar að staðaldri. Varnarliðið ræður yfir þyrlum og fjórum orrustuþotum og segir Friðþór Eydal að hægt væri að senda þær til eftirlits ef þess væri talin þörf. Hann vissi ekki til þess að það hefði verið gert og í rauninni væri engin ástæða talin til þess. "Við höfum ekkert um málið að segja. Við bara fylgjumst með málinu og höfum skipst á upplýsingum við íslensk stjórnvöld," segir hann.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni sá áhöfn TF-SÝN fyrst til skipanna 29. september. Eftir að flugvélin fór í skoðun 1. október var flugvél Flugmálastjórnar leigð til að halda uppi eftirliti á svæðinu. Dagmar Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagðist ekki geta greint frá því hversu oft hefði verið flogið yfir flotann á hennar vegum.

Um níuleytið á mánudagsmorgun flaug norsk P-3 Orion-flugvél yfir svæðið og upp úr hádegi urðu varðskipsmenn varir við breska Nimrod-vél á svæðinu og flaug hún í burtu um kl. 15.

Litlar upplýsingar til sendiráðsins

Sergey Guschin, 3. sendiráðsritari rússneska sendiráðsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að sendiráðið hefði takmarkaðar upplýsingar um flotaæfingarnar fyrir norðan land. Þær væru hluti af stærri æfingu Norðurflotans sem hófst 24. september og mun ljúka 25. október nk. Sendiráðið hefði fengið orðsendingu um æfingarnar í lok september og að hugsanlegt væri að flugvélar af flugmóðurskipi yrðu í námunda við Ísland. Átti sendiráðið að óska eftir því við íslensk stjórnvöld að þær fengju leyfi til að lenda hér á landi í neyðartilvikum. Að öðru leyti hefði ekki verið minnst á Ísland. Aðspurður sagði hann að haft hefði verið samband við stjórnvöld í Moskvu vegna þriggja björgunarbáta af skipunum sem íslensk fiskiskip fundu á reki. Þær upplýsingar hefðu fengist að bátarnir hefðu fallið mannlausir útbyrðis í slæmu veðri.

Guschin sagði að þetta væru umfangsmestu æfingar rússneska norðurflotans í um áratug og á þessu ári stæði til að halda um 40 æfingar í Rússlandi og víða um heim, bæði einhliða og með öðrum þjóðum, þ.á m. með aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Hluti af æfingunni hefði þegar farið fram í Norðursjó, þar hefði verið um að ræða sameiginlega æfingu rússneska og bandaríska flotans. Tvö rússnesk herskip og nokkrir kafbátar hefðu tekið þátt í henni. Hann vissi ekki hvort kafbátar fylgdu flotanum sem er hér við land.