ÍRAKSMÁLIÐ og æfingar rússnesku herskipanna norðaustur af landinu voru til umræðu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær. Íraksmálið var tekið fyrir að beiðni Steingríms J.

ÍRAKSMÁLIÐ og æfingar rússnesku herskipanna norðaustur af landinu voru til umræðu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær. Íraksmálið var tekið fyrir að beiðni Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri grænna, sem jafnframt hefur óskað eftir utandagskrárumræðu á Alþingi um Rússaæfingarnar.

Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, kom á fund nefndarinnar og að sögn Sólveigar Pétursdóttur nefndarformanns voru lögð fram viðamikil gögn í málinu. Fjallað var um stríðið og aðdraganda þess og rætt um lagaleg álit ríkisstjórna Bretlands, Danmerkur, Ástralíu og Bandaríkjanna varðandi þátttöku þeirra. Einnig var lögð fram skýrsla sérnefndar efri deildar Bandaríkjaþings og lagðar fram niðurstöður skýrslu Duelfers um tilvist gereyðingarvopna. Þá var lögð fram skýrsla Huttons lávarðar um andlát dr. Davids Kellys og ásakanir um að bresk stjórnvöld hefðu vísvitandi ýkt fullyrðingar um vígstöðu Íraka.

"Þetta eru mikil gögn og ég taldi rétt að nefndarmenn fengju tíma til að fara yfir þau og utanríkismálanefnd mun taka málið á dagskrá síðar," segir Sólveig Pétursdóttir. Hún tekur fram að beiðni Steingríms J. sé það ítarleg að setja verði fyrirvara á ýmislegt í henni. "Það verður að hafa það í huga að hér var um að ræða pólitíska ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem tóku ákvörðun um að standa með sínum bandamönnum."

Varðandi rússnesku herskipin sem hafa verið hér við land kom fram í máli ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins að rússnesk stjórnvöld hefðu látið íslensk stjórnvöld vita af komu skipanna. "Það er þó ekki hægt að amast við skipunum því þau eru á æfingum á alþjóðlegri siglingaleið. Það hafa engar upplýsingar komið fram um að þau séu með kjarnorkuvopn en að sjálfsögðu mun utanríkismálanefnd fylgjast áfram með málinu."

Vantar enn mikið upp á

Steingrímur J. Sigfússon sagði fundinn hafa verið gagnlegan og mikið af gögnum hefði verið lagt fram. "Það vantar þó enn mikið upp á að við séum komin með allar nauðsynlegar upplýsingar í hendur til að getum kafað til botns í því hver var aðdragandi þess að Ísland birtist á þessum fræga lista," segir Steingrímur. "Ég óskaði eftir því að við fengjum tæmandi yfirlit yfir það, þ.e. símtöl, samtöl, fundi og eftir atvikum bréfleg gögn sem væri að finna í stjórnarráðinu, einkum frá þeim tíma sem Tony Blair og Georg W. Bush hittast á Azoreyjum og það sem gerist frá 17. mars þegar Bretar Bandaríkjamenn og Spánverjar draga til baka drög að ályktunartillögu sinni í öryggisráði SÞ." Að mati Steingríms þarf að kanna hvað gerðist þá sólarhringa sem liðu þar til nafn Íslands birtist "öllum að óvörum á listanum," segir Steingrímur.

"Næsta skref okkar verður væntanlega að óska eftir því að forsætisráðherra komi til fundar við nefndina og þessari vinnu verður haldið áfram eins og tök eru á."

Steingrímur hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um rússnesku herskipin og telur það mál stærra í sniðum en menn hafa áttað sig á, ekki eingöngu út frá öryggis- heldur líka út frá umhverfissjónarmiðum. "Mér finnst það ekkert sérstaklega notaleg tilfinning að tugþúsunda tonna kjarnorkukláfur liggi við festar við einhver bestu fiskimið landsins út af Langanesi dögum og vikum saman," segir hann.