[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rapparinn Nelly sendi frá sér tvær plötur á sama degi í september, Suit er í rólegri dúr en Sweat er til að dilla sér yfir.

Rapparinn Nelly sendi frá sér tvær plötur á sama degi í september, Suit er í rólegri dúr en Sweat er til að dilla sér yfir. Skemmst er að segja frá því að plöturnar fóru báðar í efstu tvö sætin á Billboard-vinsældalistanum eftir að þær komu út og sitja þær báðar enn á topp tíu.

Báðar eru þetta poppplötur en Suit er sannarlega poppaðri platan. Nelly vinnur með mörgum listamönnum á plötunni, eða í sjö lögum af ellefu. Fyrsta lagið "Play It Off", gerir Nelly með Pharrell Williams og er það eitt besta lagið. Í heildina er platan væmin og er þörf á sjóveikistöflum fyrir þá sem eru óvanir svona sætindum. Nelly segir líka "baby" of oft fyrir minn smekk.

Hægt er að svitna örlítið meira yfir Sweat þó enginn sé smellurinn á borð við "Hot in Here" sem Nelly gerði með Neptunes. Platan byrjar með baráttulaginu "Heart of a Champion" sem er grípandi en þreytandi, Nelly og Christina Aguilera eru með ágætis dúett í "Tilt Ya Head Back" og andi fortíðar svífur yfir vötnum í sérlega skemmtilegu lagi, "Playa", með Missy Elliott og Mobb Deep, sem er auðveldlega hægt að hlusta á hvað eftir annað.

Nelly telur greinilega að aðdáendur hans fái ekki nóg af honum eins og þessi tvöfaldi skammtur sýnir. Sölutölur bera þess vitni að hann hafi rétt fyrir sér en aðdáendur standa með honum í gegnum súrt og sætt. Plötuumslögin tvö innihalda hvort fyrir sig plakat af Nelly, ef einhver hefur áhuga á að hafa hann uppá vegg hjá sér. Hægt er að leggja diskana tvo hlið við hlið þannig að þeir sýni andlitið á honum sem eina heild, sem gefur í skyn að Nelly finnist plöturnar vera ein heild, tvær hliðar á sama manni. Allt í allt eru þetta meira en níutíu mínútur af tónlist og er of stór skammtur af Nelly fyrir mig, aðeins fyrir hörðustu aðdáendur - of lítill sviti, of mikil sætindi.

Inga Rún Sigurðardóttir